Fara í efni

Sorphirða og endurvinnsla

Sveitarfélögum er skylt að sækja fjóra flokka af sorpi heim að dyrum íbúðarhúsa og hafa tiltækan farveg fyrir úrgang svo sem með því að halda úti grenndar- og móttökustöðvum. 


Sorphirðudagatöl

Sorphirða á Egilsstöðum og Fellabæ
Sorphirða á Fljótsdalshéraði dreifbýli
Sorphirða á Djúpavogi og dreifbýli
Sorphirða á Seyðisfirði og dreifbýli


Opnunartímar móttökustöðva

Borgarfjörður eystri
Áhaldahúsið á Heiðinni
Virka daga frá klukkan 8:00 - 16:00.

Djúpivogur
Háaurar
Þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 13:30 - 16:30
Laugardaga frá klukkan 11:00 - 13:00

Egilsstaðir
Tjarnarás 11
Virka daga frá klukkan 13:00 - 17:00
Laugardaga frá klukkan 10:00 - 14:00.

Seyðisfjörður
Fjarðargötu
Þriðjudaga og fimmtudaga: 14:00 – 17:00
Laugardaga: 11:00 - 13:00.


Grenndarstöðvar

Grenndastöðvar eru fyrir gler, málma og textíl, stöðvarnar eru staðsettar á eftirfarandi stöðum:

Djúpivogur
Á planinu bak við Tryggvabúð, Markarland 2

Egilsstaðir
Tjarnarási 9 milli þjónustumiðstöðvar og móttökustöðvar, framan við hús Rauða krossins.

Seyðisfjörður
Framan við móttökustöð við Fjarðargötu.

Á öllum stöðum eru jafnframt gámar frá Rauða krossinum fyrir textíl.


Fjórir flokkar á hverju heimili

Á hverju heimili er fjórum úrgangsflokkum safnað matarleifum, pappír og pappa, plasti og blönduðum úrgangi. 
Frekari upplýsingar um flokkun heimilisúrgangs má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar

Flokkunarleiðbeiningar I Sorting instructions | Instrukcja sortowania 

 

Til að óska eftir nýjum sorpílátum, tilkynna um skemmd ílát eða gera athugasemdir vegna sorphirðu má senda póst á verkefnastjóra umhverfismála.


Móttökustöðvar

Á móttökustöðvar má koma með gjaldfrjálsan og gjaldskyldan úrgang en hann skal þegar vera flokkaður við komu.  Ef úrgangur kemur blandaður (óflokkaður) þarf að greiða fyrir allan úrganginn samkvæmt gjaldskrá. Það borgar sig að skoða vel hvaða flokkar eru gjaldfrjálsir og hverjir gjaldskyldir, sé sorpið rétt flokkað endist kortið lengur. 

Greitt er fyrir gjaldskyldan úrgang á staðnum og sér verktaki um innheimtu. Sölu klippikorta og notkun þeirra á móttökustöðvum verður hætt árið 2025. Klippikort sem voru gefin af Múlaþingi gilda aðeins fyrir það ár sem er skráð á kortið. Keyptum klippikortum má skila á skrifstofur Múlaþings og fá ónotuð klipp endurgreidd. Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs má nálgast hér.

Megnið af þeim úrgangi sem kemur inn á móttökustöðvar eru verðmæti, sem eru endurunnin eða endurnýtt, sem þarf ekki að greiða fyrir. Markmiðið er að láta sem minnst fara í urðun. Tökum höndum saman um að vernda umhverfið og standa saman að förgun á sem hagkvæmastan hátt. 

Upplýsingar um móttökustöðvar fyrir skilagjaldskyldar umbúðir má nálgast á heimasíðu Endurvinnslunnar.


Spurningar og svör

Svör við spurningum sem komið hafa fram varðandi innleiðingu á samræmdu flokkunarkerfi á landsvísu og útfærslu Múlaþings á því.

  • Hvert fer sorpið?

    Blandaður úrgangur í Múlaþingi er urðaður eins og staðan er í dag, það er því öllum í hag að flokka sem mest og lágmarka þannig blandaðan úrgang. Endurvinnsluefnið fer mestmegnis erlendis, þar sem fyrirtæki flokka það enn frekar og senda allt sem er mögulegt að endurvinna í endurvinnslu, afgangurinn fer til brennslu til orkuframleiðslu.

