pdf-útgáfa af stefnunni
Inngangur
Með fjölskyldustefnu Múlaþings er mótuð sameiginleg sýn á hvernig sveitarfélagið styður einstaklinga og fjölskyldur og skapar skilyrði fyrir farsæld, öryggi og lífsgæði allra íbúa.
Stefnan gildir til ársins 2035 og byggir á kjarnagildum fjölskyldusviðs sem eru gæska, farsæld, virðing og samvinna. Hún skilgreinir framtíðarsýn, gildi, stefnuáherslur og meginmarkmið og er útfærð með mælanlegum markmiðum í árlegri aðgerðaáætlun. Með samþættingu lykilmálaflokka á borð við menntun, velferð, lýðheilsu, frístundir og íþróttir stuðlar stefnan að farsæld einstaklinga, fjölskyldna og samfélagsins í heild. Hún tryggir jafnframt markvissa forgangsröðun aðgerða og fjármuna í samræmi við raunverulegar þarfir með því að tengja málefni fjölskyldunnar við fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins.
Með heildstæðri fjölskyldustefnu stígur Múlaþing mikilvægt skref í átt að samþættri þjónustu og styrkingu samstarfs breiðs hóps hagaðila. Stefnan miðar að því að skapa sem best skilyrði til vaxtar, þroska og lífsgæða allra íbúa óháð aldri, kyni, kynvitund, kynhneigð, uppruna, þjóðerni, trúar- eða lífsskoðunum, fötlun, heilsufari eða öðrum persónulegum aðstæðum.
Í stefnunni er hugtakið fjölskylda skilgreint sem hópur einstaklinga sem deila sameiginlegu heimili, ábyrgð, efnahag, verkefnum og tilfinningalegum tengslum. Hugtakið nær til fjölbreyttra fjölskylduforma. Í stefnunni er það einnig notað í víðara samhengi og nær þá til allra íbúa, óháð fjölskyldutengslum, með það að markmiði að tryggja öryggi, stuðning og farsæld heildarinnar.
Fjölskyldustefnan byggir á opinberri stefnumótun og gildandi lögum um málefni fjölskyldunnar og reglum og verklagsramma Múlaþings. Hér eru í forgrunni lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2022, lög um leikskóla nr. 90/2008 og lög um grunnskóla nr. 91/2008, auk Menntastefnu til 2030 og Aðalnámskrár leik- og grunnskóla. Stefnan tekur einnig mið af lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, barnaverndarlögum nr. 80/2002, lögum um æskulýðsmál nr. 70/2007, lögum um íþróttir nr. 64/1998, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999.
Múlaþing stefnir á að verða barnvænt sveitarfélag og hefur skuldbundið sig til að tryggja réttindi barna og hlusta á sjónarmið þeirra í allri stefnumótun og þjónustu. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lykilstoð stefnunnar, með áherslu á vernd, þátttöku og jöfn tækifæri barna. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru jafnframt samofin stefnunni, með sérstakri áherslu á sjálfbæra þróun, félagslega velferð, menntun og aukin lífgæði fyrir alla íbúa.
Mótun stefnunnar byggði á víðtæku samráði íbúa, fulltrúa félagasamtaka, kjörinna fulltrúa og starfsfólks fjölskyldusviðs á tímabilinu janúar 2023 til loka árs 2025. Haldnir voru hugarflugsfundir með hagaðilum auk íbúa- og skólaþinga í öllum byggðakjörnum haustið 2023. Hagaðilar fengu jafnframt drög að stefnu til yfirlestrar og ábendinga. Stefnan verður gerð aðgengileg á fleiri tungumálum í samræmi við málstefnu Múlaþings.
Framtíðarsýn
Í Múlaþingi, þar sem íbúar búa í ólíkum byggðakjörnum, er lögð áhersla á jafnt aðgengi og þjónustu óháð búsetu og farsæld fjölskyldna og lífsgæði allra íbúa eru í forgrunni. Starf sveitarfélagsins er leitt áfram af gildunum gæsku, farsæld, virðingu og samvinnu.
Í Múlaþingi er lögð áhersla á að skapa núverandi og komandi kynslóðum íbúa aðstæður til að lifa innihaldsríku og hamingjusömu lífi.
Í Múlaþingi er inngilding og aðgengi allra íbúa að samfélaginu höfð að leiðarljósi.
