Fara í efni

Samþykkt um úthlutun lóða hjá Múlaþingi

1. gr. Umhverfis- og framkvæmdaráð úthlutar byggingarlóðum hjá Múlaþingi, í umboði sveitarstjórnar.

 

2. gr. Gildar lóðarumsóknir og hæfi lóðarumsækjenda.

Lóðarumsókn telst gild ef hún er lögð fram skriflega og undirrituð af umsækjanda eða umboðsmanni hans, enda fylgi staðfesting umboðs umsókninni. Nauðsynlegar upplýsingar skulu fylgja með s.s. netfang og símanúmer ásamt öðrum hefðbundnum grunnupplýsingum.

Hæfur umsækjandi um byggingarlóð hjá Múlaþingi er einstaklingur eða lögaðili með heimilisfang og aðsetur innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Umsækjandi skal vera fjárráða og ekki í vanskilum við sveitarsjóð Múlaþings.

 

3. gr. Úthlutun lóða.

Úthlutun lóða fer fram með einhverjum þeim hætti sem greinir í lið a, b eða c:

a) Þegar ljóst er hvenær lóðir verða byggingarhæfar, auglýsir skipulagsfulltrúi lóðir lausar til umsóknar, að fengnum tillögum umhverfis- og framkvæmdarráðs. Veita skal umsækjendum ákveðinn frest til að leggja fram umsóknir, og skal sá frestur vera eigi skemmri en tvær vikur frá birtingu auglýsingar.

Umsækjendur geta sótt um fleiri en eina lóð í sömu úthlutun, en hverjum umsækjanda skal aðeins úthlutað einni lóð. Hjón eða einstaklingar í sambúð skulu skila sameiginlegri umsókn og teljast einn umsækjandi.

Sé um íbúðarlóðir að ræða, kemur einstaklingur eða lögaðili sem þegar er lóðarhafi að óbyggðri lóð[1] annars staðar í sveitarfélaginu ekki til greina við úthlutun.

Séu fleiri en einn umsækjandi um lóð eða lóðir í sömu úthlutun, skal hlutkesti ráða og framkvæmd af umhverfis- og framkvæmdarráði á meðan fundi stendur. Hlutkesti skal fara þannig fram, að fyrst er dregið um röð þeirra lóða sem fleiri en ein umsókn er um. Því næst er dregið úr umsóknum um lóðir í þeirri röð sem upp kemur.

Verði lóðir afgangs eftir úthlutun, skal með þær fara samkvæmt b) eða c).

b) Lóðum sem ekki er úthlutað lið a) og lóðir sem eru innkallaðar eða skilað af lóðarhafa, skulu tilkynntar umhverfis- og framkvæmdaráði á næsta fundi þess. Umhverfis- og framkvæmdaráð tekur ákvörðun um hvort lóðir eru færðar á lista yfir lausar lóðir.

Lista yfir lausar lóðir skal uppfæra jafnóðum og breytingar verða á honum. Listinn skal vera til sýnis á vefsíðu sveitarfélagsins.

Lausum lóðum samkvæmt listanum skal úthlutað til fyrsta hæfa umsækjanda, að því gefnu að viðkomandi sé ekki með fleiri en eina óbyggða lóð[2] annarsstaðar í sveitarfélaginu. Umhverfis- og framkvæmdaráð getur þó heimilað að vikið sé frá skilyrðinu ef umsækjandi sýnir fram á að hann geti byggt upp á fleiri lóðum á eðlilegum hraða, lóðir eru í mismunandi byggðakjörnum og/eða ef sérstakar ástæður mæla með því að sami umsækjandi fái lóðir á tilteknu svæði. Ráðinu er heimilt að láta umsækjanda leggja fram staðfestingu frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt gögnum sem sýna fram á að umsækjandi geti fjármagnað framkvæmdirnar.

c) Umhverfis- og framkvæmdaráð getur ákveðið, að tiltekinni lóð eða lóðum verði ekki úthlutað lið a) og b), heldur sé gerður samningur við framkvæmdaaðila um byggingu þeirra, eða að fram fari útboð lóða til verktaka.

Þegar um er að ræða lóðir til iðnaðar-, athafna-, þjónustu- eða verslunarstarfsemi, getur sveitarstjórn ákveðið, að fengnum tillögum umhverfisráðs, að regla b-liðar (fyrstur kemur, fyrstur fær) sé ekki viðhöfð, heldur að leitað sé samkomulags við einstök fyrirtæki um uppbyggingu á tilteknum lóðum.

Lögaðili sem sækir um byggingarlóð skv c-lið skal með lóðarumsókn sinni leggja fram framkvæmda- og tímaáætlun væntanlegra byggingarframkvæmda. Ráðinu er heimilt að láta umsækjanda leggja fram staðfestingu frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt gögnum sem sýna fram á að umsækjandi geti fjármagnað framkvæmdirnar.