  • Verða breytingar á sorphirðugjöldum?

    Já, það koma til með að verða breytingar á sorphirðugjöldum. Ný lög kveða á um að sveitarfélögum er ekki lengur heimilt að borga með sorphirðu fyrir íbúa, en það hefur Múlaþing gert hingað til. Gjöldin koma ekki til með að breytast fyrr en á nýju ári.

  • Verður breyting á sorphirðutíðni?

    Til að byrja með verður núverandi sorphirðudagatal áfram í gildi. Það koma hinsvegar til með að verða breytingar á tíðninni eftir því sem reynsla kemur á sorphirðuna. Mun Múlaþing einnig nýta sér reynslu annarra sveitarfélaga við gerð nýs sorphirðudagatals. Þar sem kostnaður fyrir sorphirðu þarf nú að veltast allur yfir á íbúa, verður tíðninni haldið í skefjum eins og hægt er án þess að það valdi íbúum óþægindum, til að halda niðri kostnaði.

  • Hvað með tunnuskýlið mitt?

    Sama breyting er að eiga sér stað um allt land. Sveitarfélög munu ekki standa kostnað af því að breyta eða skipta út tunnuskýlum. Það þurfa íbúar að gera sjálfir sem ábyrgðaraðilar sinna fasteigna. Ýmsar lausnir eru í boði, svosem krókar sem má festa á skýli til að festa fjórðu tunnuna og fást víðsvegar.

  • Hvaða stærðir verða á tunnunum?

    Tunnur fyrir blandaðan úrgang, plast og pappír og pappa munu vera 240 lítra, það er sama stærð og “gráa” og “græna” tunnan er í dag. Lífræna tunnan mun halda sinni stærð, 120 lítra.

  • Hvers vegna verður ekki í boði að fá tvískipta tunnu?

    Ástæða þess að ákveðið hefur verið að bjóða ekki upp á tvískipta tunnu er í raun þríþætt.

    1. Þær eru mikið dýrari í rekstri, tæming á þeim tekur mikið lengri tíma. Hægt er að tæma þrjár venjulegar tunnur á sama tíma og ein tvískipt er tæmd. Það þýðir að gjöld fyrir slíkar tunnur verða mikið hærri, sem skilar sér í hærri sorphirðugjöldum.
    2. Það er erfitt að tæma þær, sérstaklega ef sorpið frýs í þeim. Hönnun tunnunnar er breytt með því að setja í hana skilrúm ásamt því að hólfin eru lítil og þröng. Það veldur því að oft næst ekki að tæma þessar tunnur fyllilega.
    3. Það er erfiðara að þrífa þessar tunnur en þessar venjulegu vegna skilrúmsins sem er sett í hana.
  • Get ég fengið ílát í tunnuna mína fyrir blandaða úrganginn fyrir lífrænan úrgang?

    Vinnueftirlitið hefur mælst gegn þessari leið og Múlaþing mun ekki bjóða upp á þann valkost. Ástæða þess er að vinnuaðstæður sorphirðufólks sem þarf að meðhöndla slík ílát eru óviðunandi. Þessi ílát geta orðið ótrúlega þung, og tæmdar eru margar tunnur á dag sem kallar á gríðarlegan burð. Einnig þýða ílátin að starfsmenn þurfa að handleika úrganginn og eru þannig berskjölduð fyrir ýmsum bakteríum og öðrum örverum.

  • Ég hendi engum lífrænum úrgangi, þarf ég að vera með tunnuna?

    Lögin eru skýr, sveitarfélaginu ber að sækja fjóra flokka upp að heimili og bjóða upp á þá þjónustu fyrir alla, þar á meðal er lífrænn úrgangur. Reynsla hefur einnig sýnt það, að þar sem ekki er boðið upp á tunnu fyrir lífrænan úrgang sýna sýni þá niðurstöðu að magn lífræns efnis er margfalt hærra en þar sem tunnan er í boði. Það á líka við þar sem íbúar eru með heima moltugerð eða annað sem er gert til að nýta hráefnið heima við.

