Fara í efni

Cittaslow bæir taka höndum saman fyrir Úkraínu

 

Djúpivogur varð aðili að Cittaslow-hreyfingunni árið 2013.

Á Djúpavogi er lögð áhersla á sérstöðu náttúrunnar, t.d. með friðlýsingum á náttúru- og menningarminjum á fjölmörgum svæðum sbr. Teigarhorn. Flokkun og endurvinnsla sorps hefur verið innleidd ásamt því sem stór skref hafa verið tekin til fegrunar umhverfis. Leitað hefur verið leiða til að finna gömlum byggingum nýtt hlutverk. Lögð er áhersla á að tryggja fjölbreytni í atvinnumálum þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki með vistvænan atvinnurekstur eru sérstaklega boðin velkomin.

Skólar á svæðinu starfa undir merkjum Grænfánans, og kaffi- og veitingahús leggja sig fram um að bjóða upp á staðbundið hráefni og framreiðslu. Auk þess að horfa til lífræns landbúnaðar og afurða úr sveitum Djúpavogshrepps er sérstaklega lögð áhersla á sjávartengdar afurðir og strandmenningu m.a. með það fyrir augum að koma sögu sjávarútvegs og útgerðar á svæðinu á framfæri í máli og myndum, t.d. á hafnarsvæði Djúpavogs. Þá er hvatt til íþróttaþátttöku og félagslegra samskipta með margvíslegum uppákomum, samkomu- og mótahaldi, svo fátt eitt sé talið.

Bæklingur norðurlandanets Cittaslow

Vefsíða Cittaslow International


Saga Cittaslow

Undir lok síðustu aldar, sammæltust fjórir bæjarstjórar á Ítalíu um að nóg væri komið af hnattvæðingu og hraðaáráttu nútímans. Þeirra tilburða að vilja steypa ólíka menningarheima umhugsunarlaust í sama mót og skeyta lítið áhrif þess á samfélög og umhverfi. Töldu þeir nauðsynlegt að sett væri fram stefna sem legði áherslu á hið gagnstæða; þar sem virðing fyrir fólki, staðbundinni menningu og umhverfi væri í heiðri höfð. Með þessa sýn og hugmyndafræði SlowFood-samtakanna að leiðarljósi varð Cittaslow-hreyfingunni hleypt af stokkunum árið 1999.

Síðan þá hafa margir fundið samhljóm með Cittaslow-hreyfingunni. Henni hefur vaxið hratt fiskur um hrygg og í apríl árið 2013 höfðu 176 bæir og sveitarfélög í 27 löndum víðsvegar um heiminn gerst aðilar að hreyfingunni. Árið 2021 eru löndin orðin 30 og bæir og sveitarfélögin orðin 272.

Í stærra samhengi

Cittaslow-hreyfingin er afsprengi „Hæglætishreyfingarinnar“ (The Slow Movement) sem rekja má allt aftur til ársins 1986, þegar blaðamaðurinn Carlo Petrini mótmælti opnun veitingastaðar McDonald's skyndibitakeðjunnar á hinu fræga Piazza di Spagna-torgi í Róm, þeim fyrsta á gjörvalli Ítalíu. Síðan þá hefur Hæglætishreyfingin með SlowFood-samtökin í fylkingarbrjósti unnið að því að upphefja manneskjuleg gildi og staðbundna menningu með virðingu og vitund fyrir umhverfi og uppruna í öndvegi.

Á undanförnum árum hefur „hæglætis“-hugmyndafræðinni vaxið ásmegin og hefur hún verið heimfærð á fjölmörg svið samfélagsins, en auk Cittaslow má t.d. nefna Slow Living, Slow Travel, Slow Design & Slow Fashion.


Hvað er Cittaslow?

Í víðasta skilningi er markmið Cittaslow-hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni.

Til að mæta þessu markmiði leggja stefnumið Cittaslow áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, notkun á nýjustu tækni í þágu samfélagsins, eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu, öryggi og aðgengi, sem og gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót.

 7 flokkar - 72 viðmið

 Með því að gerast aðili að Cittaslow-hreyfingunni skuldbindur bæjarfélag/sveitarfélag sig til að vinna að 72 viðmiðum sem sett eru fram í eftirfarandi sjö flokkum:

- Stefan um orku og umhverfismál

Loft-, vatns- og jarðvegsgæði skulu vera í samræmi við gildandi lög og reglugerðir en einnig skal gætt að rafsegulmengun, hávaðamengun og mengunar vegna raflýsingar. Úrgang skal flokka og endurvinna og hvetja skal til moltugerðar. Bann er lagt við notkun og ræktun erfðabreyttra lífvera í landbúnaði, mælst er til þátttöku í Staðardagskrá 21 sem og innleiðingu umhverfisstaðla á borð við EMAS og ECOLABEL.

