Fara í efni

Viljandi villt

Þeir þéttbýliskjarnar sem mynda hið unga sveitarfélag Múlaþing eru um margt ólíkir þegar kemur að náttúru, umhverfi og jafnvel veðurfari. Hefðir og afstaða til garðyrkju og gróðurs á hverjum stað eru breytilegar og mótaðar af þessum aðstæðum.

Ef betur er að gáð eiga þessir staðir þó margt sameiginlegt. Ekki síst það hvernig hin villta náttúra tvinnast saman við byggðina. Víða í nágrannalöndum er sú þróun að verða áberandi að endurskapa náttúruna inni í bæjum og borgum. Græn þök með gróðri, þakgarðar á stærri húsum, grænir veggir og almenningsgarðar þar sem reynt er að líkja eftir náttúrunni. Þessi þróun er að eiga sér stað hér á landi líka og er eitt megin viðfangsefni garðyrkjunnar í dag. Það einstaka og áhugaverða við þéttbýlisstaðina í Múlaþingi er að þetta er allt fyrir hendi nú þegar. Villtur gróður, klettar og óhreyfð svæði tvinnast saman við byggðina. Þetta einkenni þéttbýlisstaða í Múlaþingi eru í sjálfu sér einstök verðmæti á tímum þar sem umhverfismál eru sífellt að verða mikilvægari.

Þegar kemur að skipulags- og umhverfismálum gefur þetta mikla möguleika en um leið er það áskorun og ábyrgð að taka tillit til þessarar sérstöðu. Ekki síst þegar kemur að garðyrkjunni. Þarna kemur líka til þessi fína lína um hvað telst fallegt náttúrulegt umhverfi og hvað er órækt. Þau mörk eru ekki alltaf skýr.

Flest vilja að gras sé slegið, illgresi hreinsað og trjágróður klipptur til að skapa snyrtilegt umhverfi. En þó þarf ekki að slá gras inni í skógi og ekki í klettabeltum þar sem náttúrulegur og fjölbreyttur gróður sér um sig sjálfur. Því má spyrja ,,Hvar liggja þessi mörk milli þess villta og þess snyrtilega?“ Oftast er auðvelt að átta sig á því og flest hafa mótaðar skoðanir á hvar sé eðlilegt að láta náttúruna njóta sín og hvar ástæða sé til að sinna umhirðu af meiri natni.

Víða má auka gróður í bæjarumhverfinu. Þar kemur til greina að búa til fleiri gróðurbeð innan bæjarmarka með slegnu grasi í kring í anda hefðbundinnar skrúðgarðyrkju. En einnig að vinna í anda villtra svæða og færa náttúruna enn meira inn í þéttbýlið. Nota tré, runna og blómgróður til að líkja eftir náttúrunni.

Eitt af því sem auðvelt er að gera er að taka frá ákveðin svæði sem hafa verið slegin reglulega og láta náttúruna hafa sinn gang. Láta þar blómgróður vaxa upp með grasinu. Þetta er það sem oft er kallað blómaengi. Það er graslendi með blómgróðri.

Á síðustu árum hefur Múlaþingi verið að prófa sig áfram með þessa stefnu. Tekið frá fáein svæði, helst á þurrum stöðum, þar sem ekki hefur verið slegið gras, nema þá kannski einu sinni í lok sumars. Þetta hefur almennt mælst vel fyrir. Í leiðinni hefur verið lögð meiri áhersla að slá svæði sem eru með mikinn grasvöxt þar sem njóli og skógarkerfill eru áberandi.

Ætlunin er að halda áfram að þróa þessi blómaengi. Taka frá fleiri svæði þar sem ekki er slegið nema einusinni á ári. Svæðin eru merkt sérstaklega með skilti og QR kóða sem leiðir forvitna inn á þessa síðu.

Þetta verkefni höfum við kallað Viljandi villt

Með því að draga úr slætti eða jafnvel hætta alveg að slá sprettur upp fjölbreyttur blómgróður. Það er þó ekki eini kosturinn við verkefnið Viljandi villt en einnig má nefna að það styður við að:

  • færa náttúru inn í þéttbýlið
  • auka líffræðilega fjölbreytni bæði í gróðri og dýralífi
  • fegra umhverfið
  • minnka umhirðu og slátt
  • fá fjölbreyttan gróður á staði þar sem ekki er hægt að rækta trjágróður, til dæmis vegna snjómoksturs.

Það þarf þó engu að síður oftast að slá einu sinni í lok sumars til að koma í veg fyrir sinuflóka. Þetta á sérstaklega við á gróskumeiri svæðum

Nokkrar algengar tegundir villtra blómplantna í blómaengjum á Austurlandi eru Vallhumall, Bláklukka, Túnfífill, Skarifífill, Roðafífill, Gulmaðra, Hvítsmári, Freyjubrá, Brennisóley, Aronsvöndur og Augnfró.

Síðast uppfært 26. apríl 2024
Getum við bætt efni þessarar síðu?