  • Má ég fara með plastið mitt á móttökustöð og sleppa plasttunnunni?

    Lögin eru skýr, sveitarfélaginu ber að sækja fjóra flokka upp að heimili og bjóða upp á þá þjónustu fyrir alla, þar á meðal er plast. Gæði plasts sem safnast á móttökustöðum er lægra, það þýðir að greiðslur úr úrvinnslusjóði eru mikið lægri á hvert kíló en þau sem eru sótt heim að húsi. Hærri greiðslur úr úrvinnslusjóði skila sér síðan í hærri niðurgreiðslu á sorphirðugjöldum.

  • Hvernig verður grenndarstöðvum háttað?

    Grenndarstöðvar koma til með að vera þrjár í til að byrja með, ein á Egilsstöðum, ein á Seyðisfirði og ein á Djúpavogi. Gámar frá Rauða Krossi Íslands munu taka við textíl, líkt og hefur verið undanfarin ár og sinna því hlutverki grenndargáms fyrir textíl. Gámum fyrir annars vegar gler og hins vegar málma mun verða komið fyrir á sama svæði og textílgámarnir eru. Þörf á því að bæta við fleiri stöðvum verður metin eftir því sem reynsla hjá okkur og öðrum sveitarfélögum kemur í ljós.

  • Hvar get ég nálgast frekari leiðbeiningar um flokkun?

    Flokkunarleiðbeiningar er að finna hér á heimasíðu Múlaþings og á heimasíðu Kubbs. Frekari upplýsingar um flokkun heimilisúrgangs má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

  • Þarf ég að skipta út maíspokum fyrir pappírspoka í lífræna sorpinu?

    Eins og staðan er í dag er ekki þörf á að hætta að nota maíspoka í lífræna sorpið. Jarðgerðarferlið er öðruvísi í Reykjavík en í Eyjafirði þangað sem lífræna sorpið okkar fer. Krefst ferlið sem er notast við fyrir Múlaþing í dag ekki að skipt sé í pappírspoka.

  • Verð ég að setja plastið og pappírinn í poka í tunnurnar?

    Nei, það er betra að endurvinnsluefnið, plastið og pappírinn fari pokalaust í tunnurnar því það er betra fyrir flokkunarferlið sem efnið á eftir að fara í gegnum.

  • Má frauðplast fara í plast tunnuna?

    Nei, frauðplast þarf að fara með á móttökustöð.

  • Þarf ég að þvo upp sorpið mitt?

    Það þarf ekki að þrífa sorpið, það er nóg að skola vel og þerra nokkuð vel. Aðal málið er að umbúðirnar séu lausar við efna- og matarleifar. Gott er að hafa í huga að hreinna efni skilar sér í meiri gæðum sorpsins sem skilar sér í hærri greiðslum úr úrvinnslusjóði, sem skilar sér í sorphirðugjöldin. Einnig fer sorpið í enn frekari flokkun þar sem starfsfólk þarf að handleika það.

  • Hvenær á ég að byrja að aðskilja plastið og pappann?

    Byrjað verður að aðskilja plast og pappa þegar fjórða tunnan (plast tunnan) kemur á heimili, henni verður dreift samhliða tæmingu á núverandi endurvinnslutunnu. Báðar tunnur verða því tómar á sama tíma og allir byrja með hreint borð. Tunnum verður dreift 4. til 18. september.

  • Gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs í Múlaþingi

     Gjaldskráin birt í stjórnartíðindum

    1. gr. Samþykktir, lög og reglur

    Gjaldskrá þessi er sett með vísun til samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Múlaþingi nr. 1202/2021, sbr. 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.

    2. gr. Sorphirðugjald

    Múlaþing felur verktaka framkvæmd sérstakrar söfnunar úrgangs frá öllu íbúðarhúsnæði í sveitar­félaginu sem er flokkað í fjóra flokka í fjögur ílát: pappír og pappa, plast, matarleifar og blandaðan úrgang.