- Stefna um innviði

Vinna skal að uppbyggingu og endurgerð menningarminja, fegrun þéttbýlis og endurskipulagningu svæða í niðurníðslu. Efla skal umferðaröryggi, veita öllum gott aðgengi að þjónustu og eftirsóknarverðum áningarstöðum, skipuleggja skal góðar göngu- og hjólaleiðir og skapa aðlaðandi almennings- og útivistarsvæði. Vinsamlegt viðmót og rík þjónustulund skal í hávegum höfð og gerðar skulu áætlanir er miða að ánægjulegri og aukinni samveru og samvinnu íbúa og gesta.

- Stefna um lífsgæði í þéttbýli

Horfa skal til þess að uppbygging falli vel að umhverfi og byggingarefni séu umhverfisvæn. Setja skal fram áætlun um plöntun gróðurs á almenningssvæðum og einkagörðum, tryggja skal að ruslafötur, sem falla vel að umhverfi, séu fyrir hendi sem og áætlanir um hávaðastjórnun og litaval utanhúss. Nýta skal tækni í þágu íbúa og samfélags, t.d. með eflingu fjarvinnu og fjarnáms, en einnig með gagnvirkum vefsíðum sem veita milliliðalaust samband við yfirvöld eða þjónustuaðila.

- Stefna um landbúnað, ferðamenn og handverk

Þróun lífræns landbúnaðar skal efld og stuðla skal að notkun lífræns og staðbundins hráefnis í matargerð, s.s. á veitingahúsum og í skólum. Áhersla er lögð á að haldin séu námskeið fyrir leik- og grunnskólanemendur um mat og matargerð í samstarfi við SlowFood. Þá skal tryggja gæði framleiðslu og verndun staðbundinna framleiðsluaðferða, skapa vettvang fyrir markaðssetningu staðbundinnar framleiðslu, og hafa í heiðri og efla ennfrekar staðbundna menningarviðburði og hefðir.

- Reglur varðandi gestrisni, vitund og þjálfun

Leggja skal upp úr vinsamlegu viðmóti og hæfni þeirra sem taka á móti ferðamönnum, hafa sveigjanleika í opnunartíma verslana og hvers kyns þjónustu og greitt aðgengi að upplýsingum. Bjóða skal upp á gönguferðir með leiðsögn og merkja með skýrum hætti ferðamannastaði og áhugaverðar gönguleiðir.

- Félagsleg samheldni

Gera skal grein fyrir með hvaða hætti viðmið Cittaslow verða aðlöguð samfélaginu sem og gerð áætlana um hvernig stuðla skuli að þátttöku og samheldni íbúa á þeim sviðum sem viðmið Cittaslow ná til. Hlúið sé að minnihlutahópum og rýmt sé til fyrir alla samfélagshópa. Fjölmenningarleg samþætting er í fyrirrúmi og að hlúa að minnihlutahópum og skapa rými fyrir fatlað fólk, börn og ungmenni .

- Samstarf

Stuðningur við herferðir og slowfood aðgerðir. Samstarf við önnur samhliða samtök. Stuðningur við tengslaverkefni og útbreyðslu hugmyndafræðinnar.

 

 

 

20.04.2022 Fréttir

Stríðið í Úkraínu hefur breytt sýn okkar á heiminn, á innan við þremur árum hefur heimsbyggðin þurft að bregðast við óvæntum og erfiðum atburðum oftar en alla jafna. Atburðir eins og þessir neyða fólk til þess að grípa til örþrifa ráða.

Milljónir hafa flúið frá Úkraínu til Póllands en í Póllandi eru 35 Cittaslow bæir og margir þeirra hafa verið að taka á móti gríðarlegu magni flóttafólks frá Úkraínu.

Jacek Kostka er bæjarstjóri Górowo Iławeckie og hefur hann sett á fót bankareikning til þess að styðja við Úkraínu og flóttafólk í Póllandi.

Ef þú vilt leggja söfnuninni lið þá geturðu gert það sem því að leggja inn á reikning sem er tileinkaður málefninu:

IBAN: IT56 P070 7525 7010 0000 0731 725

BIC: ICRAITRRTV0

BANCA CENTRO - CREDITO COOPERATIVO TOSCANA-UMBRIA SOC. COOP.

FIL. : ORVIETO CENTRO IT

Skýring: „Ukraine solidarity“.

Allur ágóði verður notaður í innkaup á nauðsynjum sem síðan verða fluttar til Póllands og Úkraínu.

Þann 13. apríl 2013 var umsókn Djúpavogshrepps um inngöngu í Cittaslow-hreyfinguna formlega samþykkt á fundi Cittaslow International í Kristinestad í Finnlandi.

Djúpavogshreppur er hluti af norðurlandaneti Cittaslow, en Cittaslow sveitarfélög á norðurlöndunum finnast í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Markmið Cittaslow-hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni.

Cittaslow bæir taka höndum saman fyrir Úkraínu
Getum við bætt efni þessarar síðu?