Fara í efni

Sveitarstjórn Múlaþings

47. fundur 10. apríl 2024 kl. 13:00 - 15:20 Álfacafé Borgarfirði
Nefndarmenn
  • Jónína Brynjólfsdóttir forseti
  • Berglind Harpa Svavarsdóttir aðalmaður
  • Hildur Þórisdóttir aðalmaður
  • Helgi Hlynur Ásgrímsson aðalmaður
  • Ívar Karl Hafliðason aðalmaður
  • Vilhjálmur Jónsson aðalmaður
  • Eyþór Stefánsson aðalmaður
  • Þröstur Jónsson aðalmaður
  • Ásrún Mjöll Stefánsdóttir aðalmaður
  • Eiður Gísli Guðmundsson varamaður
  • Einar Freyr Guðmundsson varamaður
Starfsmenn
  • Inga Þorvaldsdóttir fundarritari
  • Hrund Erla Guðmundsdóttir starfsmaður tæknisviðs
  • Óðinn Gunnar Óðinsson skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Inga Þorvaldsdóttir fulltrúi á stjórnsýslusviði

1.Ársreikningur Múlaþings 2023

Málsnúmer 202403036Vakta málsnúmer

Lagður er fram ársreikningur Múlaþings fyrir árið 2023 til síðari umræðu í sveitarstjórn auk endurskoðunarskýrslu KPMG fyrir árið 2023.
Helstu niðurstöðutölur eru sem hér segir:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2023 námu 9.623 milj.kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 8.148 millj.kr.
Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði og afskriftir námu alls 8.230 millj.kr. í samanteknum ársreikningi 2023 fyrir A og B hluta, þar af námu rekstrargjöld A hluta 7.699 millj.kr. Afskriftir ársins í A og B hluta námu 471 millj.kr. og þar af 276 millj.kr. í A hluta. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 897 millj.kr. í samanteknum A og B hluta, þar af 729 millj.kr. í A hluta.
Eftir fjármagnsliði og afskriftir var rekstrarafkoma ársins jákvæð um 2 millj.kr. í samanteknum A og B hluta. Þar af var afkoma A-hluta neikvæð um 523 millj.kr. Fyrir fjármagnsliði var rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 921 millj.kr., þar af 174 millj.kr. í A hluta.
Veltufé frá rekstri var jákvætt um 1.323 millj.kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af er veltufé frá rekstri í A hluta jákvætt um 483 millj.kr.
Fjárfestingahreyfingar ársins námu nettó 1.222 millj.kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af 539 millj.kr. í A hluta.
Lántökur námu 1.085 millj.kr á árinu 2023, en afborganir af lánum og leiguskuldbindingum námu 938 millj.kr. á árinu 2023.
Eignir samkvæmt efnahagsreikningi námu 16.759 millj.kr. í árslok 2023 fyrir A og B hluta, þar af nema heildareignir A hluta 11.036 millj.kr. í árslok 2023.

Heildarskuldir og skuldbindingar námu 13.666 millj.kr. í árslok 2023 fyrir A og B hluta. Þar af nema heildarskuldir og skuldbindingar A hluta 10.441 millj.kr.

Frávik frá fjárhagsáætlun í A hluta eru nokkur eða um 395 millj.kr sem skýrast af viðbótarlífeyriskuldbindingu upp á um 102 millj.kr. og aukinni verðbólgu sem leiddi til aukinna fjármagnsgjalda upp á um 210 millj.kr. og aukins rekstrarkostnaðar um 83 millj.kr.

Þó rekstrarniðurstaða sé lakari en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir er rétt að vekja athygli á því að rekstrarniðurstaðan er, bæði í A hluta og samstæðu A og B hluta, betri en árið 2022. Þannig að þó að ekki hafi náðst sú niðurstaða í A hluta er fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir þá er þróun rekstrar jákvæð sem og þróun á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Ársreikningurinn í heild sinni er að öðru leyti aðgengilegur á heimasíðu Múlaþings.