Í Múlaþingi er borin virðing fyrir hverjum íbúa, tilfinningum, hæfileikum og framlagi þeirra til samfélagsins.
Í Múlaþingi eru einstakar náttúruperlur aðgengilegar íbúum til hreyfingar, hugleiðslu og vellíðunar.
Í Múlaþingi njóta börn og ungmenni fjölbreyttra leiða til náms, frístunda- og íþróttastarfs og upplifa vellíðan og gleði í umhverfi sem styður þroska og styrkleika þeirra.
Í Múlaþingi eru framúrskarandi tækifæri til menntunar og starfsþróunar.
Í Múlaþingi eru tækifæri til að njóta menningar, stunda atvinnu, og sækja þjónustu án hindrana.
Leiðarljós
Leiðarljós fjölskyldustefnu Múlaþings eru kjarninn í allri stefnumótun, ákvarðanatöku og þjónustu sveitarfélagsins í málefnum fjölskyldunnar. Þau voru mótuð í samráði við íbúa, starfsfólk og kjörna fulltrúa á hugarflugsfundum og í stefnumótunarvinnu fjölskyldusviðs.
Gæska er undirstaða heilbrigðs samfélags og farsældar einstaklinga og fjölskyldna. Gæska felur í sér náungakærleik, auðmýkt, góðmennsku og hlýju. Hún birtist bæði í orðum og gjörðum og hefur jákvæð áhrif á samskipti og samfélagið. Þar sem fólk ber umhyggju og virðingu hvert fyrir öðru og stuðlar að velferð heildarinnar stendur lýðræðið á sterkari grunni. Með gæsku eflist öryggi og traust, sem eru hornsteinar sterkra fjölskyldna og samfélaga.
Farsæld er forsenda þroska einstaklinga, velferðar fjölskyldna og heilbrigðs daglegs lífs. Hún felur í sér jafnvægi í líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu ásamt raunverulegum tækifærum til að læra, skapa, tengjast öðrum og taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Þegar jákvæð athygli, hlustun og hvatning eru í fyrirrúmi styrkist sjálfstraust, seigla og tengsl milli kynslóða. Með því að setja farsæld íbúa í forgrunn erum við að hlúa að lífsgæðum, öryggi og trú á eigin getu yfir lífsævina.
Virðing mótar samskipti milli einstaklinga, innan fjölskyldna og samfélagsins og byggist á umhyggju, samkennd og jafnrétti. Hún skapar rými fyrir heilbrigð samskipti, stuðlar að öryggi, trausti og styrkir tengsl milli kynslóða. Með virðingu fyrir fjölbreytileika, ólíkum lífsháttum, skoðunum og menningu eflist samstaða, samhugur og tilfinning fyrir því að tilheyra. Þegar virðing endurspeglast í orðræðu, starfsháttum og þjónustu verður samfélagið að umhverfi þar sem öll fá að njóta sín, vaxa og taka þátt á eigin forsendum.
Samvinna styrkir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið með því að skapa umhverfi þar sem öll tilheyra og fá tækifæri til þátttöku. Hún byggir á virku samtali, samráði, trausti og samábyrgð sem eflir tengsl og stuðning milli kynslóða. Samvinna setur fjölskyldur og samfélag í betri stöðu til að þróast með þjónustu og stuðningi sem byggist á raunverulegum þörfum og sameiginlegri sýn.
Stefnuáherslur
Áherslur fjölskyldustefnunnar byggja á leiðarljósunum gæsku, farsæld, virðingu og samvinnu. Undir hverri áherslu eru meginmarkmið sem endurspegla leiðarljósin og sýna hvernig þau birtast í samfélaginu. Meginmarkmiðin mynda grunn að mælanlegum markmiðum og aðgerðum sem tryggja framfylgd stefnunnar með skýrum hætti.
Gæska
Gæska er hornsteinn farsæls samfélags þar sem öll skipta máli, tilheyra, upplifa öryggi og finna frelsi til að skapa. Hún birtist í umhyggju, samkennd og ábyrgð gagnvart öðrum og styrkir velferð og samheldni í samfélaginu.
Samfélag byggt á gæsku tryggir að:
- Öll séu velkomin og beri umhyggju fyrir velferð annarra.
- Öll upplifi að þau tilheyri og njóti virkrar þátttöku.
