Fara í efni

Eldri borgarar

 Eldri borgurum stendur til boða öll almenn þjónusta á vegum Félagsþjónustunnar svo sem félagsleg ráðgjöf, félagsleg heimaþjónusta og heimsending matar á Egilsstöðum og í Fellabæ.  Auk þess er rekin dagvist og félagsstarf fyrir eldri borgara og formlegt samstarf er við stjórn Félags eldri borgara. 

Markmið:

  • Þjónusta við eldri borgara skal miða að því að styðja við og viðhalda virkni þeirra í samfélaginu.
  • Stuðla skal að því að gera fólki kleift að búa sem lengst utan stofnanna.
  • Virða skal hugmyndir eldri borgara varðandi þróun þjónustu í þeirra þágu.
  • Gott samstarf skal vera við félagasamtök og stuðningshópa sem koma að málefnum aldraðra. 

Samstarf við eldri borgara

Þjónustuhópur aldraðra er starfandi en fundar óreglulega.  Í honum eiga sæti tveir fulltrúar Fljótsdalshéraðs, tveir fulltrúar Heilbrigðisstofnunar Austurlands og fulltrúi eldri borgara.
Búið er að koma af stað formlegu samstarfi við Félag eldri borgara á Fljótsdalshéraði með sérstöku samstarfssamningi sem gerður var árið 2005.  Stjórn félagsins fundar þrisvar sinnum á ári með félagsmálastjóra og einu sinni með bæjarstjórn. Þetta er hugsað sem vettvangur fyrir eldri borgara til að koma hugmyndum, skoðunum og kröfum á framfæri við sveitarfélagið. 

Félagsstarf og tómstundir

Félagsþjónustan rekur Félagsmiðstöð fyrir eldri borgara að Miðvangi 22, Egilsstöðum.  Tveir starfsmenn eru á vegum félagsþjónustunnar og sjá um handavinnu tvisvar í viku á þriðjudögum og miðvikudögum.  Í félagsmiðstöðinni geta eldri borgarar fengið hádegismat á virkum dögum gegn vægu gjaldi.  Félag eldri borgara stendur fyrir félagsstarfi af ýmsum toga í húsnæðinu.  Tekið hefur verið í notkun húsnæði, KOmpan, þar sem eldri borgarar hafa aðstöðu fyrir útskurð og bókband og geta einnig stundað boccia og pútt.  Boðið er upp á leikfimi í Íþróttamiðstöðinni fyrir eldri borgara tvisvar í viku undir leiðsögn leiðbeinanda.
Félagsmálanefnd veitir styrki til námskeiðahalds.
Unnið er að hönnun og byggingu nýrrar félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara. 

Dægradvöl

Félagsþjónustan rekur dægradvöl fyrir eldri borgara að Miðvangi 22, Egilsstöðum.  Opið er alla virka daga milli kl. 9.00 og 17.00.  Einstaklingar geta sótt um heildags- eða hálfsdagspláss, 1-5 daga í viku.  Fyrir heilsdagspláss í dægradvölinni eru greiddar 500.- en í því gjaldi er heit máltíð í hádeginu innifalin ásamt morgun- og síðdegiskaffi og þátttaka í tómstundastarfi.
Hálfsdagspláss kostar 250.- og þá er morgunkaffi og hádegisverður innifalinn.  Í dagvistinni er boðið upp á hádegismat og kaffi, ýmsa afþreyingu, stuðning til þátttöku í gönguhópi, einstaklingsmiðaða ráðgjöf iðjuþjálfa ásamt því að þeir sem sækja dagvistina geta sótt félagsstarfið sem er í sama húsnæði.  Aðstaða er til hvíldar og böðunar.

Allar nánari upplýsingar er að finna hjá Félagsþjónustunni í síma 4700 700

Síðast uppfært 29. mars 2009
Var efnið á síðunni hjálplegt?