Fara í efni

Íslenska

Símanúmer í Þjónustumiðstöð Almannavarna er 839-9931, netfang sey@logreglan.is

Algengar spurningar eftir hamfarirnar á Seyðisfirði og svör við þeim

    Svör frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands

    • Geta íbúar sem misstu heimili sín átt von á því að fá rukkun fyrir lánum sem hvíla á húsnæði þeirra? Verður gefin út trygging fyrir því að Náttúruhamfaratrygging Íslands yfirtaki greiðsluskylduna?

      Það er búið að hafa samband við alla bankana og þeir eru tilbúnir til að frysta skuldir á altjónshúsum þar til uppgjör hefur farið fram. Ef einhverjir geta ekki verið í húsum sínum og þurfa að standa straum af leigu annars staðar er vilji til að skoða hvert og eitt mál með hliðsjón af viðskiptasögu. Það er á ábyrgð eiganda að óska eftir slíku.

    • Þurfa þeir sem greiða upp lán sín vegna eigna sinna að borga uppgreiðslulán?

      Íbúðalánasjóður hefur ákveðið að falla frá uppgreiðslugjaldi á láninu, þar sem litið er þannig á málið að fólk er ekki að greiða upp lán af fúsum og frjálsum vilja, heldur sé um einstakt tilvik að ræða.

    • Hvernig var málunum háttað í Súðavík eftir snjóflóðin þar? Keypti ofanflóðasjóður upp eignir þar?

      Já, Ofanflóðasjóður annaðist uppkaup á eignum á hættusvæði í Súðavík.

    Svör frá Veðurstofu Íslands

    • * Af hverju er rýmingarkortið sem við styðjumst við skilgreint sem bráðabirgðarýmingarkort?

      Kortið var unnið hratt í framhaldi af skriðuföllunum í desember. Hugsanlega verður kortinu breytt á næstu mánuðum eftir því sem reynsla fæst af stöðugleika jarðlaga eftir fyrstu alvöru rigningu og leysingu á snjó í vor.

    • * Samsvara rýmingastig I II og III svæðum A, B, og C þannig að rýmingastig I samsvari svæði C í hættumati?

      Það er ákveðin samsvörun, en rýmingarkortið fylgir ekki hættumatslínum fullkomlega vegna ýmissa praktískra ástæðna sem ekki þurfa að endurspeglast í hættumatinu 

    • * Hvenær verður hættumatið vegna aurskriðna á Seyðisfirði, sem er í vinnslu hjá Veðurstofu Íslands, tilbúið?

      Hættumatinu er skilað í áföngum. Matið hefur þegar verið endurskoðað fyrir svæðið frá Múla og út fyrir Stöðvarlæk þar sem breytingar urðu á aðstæðum við skriðuföllin. Næst verður matið endurskoða fyrir svæðin þar næst fyrir utan (svæðið nokkru utan við Stöðvarlæk) og innan (Múli). Síðast verður matið endurskoðað fyrir meginbyggðina í suðurbænum. Rétt er að leggja áherslu að megindrættir núgildandi hættumats eru í fullu gildi. Hættumatið felur í sér víðáttumikil hættusvæði og byggir á upplýsingum um stórar skriður sem fundist hafa ummerki um í jarðlögum undir byggðinni. Ekki er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á þessu mati. Fyrirhugaðar eru rannsóknir á jarðlögum og vatnafari í tengslum við frumathugun á varnarkostum fyrir suðurbæinn í vor og sumar. Skriðuhættumatið verður endurskoðað á grundvelli þess sem fram kemur í þessum rannsóknum þar sem tilefni er til.

    • Hefur breytt landstaða í skriðusárinu verið metin til aukinnar snjóflóðahættu?

      Veðurstofa Íslands telur ekki að breyting á landslagi í Botnahlíð vegna stóru skriðunnar þann 18. desember sl. hafi umtalsverð áhrif á snjóflóðahættu á þessu svæði. Snjóflóðahætta fyrir þetta svæði var metin í hættumati Veðurstofunnar frá 2019. Talið var að snjóflóð gætu farið af stað úr þeim stað hlíðarinnar þar sem skriðan átti upptök. Það er þó ekki líklegt. Ekki eru þekkt dæmi um snjóflóð á þessum stað og hlíðin þar var kúpt og safnar ekki miklum snjó.