- Frumkvæði og sköpun séu metin að verðleikum.
- Öryggi og traust sé haft að leiðarljósi í öllu starfi.
Markmið til að auka gæsku:
1.1 Móta heilbrigt og inngildandi samfélag þar sem öll skipta máli.
1.2 Byggja upp samfellt og einstaklingsmiðað námsumhverfi.
1.3 Tryggja öruggan aðbúnað og fjölbreytt húsnæðisframboð.
Meginmarkmið 1.1 Móta heilbrigt og inngildandi samfélag þar sem öll skipta máli
Fólkið er það dýrmætasta í samfélaginu. Öll eiga rétt á jöfnum tækifærum til vaxtar og þroska, óháð aldri, kyni, kynhneigð, kynvitund, uppruna, þjóðerni, trúar- eða lífsskoðunum, fötlun eða heilsufari. Í heilbrigðu samfélagi upplifa öll að þau skipti máli og njóti umhyggju og virðingar. Móttaka og stuðningur við nýja íbúa endurspeglar gildi og menningu samfélagsins og skiptir máli fyrir aðlögun, tengslamyndun og jöfn tækifæri til áhrifa og þátttöku. Inngildandi samfélag byggir á sterkum félagslegum tengslum, trausti og öryggi í daglegu lífi. Því er lögð áhersla á að allir íbúar, bæði börn og fullorðnir, séu læsir á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, sem stuðlar að betri samskiptum, aukinni þátttöku og félagslegri samheldni.
Meginmarkmið 1.2 Stuðla að menntun allra
Sérhvert barn á rétt á menntun sem mætir þörfum þess og aðstæðum. Samfella í starfi leik- og grunnskóla, tónlistarskóla og frístunda- og íþróttastarfs tryggir heildrænt nám sem styður við þroska, vellíðan og tengslamyndun. Leikskólanám í gegnum leik leggur grunn að félagsfærni og sjálfstrausti, sem grunnskólar og frístundir styðja áfram með samþættri nálgun. Samstarf allra sem sinna námi og frístundum barna og ungmenna er lykilþáttur í að skapa námsumhverfi sem eflir trú þeirra á eigin getu, ábyrgð, frumkvæði og sköpun. Kennsluhættir, námsmat og aðstaða eru í stöðugri þróun til að tryggja gæði náms. Starfsfólk og stjórnendur fá jafnframt markvissa fræðslu og stuðning til að nýta umbótatækifæri.
Meginmarkmið 1.3 Tryggja öruggan aðbúnað og fjölbreytt húsnæðisframboð
Gott heimili er forsenda velferðar og lífsgæða. Mikilvægt er að íbúar sveitarfélagsins, óháð aldri og aðstæðum, hafi aðgang að öruggu og hentugu húsnæði sem styður við þarfir þeirra og lífsstíl. Ungt fólk á að sjá raunhæfa möguleika á að koma sér upp heimili og sveitarfélagið á að vera eftirsóknarverður staður til að stofna fjölskyldu. Eldri íbúar eiga jafnframt að geta búið í heimabyggð í búsetuúrræðum sem styðja við öryggi og sjálfstæði með viðeigandi þjónustu. Umhverfi og aðbúnaður þurfa einnig að styðja við menntun, leik og velferð barna frá unga aldri og uppfylla kröfur um sjálfbærni. Í samstarfi við viðeigandi aðila verður unnið að skipulagi og húsnæðisuppbyggingu sem tekur mið af þörfum fjölskyldna og samfélagsins hverju sinni.
Farsæld
Farsæld felst í stuðningi við fjölskyldur til að dafna, hlúa að heilsu, efla þekkingu og taka virkan þátt í samfélaginu. Þegar líkamleg, andleg og félagsleg heilsa er í fyrirrúmi skapast jafnvægi, öryggi og samheldni sem styrkir bæði einstaklinga og samfélagið í heild.
Samfélag byggt á farsæld tryggir að:
- Heildstæðar forvarnir séu í fyrirrúmi.
- Öll hafi tækifæri til að hlúa að andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu.
- Börn fái hvatningu og stuðning til að þroska hæfileika sína.
- Öll geti tekið virkan þátt í samfélaginu.
