Fara í efni

Byggingarleyfi

Byggingarleyfi

Beðið er eftir leiðbeiningum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna breytinga á byggingarreglugerð sem tóku gildi 25. nóvember 2021. Embættið  mun afgreiða nýjar umsóknir um byggingarleyfi sem byggingarheimild samkvæmt nýju reglugerðinni þar sem það á við, þar til umsóknarferlið hefur verið aðlagað breytingunum.
 
 
Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa.

Hvenær skal sækja um byggingarleyfi?

Sækja þarf um byggingarleyfi til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útlit og formi. Byggingarfulltrúi annast útgáfu byggingarleyfa fyrir mannvirki sem staðsett eru í Múlaþingi og er leyfið veitt á grundvelli laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012

Með mannvirki er átt við hvers konar jarðfasta manngerða smíði, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagna. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja.

Undantekning frá byggingarleyfisskyldu eru þó fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum en sækja þarf um framkvæmdaleyfi hjá skipulagsfulltrúa fyrir fyrrgreindum framkvæmdum. Sækja þarf hins vegar um byggingarleyfi vegna bygginga sem tengdar eru fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta, þ.m.t. fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum. 

Leiðbeiningar um framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi

Hvernig skal sækja um byggingarleyfi?

Sækja skal um byggingarleyfi með góðum fyrirvara þar sem umfjöllun um umsóknir getur tekið nokkrar vikur. Óheimilt er að hefja framkvæmdir áður en byggingarleyfi hefur verið gefið út. Húseigendur og lóðarhafar eða hönnunarstjóri í umboði þeirra geta sótt um byggingaleyfi sjá umsóknir um byggingarleyfi á mínum síðum. Með umsókn skulu fylgja aðaluppdrættir, útfylltur gátlisti vegna aðaluppdrátta og önnur viðeigandi fylgiskjöl varðandi umsókn.

Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 ber húseigendum að ráða löggildan hönnunarstjóra. Hönnunarstjóri hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á því að hönnunargögn séu til staðar og með þeim hætti sem byggingarleyfisumsókn og framkvæmd krefst. Hönnunarstjóri er að öllu jöfnu sá aðili sem annast öll samskipti við embætti byggingarfulltrúa þegar sótt er um byggingarleyfi.

Ekki er tekið á móti hönnunargögnum eða skráningu á iðnmeisturum eða byggingarstjórum nema að viðkomandi aðili sé á lista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar  og að hann eða hún hafi tekið upp gæðastjórnunarkerfi frá og með 1. janúar 2015, sbr. lög um mannvirki nr. 160/2010.

Sjá nánar leiðbeiningar vegna umsóknar um byggingarleyfi

Samræmist umsókn skipulagi?

Áður en umsókn er tekin til afgreiðslu sækist byggingafulltrúi eftir umsögnum viðeigandi aðila eins og Skipulagsfulltrúa Múlaþings, Brunavarna Austurlands, Hitaveitu Egilsstaða og Fella, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Minjastofnunnar Íslands, Vinnueftirliti og ef til vill annarra umsagnaraðila.

    • Sé umsóknin í samræmi við gildandi deiliskipulag og umsagnir skila sér inn jákvæðar verður hún tekin fyrir á næsta afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.
    • Sé umsóknin í ósamræmi við gildandi deiliskipulag og eða umsagnir neikvæðar er það bókað á næsta afgreiðslufundi byggingarfullra og umsækjanda í kjölfarið tilkynnt um þá niðurstöðu.
    • Sé ekki í gildi deiliskipulag fyrir viðkomandi svæði er það bókað á næsta afgreiðslufund byggingarfulltrúa og málinu vísað áfram til afgreiðslu skipulagsfulltrúa og það sama á við ef óvissa er um samræmi umsóknar við gildandi Aðalskipulag/deiliskipulag.

