Fara í efni

Litahlaupið / The Color Run

Litahlaupið á Egilsstöðum í sumar

Litahlaupið The Color Run verður haldið á Egilsstöðum í sumar, laugardaginn 7. ágúst.

Litahlaupið er 5km löng skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem þátttakendur eru litaðir með litapúðri á hlaupaleiðinni og við endamarkið verður mikil fjölskylduskemmtun með litapúðurssprengingum. Á Egilsstöðum verður einnig boðið upp á 3km vegalengd fyrir þá sem kjósa að hlaupa styttri vegalengd en þó verður hlaupaleiðin hönnuð þannig að þeir sem ákveða að hlaupa 3km missa ekki af litasvæðunum í brautinni.

"Það er okkur mikið gleðiefni að okkur hefur tekist að koma þessum mikla fjölskylduviðburði á Egilsstaði í sumar. Við vitum að Austfirðingar munu sleppa af sér beislinu í sumar og okkur veitir ekki af því að skreyta líf okkar með litum, tónlist, dansi og hlaupi í ágúst," segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Ólíkt flestum öðrum hlaupum snýst The Color Run ekki um að koma í mark á sem skemmstum tíma heldur að njóta upplifunar hlaupsins. Þátttakendur byrja hlaupið í hvítum bol en verða í öllum regnbogans litum þegar komið er í endamarkið. Frá árinu 2015 hafa yfir 50.000 manns tekið þátt í litahlaupinu í Reykjavík og Akureyri þar sem jafnan hefur orðið uppselt á viðburðinn.

"Egilsstaðir hafa verið lengi á kortinu hjá okkur svo það er okkur sönn ánægja að geta loksins farið með The Color Run á Austurland. Við erum sennilega öll orðin svolítið spennt fyrir að hleypa smá gleði inn í líf okkar og við ætlum að koma með litríksta viðburð sumarsins á Egilsstaði," segir Ragnar Már Vilhjálmsson, skipuleggjandi The Color Run á Íslandi

Miðasala í The Color Run á Egilsstöðum hefst með sérstakri forsölu frá fimmtudegi til mánudags á tix.is

Var efnið á síðunni hjálplegt?