Til máls tóku: Óðinn Gunnar Óðinsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir og Helgi Hlynur Ásgrímsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn samþykkir framlagðan samstæðureikning Múlaþings fyrir árið 2023, við síðari umræðu, en fyrri umræða um hann fór fram 13. mars sl.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


2.Fjarðarheiðargöng

Málsnúmer 202208012Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar, dags. 04.04.2024, varðandi Fjarðarheiðargöng.

Til máls tóku: Jónína Brynjólfsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Þröstur Jónsson, Hildur Þórisdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Einar Freyr Guðmundsson, Eyþór Stefánsson og Þröstur Jónsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 er lögð áhersla á að byggja Fjarðaheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Sveitarstjórn Múlaþings fer þess á leit við innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að nú þegar verði gefin heimild til útboðs Fjarðaheiðargangna þannig að það fari fram samhliða því að verkefnastofa um gjaldtöku klári sína vinnu við tekjumódel fyrir jarðgöng á Íslandi. Með því móti verði hægt að ganga til samninga við framkvæmdaðila um leið og tekjumódel jarðganga á Íslandi verður samþykkt á Alþingi. Mikilvægt er að framkvæmdir við gerð Fjarðarheiðarganga hefjist á árinu 2025.

Sveitarstjóra falið að koma á fundi með ráðherrum til að fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Aðalskipulagsbreyting, Kárahnjúkastífla, Efnisnáma

Málsnúmer 202402067Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bókun frá fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs, dags. 25.03.2024, varðandi aðalskipulagsbreytingu, Kárahnjúkastífla.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkir sveitarstjórn Múlaþings fyrirliggjandi tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2020 þar sem efnisnámu við Kárahnjúkastíflu er bætt inn á gildandi skipulag. Um málsmeðferð fer samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur sveitarstjórn skipulagsfulltrúa framkvæmd málsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Sumarlokun skrifstofa Múlaþings 2024

Málsnúmer 202403121Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bókun frá fundi byggðaráðs, dags. 19.03.2024, varðandi sumarlokun skrifstofa Múlaþings 2024.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu byggðaráð samþykkir sveitarstjórn Múlaþings að sumarlokun skrifstofa sveitarfélagsins á Borgarfirði, Seyðisfirði og Djúpavogi verði frá og með mánudeginum 8.júlí og til og með föstudeginum 2. ágúst. Skrifstofa sveitarfélagsins á Egilsstöðum verði lokuð frá og með mánudeginum 22.júlí og til og með föstudeginum 2. ágúst.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

5.Kosning fulltrúa í embætti, stjórnir, ráð og nefndir

Málsnúmer 202205380Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tölvupóstur frá Guðný Láru Guðrúnardóttur þar sem hún óskar eftir tímabundinni lausn frá setu í sveitarstjórn Múlaþings.

Til máls tóku: Helgi Hlynur Ásgrímsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir og Einar Freyr Guðmundsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir að Einar Freyr Guðmundsson taki tímabundið sæti sem aðalmaður í sveitarstjórn Múlaþing frá 20. mars til 20. maí 2024 í stað Guðnýjar Láru Guðrúnardóttur sem óskað hefur eftir tímabundinni lausn frá setu í sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

6.Samræmd móttaka flóttafólks

Málsnúmer 202311045Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bókun frá fundi fjölskylduráðs, dags. 19.03.2024, varðandi samræmda móttöku flóttafólks.

Til máls tók: Helgi Hlynur Ásgrímsson

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu fjölskylduráðs samþykkir sveitarstjórn Múlaþings að samningur sveitarfélagsins við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, um samræmda móttöku flóttafólks verði framlengdur til maíloka 2024. Félagsmálastjóra falin framkvæmd málsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

7.Yfirlýsing um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambandsins

Málsnúmer 202403052Vakta málsnúmer

Fyrir liggur áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga 2024. Einnig liggur fyrir mat á áhrifum þessa á rekstur sveitarfélagsins.

