Fara í efni

Barnavernd

Viltu tilkynna um aðstæður barns?
Hringdu þá í barnaverndarnefnd 4-700-700 eða númerið 112

Nafnleynd

Í barnaverndarlögum er fjallað um nafnleynd tilkynnanda. Hinn almenni tilkynnandi, ættingjar eða aðrir nákomnir, geta óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd, en opinberir aðilar svo sem starfsfólk skóla, leikskóla, spítala, heilsugæslu, starfsfólk annarra félagsmálastofnana eða barnaverndarnefnda getur ekki tilkynnt undir nafnleynd.

Hlutverk og markmið

Hlutverk barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, eða ef óttast er að barn stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni, fái nauðsynlega aðstoð. Mál er skilgreint sem barnaverndarmál þegar starfsmenn félagsmála- og barnaverndarnefndar hafa tekið formlega ákvörðun um að hefja könnun á aðstæðum viðkomandi barns. Þá eru málefni barnsins unnin á grundvelli

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Lögð er áhersla á að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Foreldrar geta einnig leitað eftir stuðningi vegna barns eða vegna fjölskylduaðstæðna hjá Félagsþjónustu Múlaþings, þá er veittur stuðningur og ráðgjöf á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Íhlutun

Náist ekki samstarf við foreldra en barnaverndarnefnd telur að barninu sé hætta búin er hægt að beita þvingunarúrræðum meðal annars samkvæmt 26., 27. og 31. grein barnaverndarlaga. Slík úrræði heyra til undantekninga.

Könnun máls

Eftir að starfsfólki barnaverndar hefur borist tilkynning er varðar barn hefur hún sjö daga til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að hefja könnun máls samkvæmt 21. grein barnaverndarlaga. Foreldrar eru ávallt upplýstir um að tilkynning hafi borist og hvaða ákvörðun var tekin í framhaldinu.

Sé talin ástæða til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði eða stefni heilsu sinni eða þroska í hættu er tekin ákvörðun um að hefja könnun á aðstæðum barnsins. Könnunin skal að jafnaði ekki taka lengri tíma en þrjá mánuði. Leitast skal við að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi og aðstæður barnsins en þess þó gætt að könnunin sé ekki umfangsmeiri en þörf krefur. Könnun er að öllu jöfnu unnin í samráði við foreldra barns.

Starfsfólk félagsmála- og barnaverndarnefndar tekur afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari aðgerða til stuðnings fjölskyldunni eða hvort afskiptum ljúki að könnun lokinni.

Stuðningsúrræði

Leiði könnun á aðstæðum barnsins í ljós að fjölskyldan þarfnist stuðnings á grundvelli barnaverndarlaga er gerð áætlun um meðferð máls. Lögð er áhersla á samvinnu við foreldra og þeim veitt aðstoð á grundvelli 24. og 25. greina barnaverndarlaga. 

Tilkynningarskylda

Samkvæmt 16. grein barnaverndarlaga ber almenningi skylda til að gera starfsfólki barnaverndar viðvart gruni hann að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu. Samkvæmt 19. grein sömu laga getur einstaklingur sem tilkynnir óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd.

Samkvæmt 17. grein barnaverndarlaga ber öllum þeim sem hafa afskipti af börnum starfa sinna vegna að gera starfsfólki barnaverndar viðvart verði þeir varir við það í starfi sínu að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu. Tekið er fram að tilkynningarskylda gengur framar ákvæðum laga og siðareglna um þagnarskyldu starfsstétta. Þá geta þeir sem tilkynna á grundvelli þessarar greinar ekki óskað eftir nafnleynd.

Í 18. grein barnaverndarlaga er fjallað um tilkynningarskyldu lögreglu en lögreglan sendir barnaverndarnefnd afrit af lögregluskýrslum hafi hún haft afskipti af börnum undir 18 ára aldri. Þá ber barnaverndarstarfsfólki skylda til að vera viðstatt skýrslutökur af börnum hafi foreldrar ekki tök á því.

Starfsfólk Félagsþjónustu Múlaþings tekur á móti tilkynningum er varðar þjónustusvæði félagsþjónustunnar í síma 4 700 700 milli klukkan 8:15 og 16 alla virka daga. Utan dagvinnutíma er hægt að hafa samband við neyðarlínuna 112 telji einstaklingur að tilkynningin krefjist tafarlausra aðgerða. 

tengill á heimasíðu Samþykktir og reglur sem félagsþjónustan starfar samkvæmt má finna hér.

Síðast uppfært 24. október 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?