 

4. gr.Úthlutunarskilmálar.

Umsækjanda sem fær úthlutað byggingarlóð, er tilkynnt um úthlutunina með bréfi eða tölvupósti.

Umsækjandi fær senda kröfu frá sveitarfélaginu um greiðslu lóðarúthlutunargjalds og gatnagerðargjalds.

Ef umsækjandi greiðir ekki lóðarúthlutunargjald innan eindaga fellur úthlutunin úr gildi án frekari fyrirvara. Það

sama á við ef umsækjandi gerir ekki lóðarleigusamning við sveitarfélagið innan tveggja vikna frá því að honum er tilkynnt að samningurinn sé tilbúinn til undirritunar.

Umsækjandi skal hafa sótt um og fengið útgefið byggingarleyfi á lóð innan 12 mánaða frá ákvörðun um lóðarúthlutun. Að þeim tíma liðnum fellur úthlutun úr gildi án frekari fyrirvara nema umsækjandi hafi sótt um frest til umhverfis- og framkvæmdaráðs, sem er heimilt að framlengja frestinn í eitt skipti um 12 mánuði.

Lóðarhafa er óheimilt að framselja lóðarréttindi sín eða selja mannvirki á lóðinni áður en fyrir liggur úttekt á undirstöðum burðarvirkis, (byggingarstig 2 skv. ÍST 51:2001) og ber einnig að gæta að ákvæðum 3 og 4 lóðarleigusamnings um takmarkanir á ráðstöfun óbyggðrar lóðar. Umhverfis- og framkvæmdaráð getur heimilað undanþágu frá þessu ákvæði við sérstakar aðstæður.

Byggingarfulltrúa er heimilt að veita lóðarhafa leyfi til að gera mælingar, jarðvegskannanir, grafa fyrir húsi á lóð eða flytja þangað nauðsynlegt efni, án þess að byggingarleyfi liggi fyrir, enda sé það gert á þann hátt sem byggingar fulltrúi mælir fyrir um.

Kostnaður vegna slíkra framkvæmda er alfarið á ábyrgð lóðarhafa og er ekki endurgreiddur þótt lóð sé innkölluð eða henni skilað.

 

5. gr. Afturköllun lóðar.

Skipulags- eða byggingarfulltrúi getur afturkallað úthlutaðri lóð, ef lóðarhafi heldur ekki byggingar- og skipulagsskilmála, m.a. varðandi fresti til að sækja um byggingarleyfi, verkhraða o.s.frv.

Sömuleiðis er heimilt að afturkalla lóð ef opinber gjöld sveitarfélagsins komast í 30 daga vanskil. Afturköllun lóðar skal tilkynnt með sannanlegum hætti með fjögurra vikna fyrirvara.

Við afturköllun lóðar skulu innborguð gatnagerðargjöld endurgreidd. Byggingarleyfisgjöld, lóðarúthlutunargjöld og önnur þjónustugjöld eru ekki endurgreidd.

Að öðru leiti er vísað til 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

6. gr. Lóðarleigusamningar.

Að öllu jöfnu skal gera lóðarleigusamning við lóðarhafa þegar umsækjandi fær útgefið byggingarleyfi. Lóðarleigusamningur skal staðfestur af sveitarstjóra.

 

7. gr. Sérákvæði.

Heimilt er að taka frá lóðir, ef um augljósa hagsmuni er að ræða, svo sem þegar það liggur fyrir að fyrirtæki eða stofnun á nálægri lóð þurfi að eiga kost á því að stækka lóð sína síðar, eða ef sveitarfélagið sjálft eða opinberar stofnanir þurfa að tryggja sér byggingarrétt. Slíkar ráðstafanir skulu þó vera bundnar við fimm ár hið mesta. Ef fyrir liggur að taka þurfi lóð eða lóðir frá skal umsækjandi óska eftir deiluskipulagsbreytingu innan eins árs frá því að viðkomandi fékk lóðina frátekna.

 

8. gr. Gildistaka.

Samþykkt tekur gildi frá afgreiðsludegi sveitarstjórnar Múlaþings.

 

Samþykkt af sveitarstjórn Múlaþings 10. mars 2021

 

[1] Óbyggð lóð telst sú lóð þar sem ekki hefur farið fram úttekt byggingarfulltrúa á byggingarstigi 2 skv. ÍST 51:2001

[2] Óbyggð lóð telst sú lóð þar sem ekki hefur farið fram úttekt byggingarfulltrúa á byggingarstigi 2 skv. ÍST 51:2001

Síðast uppfært 12. mars 2021
Var efnið á síðunni hjálplegt?