    Sorphirðugjöld taka mið af stærð íláta undir hvern úrgangsflokk og fjarlægð þeirra frá sorphirðubíl og geta því verið breytileg. Fasteignareigendur og húsfélög geta óskað eftir breytingum á ílátum skv. gjaldskrá. Um ákvarðanir húsfélaga gilda lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Ílát skulu rúma þann úrgang sem myndast.

    Íbúðir í fjölbýli greiða hlutfall af kostnaði sorpíláta miðað við eignarhlut í sameign, sbr. lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og reglugerð nr. 910/2000. Stærðir og fjöldi íláta mega ekki vera minni en sem nemur 140 lítrum fyrir pappír og pappa, plast og blandaðan úrgang pr. íbúð. Við hvert fjölbýli skal að lágmarki vera 140 lítra ílát undir matarleifar.

    Múlaþingi er heimilt að verða við óskum fasteignareigenda um sameiginleg ílát innan lóðar háð því að öll ílát séu geymd á sama stað.

    Söfnun úrgangs í Múlaþingi fer fram í samræmi við útgefið sorphirðudagatal sem er aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins.

    Virðisaukaskattur er innifalinn í öllum gjöldum gjaldskrár þessarar.

    Breytileg gjöld fyrir sorpílát sem eru allt að 15 m frá hirðubíl eftir úrgangstegund
    (kr. á ári)
    Stærð íláts (lítrar) Pappír og pappi Plast Matarleifar Blandaður úrgangur
    140     11.200 16.800
    240 9.600 9.600   28.800
    360 14.400 14.400   43.200
    660 26.400** 26.400*   79.200*
    1.100 44.000* 44.000*   132.000*

    * Aðeins í boði fyrir fjölbýli.
    ** Aðeins í boði fyrir fjölbýli og íbúðarhús í dreifbýli.

    Ekki er hægt að hafa ílát undir pappa og pappír annars vegar og plastumbúðir hins vegar sem eru stærri en 360 lítra undir báða úrgangsflokka. Aðeins er hægt að hafa stærri ílát en 360 lítra undir annan flokkinn nema annað sé tekið fram.

    Önnur gjöld sem er heimilt að innheimta vegna auka þjónustu:

    • Skrefa- og tröppugjald er innheimt af ílátum sem eru fjær hirðubíl en 15 metra eða þarf að draga upp eða niður fleiri en 5 tröppur.
    • Umsýslugjald er greitt í hvert skipti sem óskað er eftir breytingum á skráningu íláta og árlega af þeim sem hafa fengið umsókn um heimajarðgerð samþykkta.
    • Tunnugjald er innheimt ef ílát týnist eða skemmist af völdum íbúa, s.s. vegna vanhirðu.
    • Útkeyrslugjald er greitt við afhendingu nýrra íláta á staðfang og ef skipt er milli stærða.
    Önnur gjöld
    Þjónusta Gjald Eining
    Tunnugjald (140–360 l ílát) 12.000 kr./ílát
    Tunnugjald (660–1.100 l ílát) 50.000 kr./ílát
    Umsýslugjald 4.000 kr./breyting
    Skrefa- og tröppugjald 5.000 kr./ílát
    Útkeyrslugjald íláta á staðfang 8.000 kr./ílát

    3. gr. Fast gjald

    Fast gjald er lagt á allar fasteignir sveitarfélagsins árlega til að standa straum af veittri þjónustu tengdri málaflokknum og er ekki beintengt úrgangsmagni, s.s. umsýslu, fræðslu, hreinsun rusls á víðavangi, rekstri grenndarstöðva og aðgengi að söfnunarstöðvum með gjaldfrjálsan úrgang.

    Álagningin er á fasteignir í a-, b- og c-lið samkvæmt 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

    Fast gjald á fasteignir í a-flokki er 15.000 kr.

    Fast gjald á fasteignir í b- og c-flokki er 40.000 kr.

    4. gr. Frístundahús og takmörkuð ívera

    Fyrir öll frístundahús (sumarbústaðir o.þ.h.) skal greiða fast gjald skv. 3. gr. Frístundahús utan sumar­húsa­hverfa með fleiri en 20 sumar- eða frístundahús njóta almennt ekki sorphirðuþjónustu en geta losað sig við gjaldfrjálsan úrgang á móttöku- og grenndarstöðvum. Greiða þarf fyrir gjaldskyldan úrgang.