Í samræmi við ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9 í skipulagsreglugerð metur skipulagsfulltrúi hvort umsóknin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi eða húsaþyrpingar í dreifbýli

    • Ef skipulagsfulltrúi telur að umsókn samræmist aðalskipulagi hvað varðar landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar getur skipulagsfulltrúa verið falið að grenndarkynna umsóknina. Þegar aðrir aðilar eru ekki taldir eiga hagsmuna að gæta en sveitarfélagið sjálft og sá sem sækir um breytinguna er heimilt að falla frá grenndarkynningu og vísa málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa. Rökstuðningur fyrir slíkri afgreiðslu þarf að koma fram í afgreiðslu umhverfis og framkvæmdaráðs.
    • Ef skipulagsfulltrúi telur að umsókn sé í samræmi við aðalskipulag en ekki í samræmi við byggðamynstur og þéttleika byggðar, eða að hún varði almannahagsmuni á einhvern hátt (t.d. vegna umfangs), getur umhverfis og framkvæmdarráð ákveðið að gildistaka deiliskipulags sé forsenda leyfisveitingarinnar. Umsækjanda er tilkynnt um niðurstöðu ráðsinns og ákveði umsækjandi að fara í deiliskipulagsferli er málið þá sett í bið þar til deiliskipulag fyrir svæðið hefur tekið gildi. Að öðrum kosti er málinu lokað.
    • Ef skipulagsfulltrúi telur að umsóknin sé í ósamræmi við skipulag er henni hafnað og byggingarfulltrúa falið að tilkynna umsækjanda um það með skriflegum hætti.
    • Afgreiðslur umhverfis- og framkvæmdarráðs eru í flestum tilvikum háðar staðfestingu heimastjórnar.
    • Þegar heimastjórn hefur staðfest afgreiðslu umhverfis og skipulagsráðs um að erindið þurfi að grenndarkynna er umsókn og gögn send til kynningar þeirra sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta. Við grenndarkynningu er gefinn að lágmarki 4 vikna frestur til að koma með athugasemdir við umsóknina og skulu þær vera skriflegar.
    • Heimilt er að stytta athugasemdafrest og ljúka afgreiðslu málsins með því að þeir sem fengu grenndarkynningu senda staðfesti með undirritun sinni yfirlýsingu á kynningargögnin að þeir geri ekki athugasemd við fyrirhuguð .

Á framkvæmdartíma

Á byggingartíma þarf húsbyggjandi sem verkkaupi að fylgja því eftir að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti og allt gangi eftir áætlun.

Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda og ber ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti. Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í samráði við eiganda og bera þeir ábyrgð hver á sínum verkþætti en byggingarstjóri hefur yfirumsjón með allri framkvæmdinni fyrir hönd eigandans. Byggingarstjóri skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu sem gildir í að minnsta kosti 5 ár.

Byggingarstjóri framkvæmir áfangaúttektir þegar iðnmeistarar hafa lokið ákveðnum verkþáttum og sendir þær inn til byggingarfulltrúa í gegnum sérstakt úttektarapp Múlaþings.

Þó eigandi ætli sér að vinna sjálfur við byggingarleyfisskyldar framkvæmdir þarf alltaf að fá byggingarstjóra og iðnmeistara og eru þeir ábyrgir fyrir öllum verkum.

Svört vinna eða nótulaus viðskipti er ólögleg og getur verið dýrkeypt þar sem að engar tryggingar eða ábyrgð er til staðar og getur verið erfitt að kvarta yfir göllum eða einhverju sem er áfátt við verklok.

Hafa þarf í huga að ef breytt er út frá samþykktum uppdráttum þarf að leiðrétta uppdrætti og sækja um breytingar á byggingarleyfinu.

Lög og reglugerðir sem varða byggingarleyfi

tengill á síðu Mannvirkjalög nr. 160/2010
tengill á síðu Byggingarreglugerð nr. 112/2012
tengill á síðu Reglugerð um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra.

Síðast uppfært 01. febrúar 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?