Fara í efni

Algeng viðbrögð við missi

Náttúruhamfarir eins og áttu sér stað á Austulandi nýverið hafa margs konar afleiðingar. Í kjölfar atburða af þessari stærðargráðu er oft um að ræða ýmis konar missi sem fólk verður fyrir. Þegar talað er um missi tengir fólk oft slíkt við að missa ástvin, sem er sársaukafullt og tilfinningarþrungið sorgarferli. Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst feginleiki og þakklæti sem fólk finnur fyrir þegar ljóst er að enginn slasaðist eða lést í þeim náttúruhamförum sem dundu yfir. Það er samt svo að missir getur verið ýmislegt annað en að missa einhvern nákominn og kemur í mörgum myndum. Fólk fer í gegnum margt á lífsleiðinni og upplifir margs konar missi svo sem missi á atvinnu, hjónabandi og heilsustap en einnig eins um er ræðir í sumum tilvikum í kjölfar aurskriðana er um að ræða missi á húsnæði og perónulegum eigum en einnig menningarverðmætum og ásýnd bæjarins. Það hriktir líka í stoðum varðandi þann stöðugleika sem fólk vill búa við og öryggi. Slíkur skyndilegur missir kallar oft fram sorgarviðbrögð og hafa ber í huga að slíkt ferli er einstaklingsbundið burt sé frá því hvernig missi viðkomandi varð fyrir. Þar spila margir þættir inn og því er ekki hægt að bera mismunandi missi saman. Sorg sem fólk upplifir í kjölfar missis hefur oft í för með sér ógrynni tilfinninga sem geta verið ruglingslegar og óþægilegar en algengar og eðlilegar í kjölfar áfalla eins og þessa. Nokkur þessara viðbragða geta verið tilfinning um einmanaleika, þreytu, einbeitingarörðugleikar, reiði, ótta eða pirring en einnig sektarkennd t.d. yfir að hafa sloppið betur er nágranninn eða tilfinning um að hafa ekki rétt á þessum tilfinningum því enginn lést eða aðrir hafa það verr.

Þegar þú hefur orðið fyrir missi og þú finnur fyrir einhverju af ofangreindu er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þetta eru eðlileg viðbrögð við sorg og það tekur tíma að fara í gegnum þær tilfinningar. Hvert okkar er einstakt og upplifunin þar af leiðandi einstaklingsbundin. Það er mikilvægt að vera þolinmóður og umburðalyndur við sjálfan sig og aðra á þessum tíma, sumir dagar verða óhjákvæmilega betri en aðrir.

Stundum hefur upplifun fólks á missi verið skipt í fjögur stig. Ágætt getur verið að hafa slíkt til viðmiðunar þó að þetta eigi ekki við alla og hver fer í gegnum ferlið á sinn hátt. Á fyrsta stigi er fólk að átta sig á og viðurkenna það sem hefur gerst og öðru stigi er verið að takast á við þær tilfinningar sem því fylgir svo sem angist, reiði, vonbrigði og sorg. Á þriðja stigi er farið í að takast á við hagnýt verkefni og skipulag, hugað að fjármálum og fólk leitar aðstoðar og upplýsinga eftir þörfum. Á fjórða stigi er horft til framtíðar og fólk reynir að átta sig á og fóta sig í að lifa lífinu við breyttar aðstæður.

Samfélagið í heild sinni er að takast á breytingar í kjölfar aurskriðanna. Mikið uppbyggingarstarf er framundan, samtakamáttur og sköpunarkraftur mun eflaust fleyta þeim verkefnum langt. Endurreisn tekur sinn tíma og allir íbúar hafa þar hlutverk, meðal annars með því að vera til staðar fyrir hvort annað, láta skoðanir sínar og hugmyndir í ljós og taka þátt í því starfi sem framundan er.

Til að takast á við krefjandi tíma eru það bjargráðin okkar sem við eigum stundum erfitt með að sinna en hafa sýnt sig að eru hjálpleg – góð og regluleg næring, svefn, hvíld og slökun, hreyfing og deila hugsunum og tilfinningum með þeim sem maður treystir. Einnig er gott að vita af þeim stuðningsúrræðum sem eru til staðar vilji maður leita sér frekari aðstoðar. Upplýsingar um þau má fá hjá Þjónustumiðstöðinni.

 

Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur Rauða krossins, teymisstjóri heilbrigðisverkefna, elfal@redcross.is

Síðast uppfært 21. janúar 2021
Getum við bætt efni þessarar síðu?