Eggin í Gleðivík eru útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson, einn fremsta listamann íslensku þjóðarinnar. Um er að ræða 34 eftirmyndir eggja jafn margra varpfugla í Djúpavogshreppi. Stærst er lómseggið, en lómurinn er einkennisfugl sveitarfélagsins.
Eggin standa á steyptum stöplum sem áður héldu uppi löndunarröri Bræðslunnar sem stendur innst í Gleðivík, meðan hún var starfrækt. Listaverkin endurspeglar tengingu Djúpavogshrepps við náttúruna og áhuga íbúa þess og gesta á því fjölbreytta fuglalífi sem þar fyrirfinnst.
Verkin voru vígð með formlegum hætti við Gleðivík 14. ágúst árið 2009 og eru nú orðin meðal helstu aðdráttarafla bæjarins.

Ljóð á vegg er skemmtilegt verkefni sem felst í því að gluggar og veggir á fjölförnum stöðum á Egilsstöðum og í Fellabæ skarta ljóðum og kvæðum. Fyrsta árið voru sett upp kvæði eftir Pál Ólafsson skáld. Önnur ár hafa rýmin geymt ljóð eftir Hákon Aðalsteinsson, börn leikskólanna á Fljótsdalshéraði, konur búsettar á Fljótsdalshéraði og nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum til að nefna nokkur þemu.

Tvísöngur er hljóðskúlptúr í hlíðum Seyðisfjarðar eftir þýska listamanninn Lukas Kühne. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. Tvísöngur samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærð. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og hefur hver hvelfing fyrir sig eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni.
Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn og tekur gangan frá bílastæði um 15-20 mínútur.