Til máls tók: Þröstur Jónsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings lýsir yfir stuðningi við þær áherslur er fram koma í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga 2024. Sveitarstjóra falið að láta vinna greiningu á mögulegum áhrifum þessa á samþykkta fjárhagsáætlun vegna yfirstandandi árs og verði viðauki við samþykkta fjárhagsáætlun lagður fyrir byggðaráð til afgreiðslu er niðurstaða liggur fyrir.

Samþykkt með 10 atkvæðum, einn sat hjá (ÞJ).

8.Heilsársvegur um Öxi

Málsnúmer 202304027Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Djúpavogs, dags. 04.04.2024, varðandi heilsársveg um Öxi.

Til máls tóku: Ívar Karl Hafliðason, Hildur Þórisdóttir, Eiður Gísli Guðmundsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Eiður Gísli Guðmundsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Þröstur Jónsson og Eyþór Stefánsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir að fara þess á leit við innviðaráðherra að taka vegaframkvæmdir við Öxi af lista PPP verkefna og að ríkið fjármagni framkvæmdina enda sé hún brýn samgöngubót og í samræmi við svæðisskipulag Austurlands 2022-2044. Mikilvægt er að framkvæmdir hefjist strax á næsta ári og gerist þess þörf þá verði verkefninu áfangaskipt þannig að hægt verði að ljúka því á að hámarki þremur árum. Jafnframt tekur sveitarstjórn Múlaþings undir ábendingu heimastjórnar Djúpavogs varðandi þá staðreynd að Axarvegur sé sá vegkafli á landinu sem fellur hvað best að markmiðum samgönguáætlunar um aukið öryggi, styttingu vegalengda, tengingu byggða og umhverfismál og því eðlilegt að fjármunum verði forgangsraðað í anda þess.

Sveitarstjóra falið að koma á fundi með ráðherra til að fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

9.Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 45

Málsnúmer 2403016FVakta málsnúmer

Til máls tóku: Vegna liðar 4,Vilhjálmur Jónsson. Vegna liðar 1, Hildur Þórisdóttir sem bar upp fyrirspurn og Vilhjálmur Jónsson kom til svara.

Lagt fram til kynningar.

10.Heimastjórn Djúpavogs - 48

Málsnúmer 2403017FVakta málsnúmer

Til máls tóku: Vegna liðar 2, Helgi Hlynur Ásgrímsson sem bar upp fyrirspurn, Ívar Karl Hafliðason kom til svara. Vegna liðar 6, Helgi Hlynur Ásgrímsson sem bar upp fyrirspurn, Ívar karl Hafliðason svaraði fyrirspurn Helga Hlyns og Þröstur Jónsson. Vegna liðar 7, Ívar Karl Hafliðason. Vegna liðar 11, Ívar Karl Hafliðason og Helgi Hlynur Ásgrímsson. Jónína Brynjólfsdóttir til svara vegna liðar 2 og 6. Ívar Karl Hafliðason vegna liðar 6.

Lagt fram til kynningar.

11.Heimastjórn Seyðisfjarðar - 45

Málsnúmer 2403010FVakta málsnúmer

Til máls tóku: Vegna liðar 4, Ásrún Mjöll Stefánsdóttir sem bar upp fyrirspurn, Hildur þórisdóttir bar upp fyrirspurn, Jónína Brynjólfsdóttir svaraði fyrirspurnum Ásrúnar og Hildar, Vilhjálmur Jónsson og Helgi Hlynur Ásgrímsson

Lagt fram til kynningar.

12.Byggðaráð Múlaþings - 111

Málsnúmer 2403004FVakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

13.Byggðaráð Múlaþings - 112

Málsnúmer 2403012FVakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

14.Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings - 111

15.Fjölskylduráð Múlaþings - 98

Málsnúmer 2403009FVakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

16.Fjölskylduráð Múlaþings - 99

Málsnúmer 2403013FVakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

17.Ungmennaráð Múlaþings - 30

Málsnúmer 2404002FVakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

18.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 202010421Vakta málsnúmer

Farið yfir og kynnt þau helstu mál sem sveitarstjóri hefur unnið að undanfarið og þau verkefni sem framundan eru.

Fundi slitið - kl. 15:20.

Getum við bætt efni þessarar síðu?