
Tankurinn á Djúpavogi
Tankurinn á Djúpavogi er gamall lýsistankur sem staðið hefur ónýttur frá því Bræðslan á Djúpavogi hætti rekstri árið 2006. Hann stendur rétt innan við Bræðsluna í Gleðivík en síðustu ár hefur verið unnið að því að byggja þar upp allsherjar sýningarrými.
Tankurinn er nýjung í menningarlífi á Austurlandi og má einnig segja að það sé nýjung á landsvísu því ekki er vitað til þess að annarsstaðar sé gamall lýsistankur nýttur undir menningarviðburði. Þetta er því dæmi um skapandi frumkvöðlastarf í heimabyggð sem býður upp á óteljandi möguleika í nafni menningar og lista. Tækifæri gesta til að upplifa menningu á svæðinu aukast og tækifæri listamanna að koma list sinni á framfæri verða fjölbreyttari.
Tankurinn er því bæði atvinnuskapandi fyrir listamenn bæði innan og utan Djúpavogs og styður þar að auki vel við hugmyndafræði Cittaslow um fegrun umhverfis og nýtingu mannvirkja.