      Breyting landslagsins felur í sér að nú er djúp skál í hlíðini á þessum stað með bröttum veggjum að ofan og til hliðanna og tiltölulega flötum botni þar sem halli er um 15°. Það felur í sér meiri hættu á snjósöfnun en áður var. Hins vegar eru hliðar skálarinnar mjög brattar og ekki líklegar til þess að þar eigi umtalsverð snjóflóð upptök. Botn skálarinnar er flatari en svo að snjó sem þar safnast hlaupi fram sem snjóflóð. Snjóflóðahætta á þessum stað er að okkar mati miklu minni en hætta sem stafar af skriðuföllum úr brún skriðusársins sem verður viðvarandi næstu árin.

      Veðurstofan hefur sent frá sér hættumat fyrir svæðið undir upptökum skriðunnar þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að hætta þar sé yfir mörkum sem skilgreina svokallað C-svæði. Á þessu svæði verður því ekki leyfilegt að endurbyggja hús eða reisa nýjar byggingar og sveitarstjórn hefur lýst yfir ákvörðun sinni um þetta efni.

    • Út frá stóru skriðunni má sjá miklar sprungur í a.m.k. tveimur hjöllum, hver er staðan á þessu svæði?

      Við teljum meiri hættu en áður var undir þessum stóru flekum sem sigu í skriðuhrinunni en hlupu ekki fram. Þarna þarf að endurskoða hættumatið. Byggingar á þessu svæði eru á B- og C-svæði skv. núgildandi hættumati og sama gildir um byggingar næst utan Stöðvarlækjar. Gera má ráð fyrir að á þessu svæði verði öll hús á C-svæði í endurskoðuðu hættumati. Fylgst er með hreyfingu á flekunum með landmælingartæki (alstöð).

    • Hver er staðan á svæðinu frá Nautaklauf út að Búðará?

      Á þessu svæði eru nokkur hús á C-svæði, mörg hús á B-svæði og öll byggðin er ofan við A-línunna í núgildandi hættumati, þ.e. öll byggðin er á hættusvæði. Endurskoðun hættumatsins mun ekki breyta þessu en líklegt er að hættan verði metin nokkru meiri, einkum í efstu húsunum. Nauðsynlegt er að vakta hreyfingu jarðlaga á þessu svæði vegna þessarar stöðu og komið hefur verið upp búnaði til þess. Verið er að kanna og undirbúa uppsetningu á fleiri mælitækjum til vöktunar.

    • Hver er staðan á Botnunum, einkum innsta hluta þeirra?

      Á þessu svæði eru nokkur hús á C-svæði, mörg hús á B-svæði og byggðin nær niður fyrir A-línu. Hættusvæðið er mjög stórt og nær til u.þ.b. efstu sex húsaraðanna og það mun ekki breytast við endurskoðun hættumatsins. Endurskoða þarf hættumat í efstu húsaröðum. Nauðsynlegt er að vakta hreyfingu jarðlaga á þessu svæði vegna þessarar stöðu og komið hefur verið upp búnaði til þess. Verið er að kanna og undirbúa uppsetningu á fleiri mælitækjum til vöktunar.

    • Er hægt að sjá myndirnar sem Harpa sýndi á íbúafundinum yfir sprungurnar?

      Glærurnar sem Harpa og Tómas sýndu á íbúafundum 21. og 30. desember eru aðgengilegar á vefsvæði sveitarfélagsins.

    • Ég hef heyrt að það sé ein stór sprunga ca. frá Fossgötu og út með firði og að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær önnur stór skriða mun falla og taka með sér fleiri hús. Er þetta rétt?

      Talið er að jarðlög sem los kom á í skriðuhrinunni hafi að mestu sest í sínar fyrri skorður og að nýtt úrkomutímabil þurfi til þess að skapa hættu á skriðuföllum. Þar er um að ræða úrkomuákefð í einn eða fleiri daga yfir viðmiðunarmörkum sem miðast við misseri eða nokkur ár. Úrkoman sem féll í desember var óvenju mikil. Líkur eru á að langur tími líði milli slíkra úrkomutímabila. Veðurstofan mun fljótlega koma fyrir úrkomumæli í Neðri-Botnum sem bætir vöktun aftakaúrkomu. Enn er þó talin hætta á að hrunið geti úr skriðusárum en ekki að slík skriðuföll nái byggðinni utan svæðisins þar sem stóra skriðan féll og næst þar utan við. Fleiri mælitækjum hefur verið komið upp til þess að vart verði við aukna hreyfingu á jarðlögum um leið og hún hefst. Fyrirhugað er að koma fyrir fleiri síritandi mælitækjum til að efla vöktun. Auk úrkomumælis sem komið verður fyrir í Neðri-Botnum er sjálfvirkur úrkomumælir þegar rekinn í bænum á Seyðisfirði og annar aðeins utan við þéttbýlið á Vestdalseyri. Það getur verið mikill munur á úrkomu milli staða innan fjarðarins og því er talið mikilvægt að mæla úrkomu uppi á stallinum til að fá sem besta mynd af aðstæðum hverju sinni.  

