Fara í efni

Útilistaverk

Eggin í Gleðivík

Eggin í Gleðivík eru útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson, einn fremsta listamann íslensku þjóðarinnar. Um er að ræða 34 eftirmyndir eggja jafn margra varpfugla í Djúpavogshreppi.

Stærst er lómseggið, en lómurinn er einkennisfugl sveitarfélagsins. Eggin standa á steyptum stöplum sem áður héldu uppi löndunarröri Bræðslunnar sem stendur innst í Gleðivík, meðan hún var starfrækt. Listaverkin endurspeglar tengingu Djúpavogshrepps við náttúruna og áhuga íbúa þess og gesta á því fjölbreytta fuglalífi sem þar fyrirfinnst.

Verkin voru vígð með formlegum hætti við Gleðivík 14. ágúst árið 2009 og eru nú orðin meðal helstu aðdráttarafla bæjarins.


Frelsi og Hans Jónatan

Listaverk í minningu Hans Jónatans hefur verið reist við hlið Löngubúðar á Djúpavogi til heiðurs honum og þeim alþjóðlegu viðhorfum sem krefjast þess að hörundslitur ráði ekki rétti manna. Verkið ber nafnið FRELSI og er verk hins kunna listamanns Sigurðar Guðmundssonar.

Hans Jónatan (1784–1827) var fæddur í ánauð á St. Croix í Jómfrúreyjum í Karíbahafi. Móðir hans, Emilía Regína, var ambátt ættuð frá Vestur-Afríku; faðirinn var hvítur, líklega danskur.

Sjö ára að aldri var Hans Jónatan fluttur til Kaupmannahafnar á heimili eigenda sinna, Schimmelmannhjóna. Hann gat sér gott orð í orustunni um Kaupmannahöfn árið 1801 en það dugði honum ekki til að leysa sig úr ánauð. Ekkjufrú Schimmelmann höfðaði sögulegt dómsmál til að staðfesta eignarhald sitt á Hans Jónatan og vann það mál.

Hans Jónatan ákvað þá að taka sér frelsi og strauk til Íslands skömmu eftir að dómur féll árið 1802. Hann settist að á Djúpavogi þar sem hann gegndi verslunarstörfum í Löngubúð og gerðist bóndi og lét gott af sér leiða.

Austfirðingar tóku leysingjanum Hans Jónatan vel og ekkert bendir til að hann hafi þurft að líða fyrir dökkan hörundslit sinn á Íslandi eða uppruna í þrældómi. Hann kvæntist stúlku úr næstu sveit, Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi í Hamarsfirði, og eignðust þau tvö börn. Afkomendur þeirra eru nú um eitt þúsund.

Hans Jónatan var fyrsti blökkumaðurinn sem settist að á Íslandi. Ævisagan Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér (höf. Gísli Pálsson) kom út árið 2014.

Ríkisstjórn Íslands, íbúar Djúpavogs, Fiskeldi Austurlands og fjölmargir einstaklingar stóðu rausnarlega straum af kostnaði við gerð verksins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhjúpaði það við hátíðlega athöfn 10. júlí 2021.


Ljóð á vegg

Ljóð á vegg er skemmtilegt verkefni sem felst í því að gluggar og veggir á fjölförnum stöðum á Egilsstöðum og í Fellabæ skarta ljóðum og kvæðum. Fyrsta árið voru sett upp kvæði eftir Pál Ólafsson skáld. Önnur ár hafa rýmin geymt ljóð eftir Hákon Aðalsteinsson, börn leikskólanna á Fljótsdalshéraði, konur búsettar á Fljótsdalshéraði og nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum til að nefna nokkur þemu. 


Tvísöngur

Tvísöngur er hljóðskúlptúr í hlíðum Seyðisfjarðar eftir þýska listamanninn Lukas Kühne. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. Tvísöngur sam­an­stend­ur af fimm sam­byggðum hvelf­ing­um af mis­mun­andi stærð. Hæð hvelf­ing­anna er tveir til fjór­ir metr­ar og hefur hver hvelf­ing fyr­ir sig eig­in tíðni sem sam­svar­ar ein­um tóni í fimm­und­ar­söng og virk­ar sem magn­ari fyr­ir þann tón. Tví­söng­ur virk­ar þannig sem nátt­úru­leg um­gjörð fyr­ir ís­lensku tví­söngs­hefðina og er bæði sjón­ræn og hljóðræn út­færsla á henni.

Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn og tekur gangan frá bílastæði um 15-20 mínútur.

Síðast uppfært 27. desember 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?