Markmið til að efla farsæld:
2.1 Efla forvarnir og setja heilsu og farsæld í forgang.
2.2 Stuðla að lýðheilsu og jöfnu aðgengi að frístunda- og íþróttastarfi.
2.3 Styrkja og samþætta inngildandi farsældar- og skólaþjónustu.
2.4 Efla læsi, ábyrgð og lýðræðislega þátttöku.
Meginmarkmið 2.1 Efla forvarnir og setja heilsu og farsæld í forgang
Andleg, félagsleg og líkamleg heilsa er forsenda lífsgæða og lykill að farsæld. Lögð er áhersla á gott aðgengi að heilsueflandi aðstöðu fyrir fjölbreytt frístunda- og íþróttastarf íbúa á öllum æviskeiðum. Forvarnir og snemmtækur stuðningur stuðla að betri heilsu, byggja upp seiglu og draga úr áhættuhegðun. Öll, óháð aldri, hafa aðgang að fræðslu um heilbrigða lífshætti og öflugar varnir gegn einelti, ofbeldi og mismunun af öllu tagi eru tryggðar. Íbúar taka virkan þátt í forvarnarstarfi sem eflir samstöðu og vellíðan í samfélaginu. Jafnframt verður unnið að betri samþættingu fjölskyldulífs og atvinnu með samfelldri þjónustu og auknum möguleikum til vistvæns ferðamáta.
Meginmarkmið 2.2 Stuðla að lýðheilsu og jöfnu aðgengi að frístunda- og íþróttastarfi
Þátttaka í frístunda- og íþróttastarfi eflir félagsfærni og sjálfsaga, styrkir sjálfstraust og stuðlar að líkamlegri og félagslegri vellíðan. Hún eykur ábyrgð og samvinnu og er lykilþáttur í forvörnum. Öll skulu hafa jafnan aðgang að frístunda- og íþróttastarfi, óháð aldri, fötlun, getu, efnahag eða búsetu. Góð aðstaða til frístunda og íþrótta styður fjölbreytt og skapandi starf og nýtist bæði til almennrar hreyfingar og afreksíþrótta. Samræmt framboð milli byggðakjarna tryggir jöfn tækifæri, þar á meðal í tengslum við ferðalög vegna frístunda- og íþróttastarfs. Lögð er áhersla á öryggi og vellíðan þátttakenda með forvörnum gegn mismunun, einelti og ofbeldi. Jafnframt er hlúð að mannauði með markvissri starfsþróun og notkun tækni til að samnýta krafta á milli byggðakjarna.
Meginmarkmið 2.3 Styrkja og samþætta farsældar- og skólaþjónustu
Inngildandi menntun tryggir öllum börnum og ungmennum jöfn tækifæri til náms, þroska og vellíðunar, óháð getu, uppruna eða aðstæðum. Samþætt kennsla, starfshættir og stuðningsúrræði, þar á meðal þrepaskiptur og snemmtækur stuðningur, skapa sveigjanlegt, öruggt og inngildandi námsumhverfi sem styður námslega, félagslega og persónulega þróun barna og ungmenna. Samhæft þjónustukerfi, byggt á þverfaglegri teymisvinnu og reglubundnu mati, bætir árangur og tryggir fjölskyldum gott aðgengi að samþættri þjónustu. Nýting stafrænnar tækni auðveldar aðgengi að fagfólki og fjölbreyttari þjónustu.
Meginmarkmið 2.4 Efla læsi, stafræna borgaravitund og lýðræðislega þátttöku
Læsi er grunnfærni sem skapar forsendur fyrir þroska, þátttöku og velferð. Lögð er áhersla á að börn og ungmenni geti lesið, skilið, túlkað og unnið á gagnrýninn hátt með ritað mál, tölur, myndir og tákn og skapað þannig merkingu sem nýtist þeim til gagns og ánægju í leik og námi. Skólasamfélagið tryggir að börn og ungmenni hafi aðgang að upplýsingum, fræðslu og leiðsögn um réttindi sín, skyldur og möguleika til áhrifa þannig að þau geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu. Íbúar fá raunveruleg tækifæri til að tjá sig, taka þátt í ákvörðunum og hafa áhrif á nærumhverfi sitt, bæði í daglegu lífi og á stafrænum vettvangi, með það að markmiði að efla borgaravitund, gagnrýna hugsun og lýðræðislega þátttöku.