    • Hvernig fara mælingar fram skref fyrir skref? Hverjir hafa hlutverk í mælingunum og hver gerir hvað? Hvað eru speglar? Hverjir gefa álit og hverjir taka loks ákvarðanir?

      Sjálfvirkar mælingar á hreyfingu jarðlaga, vatnsþrýstingi í borholum og veðurmælingar eru notaðar til þess að leggja mat á hvort yfirvofandi hætta sé á skriðuföllum. Einnig fylgjast athugunarmenn Veðurstofunnar á vettvangi með skriðuföllum. Ofanflóðavakt Veðurstofunnar gefur út tilmæli um öryggisráðstafanir þegar þessar mælingar og athuganir gefa tilefni til. Lögreglustjóri tekur ákvörðun um rýmingu í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og framfylgir öðrum ráðstöfunum á grundvelli tilmæla Veðurstofunnar. Vöktun og rýmingu fylgir óvissa, og þótt megi draga mikið úr henni með uppsetningu mælitækja, þá er ákveðin óvissa óhjákvæmileg. Það má leiða líkum að því að rýming verði tíðari og umfangsmeiri í framtíðinni, ekki síst meðan verið er að læra á gögn sem fást með þessum vöktunarmælikerfum. Nánari lýsingu á mælitækjum sem sett hafa verið upp til vöktunar og verið er að kanna möguleika á að setja upp er að finna í minnisblaði Veðurstofunnar um skriðuföllin á Seyðisfirði sem aðgengilegt verður á vefsvæði sveitarfélagsins. Þar er meðal annars fjallað um spegla sem notaðir eru til þess að fylgjast með hreyfingu jarðlaga. Speglum er komið fyrir á nokkrum stöðum á svæðinu sem fylgjast þarf með og staðsetning þeirra mæld með landmælingatæki. Mælingarnar á Seyðisfirði nú eru á hálftíma fresti. Endurteknar mælingar gefa til kynna hreyfingu speglanna og þar með jarðlaganna sem þeir sitja á.

    • Er Botnahlíðin örugg?

      Neðan Botnabrúnar eru víðáttumikil hættusvæði vegna hættu á skriðuföllum eins og lýst er í hættumatinu frá 2019 (sjá https://www.vedur.is/ofanflod/haettumat/seydisfjordur). Þessi staða kallar á aðgerðir. Á þessu svæði eru nokkur hús á C-svæði, mörg hús á B-svæði og byggðin nær niður fyrir A-línu. Hættusvæðið er mjög stórt og nær til u.þ.b. efstu sex húsaraðanna og það mun ekki breytast við endurskoðun hættumatsins. Endurskoða þarf hættumat í efstu húsaröðum. Nauðsynlegt er að vakta hreyfingu jarðlaga á þessu svæði vegna þessarar stöðu og komið hefur verið upp búnaði til þess. Verið er að kanna og undirbúa uppsetningu á fleiri mælitækjum til vöktunar.

    • Hvað er hægt að gera til að verja byggðina á Seyðisfirði fyrir aurskriðum?

      Unnið er að frumathugum á ofanflóðavörnum fyrir suðurhluta Seyðisfjarðar. Meðal annars er kannað hvort unnt sé að ræsa fram vatn úr jarðlögum þar sem skriður geta átt upptök og reisa varnargarða neðan hlíðarinnar. Niðurstöður frumathugunar munu liggja fyrir í vor eða snemmsumars. Niðurstöður forathugunar á varnarkostum frá 2016 er unnt að nálgast á vef Veðurstofunnar (https://www.vedur.is/media/vedurstofan-utgafa-2016/VI_2016_006_rs.pdf). 

    • Hvernig verður lærdómur dreginn af atburðunum?

      Á Seyðisfirði eru víðáttumikil hættusvæði vegna skriðufalla samkvæmt hættumati frá 2019. Skriðuföllin í desember 2020 eru dæmi um þá ógn sem byggðinni á Seyðisfirði er búin vegna skriðufalla og hættumatið felur í sér. Umfangsmikil íbúðabyggð á C- og B-svæðum leiðir til þess að miklar líkur eru á skriðuföllum einhvers staðar niður í byggðina þó líkurnar séu víðast ekki miklar á hverjum stað fyrir sig. Á nokkrum stöðum við sunnanverðan Seyðisfjörð er talin hætta á stórum skriðum niður í byggðina, stærri en skriðan 18. desember 2020. Helsti lærdómur sem draga má af þessum skriðuföllum er að nauðsynlegt er að bregðast við ofanflóðahættu hér á landi með aðgerðum, einkum þar sem íbúðabyggð er á C- og B-hættusvæðum. Farið verður yfir vöktun, skipulag viðbúnaðar og forsendur hættumats út frá reynslu sem aflaðist í desember 2020 með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, heimamönnum og öðrum sem að viðbúnaðinum komu með það að markmiði að bæta verklag og viðbragðsáætlanir. Skriðuföllin á Seyðisfirði í desember hafa dregið fram veikleika í upplýsingamiðlun til íbúa varðandi hættumat og hættusvæði. Huga þarf betur að því hvers konar starfsemi fer fram á ofanflóðahættusvæðum og hvaða munir og verðmæti eru þar staðsett.

