Með ráðgjöf er markmið að efla og styrkja hvern einstakling til að takast á við viðfangsefni sín með áherslu á stuðning til sjálfshjálpar. Virðing, góð tengsl og trúnaður eru lykilatriði í allri ráðgjöf og samskiptum.
Ráðgjöf félagsþjónustunnar tekur til barna og fullorðinna og er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um málefni fatlaðs fólks og barnaverndarlögum.
Meðal þjónustuúrræða sem eru í boði er félagsleg ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, stuðningur og ráðgjöf við barnafjölskyldur og sértæk þjónusta vegna fatlaðs fólks.
Austurlandslíkanið
Bæklingur um Austurlandslíkanið, smellið hér.
Félagsleg ráðgjöf
Í félagslegri ráðgjöf felst m.a. að veittar eru upplýsingar um ýmis réttindamál, persónulegur stuðningur, samræming þjónustu og lausnamiðuð stuðningsviðtöl. Ráðgjöfinni skal ætíð beitt í eðlilegu samhengi við aðra þjónustu og aðstoð sem til boða stendur.
Haft er að leiðarljósi að styðja einstaklinginn eða fjölskylduna til sjálfshjálpar þannig að hver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu.
Fjárhagsaðstoð og ráðgjöf
Annars vegar er um að ræða framfærslustyrk sem veita má einstaklingum sem ekki geta séð sér farborða með öðrum hætti, hins vegar er heimilt að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna og til að koma til móts við þarfir barna vegna þátttöku í þroskavænlegu félagsstarfi.
Fjárhagsaðstoðin skal miða að því að styrkja einstaklinginn til sjálfshjálpar og þar með að vinna bug á fjárhagslegum erfiðleikum til frambúðar. Einnig er boðið uppá ráðgjöf um meðferð fjármuna og aðstoð við skipulagningu fjármála. Starfsmaður er tengiliður við ráðgjafastofu um fjármál heimilanna.
Hér má nálgast reglur um fjárhagsaðstoð og umsókn um fjárhagsaðstoð.
Liðveisla
Fötluð börn skulu eiga kost á liðveislu en með því er átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, t.d. aðstoð við að njóta menningar og félagslífs og efla viðkomandi til sjálfshjálpar. Við mat á þjónustuþörf er tekið mið af aðstæðum viðkomandi.
Hér má finna reglur um liðveislu og umsókn.
Ráðgjöf vegna barna
Stuðningur og ráðgjöf við barnafjölskyldur felst m.a. í uppeldisráðgjöf, fræðslu og námskeiðum.
Í sérstökum tilfellum er börnum sem búa við erfiðar aðstæður s.s. félagslega einangrun veitt þjónusta í formi persónulegs ráðgjafa.
Foreldrar fatlaðra barna geta fengið aðstoð við að halda utan um málefni barna sinna varðandi samræmingu á þjónustu, ráðgjafi getur tekið þátt í teymisfundum foreldra og þjónustuaðila ef óskað er og veitt ráðgjöf til þeirra aðila sem veita börnunum þjónustu.
Einnig er foreldrum veitt aðstoð við umsókn um fjárhagslega aðstoð til TR . Þörf fyrir fjárhagsaðstoð er metin með tilliti til umönnunarþarfa viðkomandi barns og fötlunar þess og er aðstoðin ætluð til þess að mæta ýmsum kostnaði vegna þjónustu við barnið.
Samvinna eftir skilnað - barnanna vegna
Félagsþjónustan býður upp á ráðgjöf og stuðning við foreldra sem eru að hugsa um að skilja, eru í skilnaðarferli eða hafa skilið fyrir einhverju síðan og vilja bæta samvinnu sín á milli. Upplýsingabækling um verkefnið má nálgast hér.
Boðið er upp á :
- námskeið,
- einstaklingsmiðaða ráðgjöf
- stuðningsviðtöl
Verkefnið Samvinna eftir skilnað er reynsluverkefni á vegum félagsmálaráðuneytisins. Markmið verkefnisins er að innleiða og þróa nýtt vinnulag í félagsþjónustu og efla félagslega ráðgjöf með áherslu á skilnaðarmál, forsjár- og umgengnismál, barnanna vegna. Með því að veita ráðgjöf og þjónustu á fyrri stigum hjá félagsþjónustu standa vonir til þess að hægt verði að draga úr líkum á ágreiningi á milli foreldra.
Á netvangi verkefnisins samvinnaeftirskilnad.is eru stafræn námskeið í þremur hlutum fyrir foreldra. Aðgangur að þeim fæst með því að hafa samband við félagsþjónustuna.
Foreldrar sem vilja þiggja stuðning og ráðgjöf varðandi skilnað og samvinnu eftir skilnað geta sett sig í samband við félagsþjónustuna, sem þjónar auk Múlaþingi, Vopnafirði og Fljótsdalshreppi.
Sálfræðiþjónusta
Sálfræðiráðgjöf er veitt til fatlaðs fólk og aðstandenda þeirra auk þess sem sálfræðingur er starfandi í málefnum barna.
Skammtímavistun
Foreldrar eiga kost á skammtímavistun fyrir fötluð börn sín. Fötluð ungmenni og fullorðnir, sem búa í heimahúsum, eiga einnig kost á skammtímavistun. Skammtímavistun er tímabundin dvöl sem er ætlað að létta álagi af fjölskyldum fatlaðra barna, veita þeim tilbreytingu og stuðla að því að börn geti búið sem lengst í heimahúsum. Skammtímavistun fyrir félagsþjónustu Múlaþings og Fjarðabyggðar er staðsett í Neskaupstað.
Hér má sjá reglur um afgreiðslu umsókna um skammtímavistun fyrir fatlað fólk.
Hér er að finna umsókn um skammtímavistun.
Stuðningsfjölskyldur
Fjölskyldur fatlaðra barna skulu eiga kost á stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefur. Hlutverk hennar er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og gefa börnunum möguleika á aukinni félagslegri þátttöku. Samið er um ákveðinn dagafjölda í mánuði, oftast 2-3 sólarhringar og foreldrar eru hafðir með í ráðum um val á fjölskyldu.
Þörf fyrir þjónustu er metin í hverju tilfelli fyrir sig út frá fötlun barns og aðstæðum fjölskyldu. Heimilt er í sérstökum tilfellum að veita fjölskyldum einstaklinga eldri en 18 ára þjónustu stuðningsfjölskyldu.
Hér má finna reglur um stuðningsfjölskyldur og umsókn.
Gjaldskrá fyrir stuðningsfjölskyldur
Samþykktir og reglur sem félagsþjónustan starfar samkvæmt má finna hér
Umsóknir um þjónustu / aðstoð má finna hér.