Í vikunni er Degi leikskólans fagnað í öllum kjörnum Múlaþings. Dagurinn sjálfur er þó fimmtudaginn 6. febrúar. Skólarnir gera það hver með sínu sniði. Á ári hverju er til að mynda farið með listaverk frá börnunum á Djúpavogi út í samfélagið og þau hengd upp á ýmsum stöðum og að þessu sinni verða þau í búðinni. Síðan verður foreldrakaffi og kaka á kaffistofunni.
Á Egilsstöðum verður opið hús og foreldrum er boðið í heimsókn í leikskólann þar sem þeim er boðið upp á veitingar og þau taka þátt í starfinu.
Á Hádegishöfða í Fellabæ verður einnig boðið upp á opið hús þar sem foreldrar og börn geta átt saman góða stund í leikskólanum. Inni á deildum verða ýmsar stöðvar og verkefni í boði og í salnum verður kaffihúsastemning þar sem boðið verður upp á vöfflur og kakó ásamt ávöxtum.
Dagur leikskólans er merkilegur fyrir þær sakir að þann dag árið 1950 voru stofnuð fyrstu samtök leikskólakennara. Markmið dagsins er að styðja við jákvæða umræðu um leikskólastarfið og um leið beina athygli samfélagsins að því faglega og metnaðarfulla starfi sem fer fram innan skólanna á degi hverjum.
Í tilefni dagsins voru nokkur leikskólabörn spurð út í það af hverju þau væru á leikskóla og hvað þeim þætti skemmtilegast að gera í leikskólanum. Það stóð auðvitað ekki á svörum og hér eru nokkru þeirra:
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í leikskólanum:
5 ára: ,,Að perla“
4 ára: ,,Að leika við vini mína“
4 ára: ,,Leika og perla og dansa öll saman“
4 ára stelpa: ,,Leika í eldhúsdótinu og mála“
5 ára strákur: ,,Fara í eltingaleik, leika í snjónum og holukubbar“
5 ára stelpa: ,,Val, spila og leika við vin minn úti“
5 ára strákur: ,,Leika mér“
5 ára: ,,Leika með vinkonu minni og kubba“
3 ára: ,,Mér finnst skemmtilegast að róla og renna í rennibrautinni"
3 ára: ,,Mér finnst skemmtilegast að leika í leikskólanum"
Af hverju ertu í leikskóla:
5 ára: ,,Til þess að læra“
5 ára: ,,Svo mamma og Pabbi geta farið að vinna“
5 ára: ,,Út af mamma og pabbi segja að ég eigi að fara í leikskólann“
5 ára: ,,Læra íslensku“
5 ára: ,,Af því ég vil fara í leikskólann“
4 ára: ,,Af því mamma segir það“
4 ára: ,,Af því af því …. Ég veit það ekki“
5 ára: ,,Til að læra að gera alls konar“
3 ára: ,,Að því að"
3 ára: ,,Því ég er bara að leika"
Forsjárfólk og aðrir aðstandendur eru hvött til að spyrja leikskólabörnin í sínu nærumhverfi út í daginn og almennt það sem fer fram á leikskólanum, enda er þar unnið mikilvægt starf allt árið um kring.