    • Núverandi hættumat er rúmlega árs gamalt, verður gert nýtt og hversu hratt er hægt að vinna það?

      Forsendur hættumatsins verða endurskoðaðar í vetur og endurskoðað hættumat gefið út í kjölfarið. Unnið er að minnisblaði sem lýsir hættumatinu í sunnanverðum bænum og hvaða breytingar eru líklegar. Hættusvæðin eru nú þegar mjög umfangsmikil og á stórum svæðum er ólíklegt að miklar breytingar verði. Á næstu misserum munu fara fram ýmsar rannsóknir á jarðlögum í hlíðinni ofan suðurhluta Seyðisfjarðar og hættumatið verður endurskoðað ef þær gefa tilefni til þess.

    • Hvernig komast vísindamenn að niðurstöðu um hvort fjallið sé öruggt eða ekki? Hvaða mælingar eru gerðar og eru skekkjumörkin einhver? Getið þið útskýrt ferlið?

      Unnið er hættumat þar sem lagt er mat á líkur á slysum á fólki en í því er ekki tekið tillit til eignatjóns. Hættumat gefur mynd af hættunni til lengri tíma og er m.a. hugsað til að stýra skipulagi byggðar þannig að með tímanum dragi úr áhættu vegna ofanflóða. Einnig er beitt daglegri vöktun og er markmið hennar að bregðast við þegar hættuástand er talið geta skapast. Hættumati og vöktun fylgir óvissa sem taka þarf tillit til. Í lögum um varnir gegn ofanflóðum 505/2000 er gert ráð fyrir að bæta öryggi í byggð á C-svæðum ýmist með uppkaupum á húsum eða varnarkostum þannig að ekki verði þéttbýli á slíkum svæðum. Sjálfvirkar mælingar á hreyfingu jarðlaga, vatnsþrýstingi í borholum og veðurmælingar eru notaðar til þess að leggja mat á hvort yfirvofandi hætta sé á skriðuföllum. Einnig fylgjast athugunarmenn Veðurstofunnar á vettvangi með skriðuföllum.

    • Þurfa íbúar að gera einhverjar varúðarráðstafanir fyrir vorið í tengslum við leysingar og mögulegar aurskriður ofar úr fjöllunum?

      Ekki er gert ráð fyrir að einstakir íbúar grípi til ráðstafana að eigin frumkvæði til þess að draga úr hættu en rýming húsnæðis er hugsanleg ef talin er hætta á skriðuföllum. Íbúar geta byrgt glugga og hurðir sem snúa uppí hlíðina til að draga úr eignatjóni. Einnig er rétt að huga að frárennsli frá húsum í einhverjum tilfellum.

    • Getur komið upp sú staða að ekki verði heimilt að búa á ákveðnum svæðum í bænum sem urðu fyrir skriðu, t.d. í Múla og þar um kring eða Garði, Botnahlíð og því svæði?

      Það er hugsanlegt, bæði á svæðinu sem varð fyrir skriðunni og svæði næst utan hennar þar sem jarðlög hreyfðust en féllu ekki fram sem skriða. Bæjarstjórn hefur þegar ákveðið að ekki verði leyft að endurreisa hús á svæðinu þar sem skriðan féll á sömu lóðum nema reistar hafi verið varnir og ofanflóðahætta endurmetin.

    • Hvaða mælingar og ráðstafanir hafa verið gerðar til að afla upplýsinga um mögulega hættu og rýmingar þegar að fer að rigna næst?

      Unnið er að því að koma upp mælitækjum til vöktunar á skriðuhættu á Seyðisfirði. Mælingar á hreyfingu jarðlaga hafa verið bættar með nýjum landmælingatækjum og uppsetning fleiri mælitækja er fyrirhuguð. Lýsingu á mælitækjum sem sett hafa verið upp til vöktunar og verið er að kanna möguleika á að setja upp er að finna í minnisblaði Veðurstofunnar um skriðuföllin á Seyðisfirði sem aðgengilegt verður á vefsvæði sveitarfélagsins.