    Liggi sumarhús hins vegar við söfnunarleið sorphirðuverktaka getur húsráðandi óskað eftir sömu þjónustu og ef um íbúðarhús væri að ræða og greiðir þá fullt gjald fyrir.

    Það sama á við um íbúðarhús með takmarkaða íveru s.s. vegna skriðu- eða snjóflóðahættu. Þá geta eigendur íbúðarhúsa í dreifbýli þar sem enginn er með skráð lögheimili óskað eftir sömu þjónustu og ef um íbúðarhús með takmarkaða íveru sé að ræða.

    Á hvert frístundahús sem er innan sumarhúsahverfis með yfir 20 sumarhúsum er að auki lagt á 20.000 kr. sorphirðugjald enda geti eigendur slíkra húsa losað sig við úrgang í ílát í nágrenni við sumarhúsahverfið.

    5. gr. Heimajarðgerð

    Íbúar sem jarðgera eigin úrgang við heimili sín geta sótt um að skila tunnu undir matarleifar til sveitarfélagsins. Í stað tunnugjalds fyrir matarleifar greiðir fasteignareigandi árlegt umsýslugjald skv. 2. gr.

    Nauðsynlegt er að sýna fram á með óyggjandi hætti að heimajarðgerð fari raunverulega fram. Takist það ekki eftir að umsókn um heimajarðgerð hefur verið samþykkt skal fasteignareigandi greiða fullt gjald fyrir tunnu undir matarleifar fyrir viðkomandi ár auk umsýslugjalds.

    6. gr. Þjónustugjald á urðunarstað

    Fyrir farma sem komið er með á urðunarstað sveitarfélagsins skal flutningsaðili greiða 60 kr./kg samkvæmt vigt á söfnunarstöð sveitarfélagsins á Egilsstöðum. Farmar skulu almennt vega meira en 1.000 kg.

    Aðeins þeir sem hafa heimild sveitarfélagsins og eru með starfsleyfi til að flytja úrgang er heimilt að koma með úrgang á urðunarstað. Ekki er heimilt að flytja úrgang sem á uppruna sinn utan sveitarfélagsins á urðunarstað án leyfis Múlaþings. Múlaþing getur lagt 50% hærra gjald á slíkan úrgang en segir í 1. mgr.

    Öll losun skal fara fram í samráði við rekstraraðila urðunarstaðar.

    Flutningsaðili ber ábyrgð á þeim farmi sem hann flytur inn á urðunarstaðinn þar til hann hefur verið móttekinn. Förmum sem innihalda annan úrgang en þann sem heimilt er að losa á urðunarstað skv. reglugerð nr. 738/2003, eða úrgang sem væri hæfur til endurvinnslu, verður hafnað. Komi í ljós að farmur innihaldi slíkan úrgang eftir að losun fer fram er heimilt að innheimta raunkostnað vegna hreinsunaraðgerða af flutningsaðila. Auk þess getur sveitarfélagið dregið til baka heimild til farm­losunar á urðunarstað.

    7. gr. Þjónustugjald á söfnunarstöðvum á Egilsstöðum og Seyðisfirði

    Rekstraraðili annast innheimtu gjalda á söfnunarstöðvum á Egilsstöðum og Seyðisfirði og setur sér gjaldskrá vegna þessa. Gjöld rekstraraðila söfnunarstöðvar fyrir gjaldskyldan úrgang mega að hámarki vera 20% hærri en þjónustugjald á urðunarstað skv. 4. gr. Aðeins er tekið við rafrænum greiðslum eða að aðilar séu í reikningsviðskiptum.

    Gjaldskyldur úrgangur er almennt óendurvinnanlegur úrgangur til urðunar. Dæmi um gjald­skyldan úrgang eru: blandaður heimilisúrgangur, grófur úrgangur s.s. húsgögn, gluggar og stærri úrgangur, timbur og hart plast. Matarleifar eru einnig gjaldskyldar en fara þó ekki í urðun.

