Fara í efni

Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan

Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan er fastur liður í menningarlífi Austfirðinga og nú er búið að staðfesta dagskrá sumarsins sem að venju verður spennandi.

Sumartónleikaröðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í tónlistarlífi Austfirðinga. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá tónlistar þar sem færi gefst á að hlýða á marga af áhugaverðustu tónlistarmönnum landsins í frábærum tónleikasal Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði.

Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar var sett á laggirnar árið 1998 af söngkonunni og tónlistarkennaranum Muff Worden sem kom frá Bandaríkjunum til að kenna við Tónlistarskólann á Seyðisfirði. Muff lést langt fyrir aldur fram árið 2006 og er tónleikaröðin haldin í minningu og til heiðurs henni. Um er að ræða fimm tónleika og fara þeir fram í Seyðisfjarðarkirkju á miðvikudagskvöldum í júlí og ágúst.

Dagskrá 2021:

  1. júlí Saxófónar á Seyðisfirði - Vigdís Klara Aradóttir og Guido Baeumer leika á alt-saxófóna

Vigdís Klara og Guido hafa leikið saman á saxófóna í áraraðir, m.a. með íslenska saxófónkvartettinum og saxófónkvartettinum „mit links“ sem starfaði í Sviss. Á tónleikunum verða fluttir tveir flautudúettar og þá verða einnig leikin þrjú verk sem upphaflega voru samin fyrir saxófóna.

  1. júlí High Energy American Blues and Bluegrass with Dirty Cello

Dirty Cello kemur með mikla orku og frumlegan snúning á blús og blúgrass. Dirty Cello er leidd af Rebeccu Roudman, einstaklega líflegum cellóleikara, en hljómsveitin gerir út frá vesturströnd Bandaríkjanna.

  1. júlí Sjana syngur strákana

Söngkonan Kristjana Stefáns, gítarleikarinn Ómar Guðjónsson og kontrabassaleikarinn Þorgrímur Jónsson ætla að bjóða uppá fjölbreytta dagskrá þar sem þau flytja í léttjözzuðum búningi lög frá m.a. Bubba Morthens, Björgvini Halldórs, KK, Hauki Morthens, Ragga Bjarna, Vilhjálmi Vilhjálms, Valgeiri Guðjóns, Gunnari Þórðar og fleirum.

  1. júlí Aurora

Olga Vocal Ensemble er a cappella sönghópur sem hefur verið starfræktur síðan árið 2012. Þema tónleikanna er Aurora, en norðurljósin mála fallegar myndir á himnum á dimmasta tíma ársins, eitthvað sem Olga vill gera með röddum sínum. Efnisskráin er fjölbreytt og lögin tengjast þema tónleikanna á einn eða annan hátt.

  1. ágúst Mánaskin og kantsteinar // Moonlight and Curbstones

Coney Island Babies er „indí-band“, innblásið af þungum og þéttum takti hinnar austfirsku öldu. Þau koma frá Neskaupstað og hafa gefið út tvær hljómplötur. Á tónleikunum verður flutt úrval laga af þeim.

 

Tónleikarnir hefjast kl 20.30 og er aðgangseyrir er 3000.kr (2000 fyrir námsmenn, eldri borgara og öryrkja). Við bendum á spennandi tilboð sem finna má í Austurlands appinu – 20% afsláttur fyrir notendur appsins

Nánari upplýsingar veitir Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri Bláu kirkjunnar, í síma 899-5892 og með tölvupósti blaakirkjan@blaakirkjan.is

Getum við bætt efni þessarar síðu?