    • Munu einhverjir varnargarðar t.d. sambærilegir þeim sem eru í Alpafjöllunum stoppa svona skriðu eða gera hana umfangsminni?

      Það er ekki talið að varnargarðar hefðu stöðvað þessa skriðu og komið í veg fyrir tjón, einkum ytri hluta hennar sem hraðast fór. Varnargarðar eru heldur ekki taldir koma til greina sem framtíðarvörn fyrir þetta svæði þannig að áhætta í íbúðabyggð þar verði viðunandi. Hins vegar er talið að varnaraðgerðir sem gripið hafði verið til í farvegi Búðarár hafi haft mikið að segja til þess að bægja innri hluta skriðunnar frá nokkrum húsum í svokölluðum Múla sem sluppu við tjón í skriðunni. Þró sem þar hafði verið grafin út og fyrirstaða neðan hennar höfðu greinilega þau áhrif að beina skriðunni frá byggingum. Þessi hluti skriðunnar var á minni hraða og þá hefur landslag meiri áhrif á útbreiðsluna. Niðurstöður forathugunar á varnarkostum fyrir sunnanverðan Seyðisfjörð frá 2016 er unnt að nálgast á vef Veðurstofunnar (https://www.vedur.is/media/vedurstofan-utgafa-2016/VI_2016_006_rs.pdf).

    • Hve mikil áhrif hefur hlýnun jarðar á aukna skriðuhættu?

      Hlýnun sem orðin er hér á landi er talin hafa aukið á hættu á skriðuföllum á jökla, þar sem hlíðar hafa misst hliðarstuðning við það að yfirborð jökulsins lækkar, og einnig hættu á skriðuföllum þar sem þiðnandi sífreri er í hlíðum. Nokkur dæmi eru um skriðuföll af þessum toga hér á landi á síðustu árum og áratugum eftir að loftslag hér tók að hlýna hratt eftir 1995. Meiri vafi er um það hvort tíðni skriðufalla af öðrum tegundum, sambærilegum þeim er féllu á Seyðisfirði í desember, hefur einnig aukist, en þegar líða tekur á öldina er gert ráð fyrir að úrkoma aukist nokkuð hér á landi og að það auki tíðni skriðufalla. Í þessu sambandi má nefna að fjórar, stórar forsögulegar skriður, sem fundist hafa ummerki um í jarðlögum undir byggðinni við sunnanverðan Seyðisfjörð, féllu fyrir nokkur þúsund árum þegar veðurfar hér á landi er ekki talið hafa verið hlýrra en nú. 

    • Hve mikil áhrif hefur hlýnun jarðar á að úrkoman fellur sem rigning en ekki snjór?

      Hlýnandi loftslag veldur því að úrkoma fellur fremur sem rigning en snjór. Það eykur hættu á skriðuföllum að vetrarlagi en getur dregið úr hættu á skriðuföllum að vorlagi þegar snjóbráðnun er þáttur í aðdraganda skriðufalla. Á fjórða áratug síðustu aldar var ámóta hlýtt hér á landi og á síðustu árum og eru þessi áhrif nú væntanlega ekki orðin meiri en þá var.

    • Hve mikil áhrif hefur hlýnun jarðar á að gróður færist ofar í hlíðar?

      Hlýnandi veður gerir það að verkum að gróður færist ofar í hlíðar. Áhrif þessa á skriðuföll eru hugsanlega einhver en væntanlega ekki mikil nema í undantekningartilvikum. 

    Svör frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra

    • Um rýmingar vegna aurskriðna á Seyðisfirði hafa undanfarið verið á íslensku, ensku og pólsku. Hins vegar hefur komið fram hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að hvergi sé tiltekið sérstaklega á hvaða tungumálum er skylt að senda skilaboð um rými

      Breytingar á almannavarnalögum með tilliti til birtingar efnis á fleiri tungumálum en íslensku eru verðugar vangaveltur og það styrkir alltaf vinnulag ef fyrirkomulag þess er undirbyggt í lögum og reglugerðum. Í þessu samhengi er líka mikilvægt að vita að í viðbragðskerfinu okkar er til staðar vinnuferli sem felur m.a. í sér að greina samsetningu íbúa á því svæði sem útsett er. Út frá þeirri greiningu er svo ákveðið á hvaða tungumálum efni og skilaboð til fólks eru þýdd. Þýðingin er þó alltaf á ensku og í þessu tilviki var einnig þýtt yfir á pólsku.

