Fara í efni

Byggingarheimild og -leyfi

Ferli umsóknar um byggingarleyfi skiptist í tvo megin þætti; samþykkt byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis. Óska þarf sérstaklega eftir því að málið fái aðeins afgreiðslu til samþykkis byggingaráforma. Sé það ekki gert fær málið sjálfkrafa þessar afgreiðslur samhliða.

Sækja þarf um byggingarleyfi inn á mínum síðum. Í svari við umsókn um byggingarleyfi eru leiðbeiningar fyrir umsækjanda og mælst til þess að hann haldi því til haga og sjái til þess að öll gögn skili sér inn í samræmi við leiðbeiningar. 

Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa  líkt og fram kemur í 9. grein mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Lög og reglugerðir sem varða byggingarleyfi

tengill á síðu Mannvirkjalög nr. 160/2010
tengill á síðu Byggingarreglugerð nr. 112/2012
tengill á síðu Reglugerð um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra.

Byggingarheimild eða byggingarleyfi

Þær framkvæmdir sem falla undir umfangsflokk 1 samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 grein 1.3.2. eru byggingarheimildarskyldar, það er m.a. geymsluhúsnæði, landbúnaðarbyggingar, frístundahús, sæluhús, stakstæðir bílskúrar, gestahús, skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki. Niðurrif mannvirkja falla hér undir. Sé mannvirki hærra en fjórar hæðir og stærra en 2000 m² flokkast það almennt í umfangsflokk 2. En þær framkvæmdir sem falla undir umfangsflokk 2 og 3 eru byggingarleyfisskyldar, það er m.a. íbúðarhúsnæði og gistiheimili, atvinnuhúsnæði, iðnaðarhúsnæði, bílastæðahús, verslunarmiðstöðvar, skólar, íþrótta- og menningarmannvirki, stærri veitur, virkjanir og lokaðar stofnanir svo sem sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili, lögreglustöðvar og fangelsi.

Eigandi

Umsækjandi byggingarheimildar eða -leyfis þarf að vera þinglýstur eigandi. Hönnurnarstjóri getur sótt um fyrir hönd eiganda. Ef þinglýstur eigandi er lögaðli skal sótt um á viðkomandi kennitölu.

Á byggingartíma þarf húsbyggjandi að fylgja því eftir að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti og allt gangi eftir áætlun.

Hafa þarf í huga að ef breytt er út frá samþykktum uppdráttum þarf að leiðrétta uppdrætti og sækja um breytingar á byggingarleyfinu.

Hönnunarstjóri og hönnuðir

Hönnuðir þurfa að hafa löggild hönnunar réttindi og vera á skrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Hönnuðir þurfa að staðfesta sig á verkið og skila inn starfsábyrgðartryggingu sinni. Hönnunarstjóri tilkynnir aðra hönnuði á verkið sem og byggingarstjóra ef þarf.

Hönnuðum ber að skila inn hönnunargögnum ásamt jákvæðum umsögnum frá viðeigandi umsagnaraðilum. Með hönnunargöngum þarf að skila greinargerð hönnuða, skráningartöflu á rafrænu formi, staðfestingu á eigin yfirferð.

Þegar yfirferð embættis byggingarfulltrúa er lokið og jákvæð yfirferð liggur fyrir er kallað eftir árituðum gögnum í tvírirti til embættisins.

Byggingarstjóri

Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda og ber ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti. Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í samráði við eiganda og bera þeir ábyrgð hver á sínum verkþætti en byggingarstjóri hefur yfirumsjón með allri framkvæmdinni fyrir hönd eigandans. 

Einungis byggingarstjórar sem eru á skrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafa heimild til að starfa sem byggingarstjórar. Þeir staðfesta sig á verk og skila inn starfsábyrgðartryggingu sem gildir í að minnsta kosti 5 ár. Byggingarstjórar tilkynna svo iðnmeistara til sveitarfélagsins.

Hafa þarf í huga að ef breytt er út frá samþykktum uppdráttum þarf að leiðrétta uppdrætti og sækja um breytingar á byggingarleyfinu.

Byggingarstjóri framkvæmir áfangaúttektir þegar iðnmeistarar hafa lokið ákveðnum verkþáttum og sendir þær inn til byggingarfulltrúa í gegnum sérstakt úttektarapp Múlaþings. 

Iðnmeistarar

Byggingarstjóri tilnefnir iðnmeistara á verkið í gegnum mínar síður á heimasíðu Múlaþings. Iðnmeistarar staðfesta sig á verkið í gegnum tölvupóst sem þeir fá í framhaldi af tilnefningu byggingastjóra.

Síðast uppfært 11. ágúst 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?