    Ekki er tekið gjald fyrir endurvinnanlegan úrgang sem ber úrvinnslugjald. Dæmi um gjald­frjálsan úrgang eru: plastumbúðir, pappi og pappír, málmar, hjólbarðar, raftæki og ýmis spilliefni.

    8. gr. Þjónustugjald á söfnunarstöð á Djúpavogi

    Á söfnunarstöð Múlaþings á Djúpavogi er almennt innheimt gjald skv. rúmmáli úrgangs. Móttökugjöld fyrir einstaka farma eru 1.000 kr. fyrir hverja 0,25 m³ af gjaldskyldum úrgangi. Starfs­maður metur umfang hvers farms og innheimtir gjald fyrir. Aðeins er tekið við rafrænum greiðslum eða að fyrirtæki eru í reikningsviðskiptum.

    Gjaldskyldur úrgangur er almennt óendurvinnanlegur úrgangur til urðunar. Dæmi um gjald­skyldan úrgang eru: blandaður heimilisúrgangur, grófur úrgangur s.s. húsgögn, gluggar og stærri úrgangur, timbur og hart plast. Matarleifar eru einnig gjaldskyldar en fara þó ekki í urðun.

    Ekki er tekið gjald fyrir endurvinnanlegan úrgang sem ber úrvinnslugjald. Dæmi um gjald­frjálsan úrgang eru: plastumbúðir, pappi og pappír, málmar, hjólbarðar, raftæki og ýmis spilliefni.

    Fyrir úrgang sem er kostnaðarsamur við förgun, s.s. ber ekki úrvinnslugjald og er óheimilt að urða, er heimilt að innheimta gjöld fyrir útlögðum kostnaði.

    Stærri úrgangsfarma er þó heimilt að vigta á hafnarvog sveitarfélagsins á Djúpavogi á opnunartíma hennar og greiðir flutningsaðili 72 kr./kg. Önnur gjöld kunna að eiga við skv. gjaldskrá fyrir hafnir Múlaþings. Framvísa þarf vigtarnótu á söfnunarstöð sé farmur vigtaður.

    Fyrir óflokkaða farma er heimilt að innheimta gjald fyrir útselda vinnu starfsmanna þjónustu­miðstöðva og tækja Múlaþings skv. gjaldskrá þar um.

    9. gr. Klippikort

    Múlaþing afhendir hvorki né selur klippikort á söfnunarstöðvar sveitarfélagsins. Á söfnunar­stöðvum er greitt gjald fyrir móttöku á gjaldskyldum úrgangi skv. 6. og 7. gr.

    Klippikort sem Múlaþing hefur áður afhent gilda aðeins fyrir útgáfuárið.

    Klippikort sem Múlaþing hefur selt er hægt að skila inn til sveitarfélagsins og fá endurgreitt í hlutfalli við notkun. Á söfnunarstöð á Djúpavogi má þó áfram nota seld kort.

    10. gr. Aðrar heimildir

    Sveitarstjórn Múlaþings er heimilt að gera sérstaka samninga um móttöku úrgangs og aðra þjónustuþætti, þegar um er að ræða afmarkaðri eða víðtækari þjónustu en gjaldskrá tekur til.

    11. gr. Innheimta

    Verði vanskil á greiðslu gjalda samkvæmt gjaldskrá þessari er hægt að innheimta gjöld með fjárnámi hjá úrgangshafa án undangengins dóms, sbr. lokamálslið 4. mgr. 23. gr. laga um með­höndlun úrgangs, nr. 55/2003, sbr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Gjöld eru tryggð með lögveðs­rétti í viðkomandi fasteign í tvö ár eftir gjalddaga, sbr. lokamálsgrein 59. gr. laga um holl­ustu­hætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

    12. gr. Staðfestingar og gildistaka

    Gjaldskrá þessi er samþykkt af umhverfis- og framkvæmdaráði og staðfest af sveitarstjórn Múla­þings 13. nóvember 2024. Gjaldskrá þessi tekur gildi 1. janúar 2025. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs í Múlaþingi nr. 1647/2023.

     Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 13. nóvember 2024

Síðast uppfært 14. janúar 2025
Getum við bætt efni þessarar síðu?