    • Viðbragðsáætlanir og annað efni hefur hingað til að mestu leyti verið gefið út á íslensku. Komið hefur fram hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að hvergi sé tiltekið sérstaklega á hvaða tungumálum er skylt að gefa út viðbragðsáætlanir og annað efn

      Breytingar á almannavarnalögum með tilliti til birtingar efnis á fleiri tungumálum en íslensku eru verðugar vangaveltur og það styrkir alltaf vinnulag ef fyrirkomulag þess er undirbyggt í lögum og reglugerðum. Í þessu samhengi er líka mikilvægt að vita að í viðbragðskerfinu okkar er til staðar vinnuferli sem felur m.a. í sér að greina samsetningu íbúa á því svæði sem útsett er. Út frá þeirri greiningu verður svo ákveðið á hvaða tungumálum efni og skilaboð Tilkynningar til fólks eru þýdd.

    • Af hverju sé ég stundum tilkynningar um rýmingu í fjölmiðlum á undan textaskilaboðum sem ég fæ?

      Þegar tilkynningar um rýmingar eru sendar út, eru notaðar nokkrar aðferðir til þess að koma skilaboðum á framfæri. Ein af þeim er að senda tilkynningarnar til fjölmiðla og er litið á þær tilkynningar sem hluta af leiðum viðbragðskerfisins til að koma skilaboðum til fólks. Í einhverjum tilvikum birta fjölmiðlartilkynningar áður en SMS hópsendingar hafa borist til allra. Meginmarkmiðið er að koma upplýsingunum til skila á sem fljótastan og skilvirkastan hátt.

    • Af hverju fæ ég ekki alltaf textaskilaboð (SMS) um rýmingu þegar rýming er framundan?

      SMS skilaboð er ein aðferð sem hefur verið notuð til þess að koma upplýsingum til fólks um rýmingar. Í sumum tilvikum berast svona hópsendingar ekki í alla síma og eru ástæður langoftast tæknilegs eðlis. Vegna þessa eru einnig notaðar aðrar aðferðir til þess að tryggja að skilaboðin komist til skila eins og að birta tilkynningar í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og að ganga í hús á rýmingasvæði.

    • Er til viðbragðsáætlun/rýmingaráætlun vegna aurskriðna á Seyðisfirði? Ef hún er til, hvar er hún þá aðgengileg íbúum?

      Reitaskiptar rýmingaáætlanir hafa einungis verið gerðar fyrir snjóflóðarýmingu. Sérstök rýmingaráætlun vegna aurskriðna á Seyðisfirði upp úr hættumati sem var kynnt 2019 hefur ekki verið unnin en hún er í vinnslu. Hins vegar er hægt að skipuleggja rýmingarviðbrögð út frá núgildandi hættumati þar sem svæðum er skipt upp í A, B og C svæði eftir áhættu. Rýmingaráætlun vegna snjóflóða er til og má að finna hér: https://www.vedur.is/ofanflod/vidbunadur/seydisfjordur/.

      Eðli rýmingar- og viðbragðsáætlana er ekki það sama. Rýmingaráætlanir hafa forvarnargildi og oftast gripið til þeirra til að forða fólki frá því að lenda í yfirvofandi vá. Rýmingaráætlanir segja til um hvaða svæði íbúar eiga að rýma í hvert sinn. Viðbragðsáætlanir eru verkferlar viðbragðsaðila og virkjaðar þegar atburður hefur orðið sem kallar á tafarlaus viðbrögð þeirra. Sérstök viðbragðsáætlun vegna skriðufalla á Seyðisfirði er ekki til, en í flestum atburðum er unnið eftir ákveðnu skipulagi þar sem hlutverk viðbragðsaðila er skýrt.

    • Þegar viðbragðsáætlun/rýmingaráætlun er gefin út, á hvaða tungumálum er hún þá gefin út og hversu aðgengileg er hún íbúum, ferðamönnum, starfsmönnum sem vinna í stuttan tíma í bænum o.s.frv? Hver ber ábyrgð á að íbúar séu upplýstir um rýmingaráætlunina?

      Rýmingaráætlanir vegna ofanflóðahættu eru gefnar út á íslensku og hafa ekki verið þýddar yfir á önnur tungumál til þessa. Þegar samfélagið er að stórum hluta með annað ríkjandi tungumál, þá er það hugað að kynningu á öðrum tungumálum. Þetta þarf líka að skoða reglulega þar sem samsetning íbúa í samfélögum getur breyst. Þegar rýmingaráætlun er kynnt í fyrsta skiptið, þá er það samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands og almannayfirvalda (sveitarfélaga og lögreglu). Mikilvægt er að rýmingaráætlanir séu unnar í samvinnu við íbúa og aðra sem koma að rýmingum.