Virðing
Virðing mótar samskipti, starfshætti og þjónustu í samfélagi sem byggir á jafnræði, umburðarlyndi og lausnamiðaðri nálgun. Hún endurspeglast í því hvernig einstaklingar og fjölskyldur njóta stuðnings, hvernig sjálfbærni og umhverfisvernd eru höfð að leiðarljósi og íbúum er tryggt öryggi og sjálfstæði.
Virðing felur í sér að samfélagið:
- Byggi á jafnræði og lausnamiðaðri þjónustu við fjölskyldur.
- Taki ábyrgð á sjálfbærri þróun og verndun umhverfisins.
- Tryggi öllum íbúum öryggi og sjálfstæði.
- Veiti jöfn tækifæri til atvinnu og þátttöku í samfélaginu.
Markmið til að auka virðingu:
3.1 Vernda nærumhverfi og tryggja jafnvægi í vistkerfi.
3.2 Styðja sjálfstæði og samfélagsvirkni eldri íbúa.
3.3 Innleiða lausnamiðaða nálgun í alla þjónustu.
3.4 Móta öruggt umhverfi sem styður við nám.
Meginmarkmið 3.1 Vernda nærumhverfi og tryggja jafnvægi í vistkerfi
Náttúran er órjúfanlegur hluti lífsgæða í sveitarfélaginu og skipulag samfélagsins á að þjóna hagsmunum íbúa án þess að skerða náttúruna. Sjálfbærni og umhverfisvernd eru í forgrunni við mótun skipulags og útivistarsvæða, með langtímasýn að leiðarljósi. Sjálfbærni er jafnframt einn af grunnþáttum menntunar og samtvinnuð skólastarfi, frístunda- og íþróttastarfi og daglegum starfsháttum. Samgöngur og aðgengi milli byggðarkjarna taka mið af þörfum allra með áherslu á jafnræði, öryggi og sjálfbærar lausnir.
Meginmarkmið 3.2 Styðja sjálfstæði og samfélagsvirkni eldri íbúa
Samfélag sýnir styrk sinn í því hvernig það hlúir að eldri íbúum. Þeir varðveita sögu, gildi og menningu og tengja kynslóðir saman. Jafnræði í aðstöðu og þjónustu milli byggðakjarna er mikilvægt til að tryggja að eldri íbúar geti búið sem lengst heima við öryggi, sjálfstæði og með viðeigandi stuðning. Eldri íbúar eiga að hafa raunveruleg tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu hvort sem er í sjálfboðaliðastarfi, forvörnum og fræðslu eða með þátttöku í stefnumótun. Slík virkni styrkir samheldni, lífsgæði og samfélagslega virkni allra kynslóða.
Meginmarkmið 3.3 Innleiða lausnamiðaða nálgun í alla þjónustu
Lausnamiðuð nálgun er lykill að skilvirkri og réttlátri þjónustu við íbúa. Hún tryggir heildstæða, samfellda og samþætta þjónustu þar sem jafnræði og áreiðanleiki eru í fyrirrúmi, óháð búsetu. Þjónustan þarf að taka mið af fjölbreyttum þörfum og ólíkum aðstæðum fjölskyldna og einstaklinga, styðja þá í að takast á við breytingar og efla sjálfstæði þeirra. Þetta krefst virkrar hlustunar, skilnings og virðingar í allri samskiptamiðlun sveitarfélagsins við þjónustuþega.
Meginmarkmið 3.4 Móta öruggt umhverfi sem styður við nám
Skóla- og frístundastarf á að tryggja jafnræði, jafnrétti og virðingu fyrir öllum sem að því koma. Það undirbýr fjölbreyttan hóp nemenda fyrir framtíðina og skapar þeim öruggt, styðjandi og hvetjandi námsumhverfi. Fjölbreyttir kennsluhættir og jákvæð samskipti kveikja áhuga, efla þátttöku og styrkja gagnrýna hugsun, siðferðisvitund, félagsleg ábyrgð, samskipta- og samvinnuhæfni og sjálfstæði. Fjölbreytt námsval og öflugar verk- og listgreinar styrkja skapandi hugsun, frumkvæði, sjálfsþekkingu og undirbúa nemendur fyrir ábyrga þátttöku í fjölbreyttu lýðræðissamfélagi.