      Í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum segir að almannavarnanefndir sveitarfélaga skulu annast gerð viðbragðsáætlana, en sú vinna hefur almennt verið leidd af almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samráði við viðkomandi lögregluembætti. Auk þess hefur almannavarnanefnd sveitarfélagsins forgöngu um leiðbeiningar og almannafræðslu um hættu af ofanflóðum í samvinnu við ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands. 

    • Skilaboð um rýmingar bárust eingöngu á íslensku. Er ekki skylda að senda skilaboðin á fleiri tungumálum?

      Það er ekki tiltekið sérstaklega á hvaða tungumálum er skylt að senda skilaboð, en reynt er eftir fremsta megni að aðlaga tilkynningar að þeim samfélögum sem við á. Vegna samsetningu íbúa á Seyðisfirði var lögð áhersla á að senda út skilaboð á íslensku, ensku og pólsku. Í fyrstu tilkynningunum fóru út sms eingöngu á íslensku, en þegar leið á atburðinn var fleiri tungumálum bætt við. Flestar fréttatilkynningar voru sendar út á íslensku, ensku og pólsku.

    • Er skylda að rýmingar-/viðbragðsáætlun sé gerð eftir að hættumat er gert? Hver ber ábyrgð á að gera slíka áætlun og hversu langan tíma hefur viðkomandi eftir að hættumat hefur verið gefið út?

      Sveitarstjórn skal gera áætlun um aðgerðir sem tryggja öryggi fólks í húsum á hættusvæði og skal hún liggja fyrir innan sex mánaða frá því að hættumat er staðfest. Ef hættumat leiðir í ljós að áhætta er óásættanleg, þá er skv. lögum gerð rýmingaráætlun vegna snjóflóða. Þær eru gerðar til þess að minnka líkur á manntjóni og slysum og tryggja fumlaus viðbrögð ef kemur til rýminga og hefur Veðurstofu Íslands umsjón um gerð þeirra. Veðurstofan hefur einnig haft umsjón með gerð rýmingaráætlana fyrir skriðuföll, en slíkar áætlanir eru annars eðlis en rýmingaráætlanir vegna snjóflóða og yfirleitt ekki settar fram með fyrirfram ákveðnum rýmingarreitum. Tímafrestur vegna gerðar á rýmingaráætlana er ekki tilgreinur í lögum.

      Viðbragðsáætlanir sem eru virkjaðar ef skriður falla og kalla á tafarlaus viðbrögð eru annars eðlis en rýmingaráætlanir. Skv. lögum er það skylda almannavarnanefnda sveitarfélaga að vinna að gerð þeirra áætlana í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra (AVD). Hins vegar hefur á síðustu árum komið upp það verklag að AVD hefur leitt vinnu við gerð viðbragðsáætlana í samvinnu við viðkomandi lögreglustjóra og með samráði við almannavarnanefndir. Enginn tímafrestur er tilgreindur fyrir gerð viðbragðsáætlana.

    • Er til áætlun um hvernig tryggt er að íbúar á rýmingarsvæðum hafi móttekið skilaboð um rýminguna og er hægt að fylgjast sérstaklega með því í hvaða húsum er föst búseta hverju sinni?

      Veðurstofa Íslands, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan vinna eftir sérstöku verklagi sem er í framkvæmd eins hvað varðar snjóflóðaástand eða hættu á skriðuföllum. Veðurstofan vaktar snjóflóða- og skriðusvæði í þéttbýli. Ef Veðurstofan telur að hætta sé yfirvofandi, þá sendir hún viðvörun til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi. Með viðvörunni geta fylgt tilmæli um rýmingu eða að á ákveðnum svæðum skuli gæta sérstakrar varúðar. Bakvakt almannavarnadeildar móttekur skilaboðin og tryggir að upplýsingarnar berist til lögreglunnar. Lögreglan framkvæmir svo rýminguna og tryggir að allir innan þess svæðis sem lagt er til að sé rýmt hafi fengið skilaboðin. Rýmingin er óháð því hvort um fasta búsetu sé að ræða, frístundarhús eða vinnustaði. Alltaf er gætt að því allir innan svæðis hafi yfirgefið það.

    • Hvernig eru einstaklingar sem eru á rýmingarsvæði hverju sinni upplýstir um rýmingu, t.d. ef þeir eru við vinnu á svæðinu en hafa ekki búsetu þar?

      Hægt er að koma upplýsingum um rýmingar til fólks með nokkrum leiðum. Senda sms á síma innan ákveðins svæðis, hringja beint í fólk eða banka uppá. Lögregla fer yfir vettvang og tryggir að öll þau hús og svæði sem á að rýma séu sannarlega rýmd. Ef vafi er á staðsetningu fólks, þá getur hún hafið eftirgrennslan.