Samvinna
Samvinna er forsenda framþróunar og lykill að því að mæta fjölbreyttum þörfum einstaklinga, fjölskyldna og samfélags. Hún byggir á sameiginlegri sýn, ábyrgð og virkri þátttöku allra og styrkir bæði velferð og sjálfbærni.
Samvinna felur í sér að samfélagið:
- Styðji öflugt atvinnulíf, nýsköpun og þróunarstarf.
- Tryggi velferðarþjónustu sem eflir íbúa til sjálfshjálpar á öllum æviskeiðum.
- Móti starfsumhverfi byggt á trausti, samvinnu og ábyrgri notkun stafrænna lausna.
- Nýti stafrænar lausnir og gagnvirk samskipti til að bæta aðgengi að þjónustu.
Markmið til að auka samvinnu:
4.1 Styrkja atvinnu- og starfsumhverfi með nýsköpun og þróun.
4.2 Efla hæfni, fagmennsku og samvinnu í þjónustu.
4.3 Nýta stafræna möguleika fyrir gæða menntun og þjónustu.
4.4 Byggja betri byggð með öflugri samvinnu.
Meginmarkmið 4.1 Styrkja atvinnu- og starfsumhverfi með nýsköpun og þróun
Góð búsetuskilyrði og öflugt atvinnulíf byggjast á aðgengi að atvinnuhúsnæði, lóðum og góðri aðstöðu fyrir nýsköpun. Bættar samgöngur milli byggðakjarna í samstarfi við stjórnvöld styðja við atvinnulífið, auka atvinnutækifæri og styrkja þjónustu. Gott starfsumhverfi, með skýru upplýsingaflæði, góðum aðbúnaði og virkri þátttöku starfsfólks í ákvörðunum styrkir fagmennsku og stuðlar að framþróun. Stafræn tækni er nýtt til að auka skilvirkni og einfalda stjórnun. Skapandi skólastarf leggur grunn að sjálfstæði, samstarfshæfni, lausnamiðaðri hugsun og sjálfstrausti með því að hvetja börn og ungmenni til að prófa, kanna og uppgötva.
Meginmarkmið 4.2 Efla hæfni, fagmennsku og samvinnu í þjónustu
Í samfélaginu eru öll mikilvæg. Starfsfólk sem styður við fjölskyldur hefur viðeigandi menntun, hæfni og viðhorf til að mæta fjölbreyttum þörfum. Góð starfsmenning styður samvinnu, umbætur og starfsþróun. Fagleg þekking, gagnkvæm virðing og traust styrkja samstarf stofnana og byggðakjarna, þar sem faghópar læra hver af öðrum og miðla lausnum. Stafræn tækni opnar ný tækifæri til að auka skilvirkni og styðja samvinnu.
Meginmarkmið 4.3 Nýta stafræna möguleika fyrir gæða menntun og þjónustu
Stafræn tækni býður upp á ný tækifæri til að bæta lífsgæði, auka aðgengi og efla hæfni. Með markvissri og öruggri innleiðingu tæknilausna og gervigreindar, má styðja við fjölbreyttar þarfir einstaklinga í námi og þjónustu. Námsumhverfi og þjónustukerfi eiga að hvetja til nýsköpunar, efla uppbyggilega notkun á tækni og mæta fjölbreyttum þörfum íbúa. Mikilvægt er að styðja fagfólk með starfsþróun og þjálfun, efla tæknilæsi og greina siðferðileg áhrif tækninotkunar, sérstaklega þegar unnið er með börn, fjölskyldur og aðra viðkvæma hópa.
Meginmarkmið 4.4 Byggja betri byggð með öflugri samvinnu
Samfélag blómstrar þegar íbúar vinna saman, deila hugmyndum og lausnum og taka virkan þátt í að móta umhverfi sitt. Samvinnan styrkir félagsauð, eykur inngildingu og dregur úr einangrun. Með öflugum samfélagsverkefnum geta íbúar haft áhrif á nærumhverfi sitt, unnið saman að lausnum og byggt upp sterkari tengsl. Sveitarfélagið styður þessa þróun með markvissri innviðauppbyggingu, aðstöðu sem eflir samskipti og skapar tækifæri til samstarfs. Jafnt aðgengi allra hópa er lykilatriði í því að tryggja virka þátttöku og sameiginlega ábyrgð á þróun samfélagsins.
Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 14. janúar 2026