    • Hvernig eiga íbúar að bregðast við þegar aurskriða fellur á íbúabyggð? Hvert á maður að fara ef maður er inni í húsi og aurskriða fellur á húsið?

      Rannsóknir hafa sýnt okkur að líklega sé öruggara að vera á efri hæðum húsa. Mikilvægt er að forðast að standa við glugga eða hurðir sem snúa upp í brekku.

      Ef aurskriður hafa þegar fallið á byggð skipta bráðaviðbrögð mestu og þau eru undir stjórn lögreglu. Réttast er að fara eftir tilmælum lögreglu ef þessi staða kemur upp en þó kann að koma upp sú staða að fólk þurfi að grípa til sinna eigin ráða. Í aðdraganda skriðufalla gefur Veðurstofan út tilmæli um öryggisráðstafanir og lögregla tekur ákvarðanir um öryggisráðstafanir og rýmingu húsnæðis.

      Ef skriða fellur á hús en veldur ekki skemmdum sem ógna burðarþoli hússins, þá á að tilkynna skriðuna til 112 og fá frekari upplýsingar um næstu viðbrögð ef ekki hafa borist tilkynningar um þau. Ef skriðan laskar burðarvirki og húsið verður óíveruhæft á að koma sér á öruggan stað og láta vita af sér í 112. Í flestum tilvikum þar sem skriða fellur í þéttbýli og gripið er til rýmingar eða hús yfirgefin, þá eru fjöldahjálparstöðvar opnaðar og tilkynningar sendar út hvar þær eru staðsettar.

    Úrræði á vegum Múlaþings

    • Hvað verður gert til að styðja við uppbyggingu atvinnustarfsemis á rýmingar/skaðasvæðum sem varð fyrir tjóni sem tryggingar bæta ekki?

      Teknar verða saman upplýsingar um mögulegt tap sem röskun vegna þessa kann hafa valdið atvinnustarfsemi á svæðinu og leitast við að fá stjórnvöld til að koma á móts við þann skaða með fjárframlögum.

    • What will be done to support the development of industry in evacuation zones / zones that suffered damage, where insurance providers will not be issuing compensation?

      Information will be gathered on possible losses that can be traced to the disruption this has caused to economic activity in the area and a request will be made to the government to compensate for incurred damages via financial contributions.

    Svör frá HSA

      Svör frá Eflu

      • Beint fyrir ofan innstu húsin í Botnahlíð (5,7,og 9) er hóll sem íbúar hafa áhyggjur af því að geti sprungið fram. Hvað verður gert til að verja íbúa á þessu svæði? Hvernig mun garðurinn út í Nautaklauf verja íbúa á þessu svæði ef hóllinn springur lí

        Nú er unnið að bráðavörnum upp með Nautaklauf og inn með Botnahlíð. Þessar varnir eru fyrst og fremst inn á svæðum sem voru röskuð eftir skriðuhrinuna eða þar sem hafa verið slóðir, skurðir eða önnur inngrip í landslagið sem hentar að nota.

        Á svæðinu fyrir ofan innstu húsin í Botnahlíð, þ.e. 5, 7 og 9 er klettabelti og rýmið á milli klettsins og húsanna er mjög takmarkað, þannig að það var ekki metið raunhæft að fara þar inn með miklum hraða, þar sem landið þar er óhreyft ef svo má segja og þar sem þær lausnir sem þar þarf að beita þurfa meiri yfirlegu, samráðferli og mögulega skipulagslegar ákvarðanir. Hóllinn getur reyndar brotnað bæði í átt að Nautaklauf og í áttina að Botnahlíð. Því munu varnir við Nautaklauf halda að við skriður sem falla til norðurs úr hólnum.

        Botnahlíðin í heild sinni verður tekin fyrir í skýrslu um mögulegar ofanflóðavarnir á svæðinu í heild. Sú skýrsla á koma út í vor og í framhaldi af því þarf sveitarstjórn að taka ákvörðun um hvaða leið þau vilja fara og að því loknu fer allt opinbera ferlið í gang, þ.e. mat á umhverfisárhrifum, hönnun, og útboð.

        Svæðið er núna í stífri vöktun með landmælingatækjum. Það er borhola í hólnum umræddum hól sem fær síritandi vatnshæðarmæli fljótlega, þá verður í það minnsta hægt að fylgjast auðveldlega með því. Við sáum hvað vatnið steig hátt í þeirri holu núna í desember án þess að sjálfur hóllinn hlypi fram, þannig að það eru nokkuð góð gögn til að byggja á, alla vega gagnvart stórum skriðum.

        (Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu).

      Getum við bætt efni þessarar síðu?