Fara í efni

Reglur Múlaþings um daggæsluframlag

Daggæsluframlag byggir á reglum um niðurgreiðslur á daggæslu í heimahúsum og uppfærast í samræmi við breytingar á þeim. Hægt er að sækja um greiðslur fyrir að hámarki 7 klukkutíma gæslu fyrir hvert barn. Daggæsluframlaginu er ætlað að brúa tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur fram að þeim tíma sem barnið kemst að í leikskóla eða í vistun hjá dagforeldri með starfsleyfi. Greitt er fyrir 11 mánuði á ári, ekki er greitt fyrir sumarleyfi.

Skilyrði fyrir daggæsluframlagi

  • Daggæsluframlag er háð því að barn og foreldri/forráðamenn hafi lögheimili og aðsetur í Múlaþingi.
  • Skilyrði fyrir afgreiðslu daggæsluframlags er að fyrir liggi staðfest umsókn um leikskólapláss í umsóknarkerfi sveitarfélagsins eða dagvistun hjá dagforeldri með starfsleyfi.
  • Daggæsluframlag stendur eingöngu þeim til boða sem ekki hafa fengið vistun fyrir barn sitt hjá dagforeldri eða í leikskóla.
  • Hægt er að sækja um daggæsluframlag 12 mánaða aldri.

Afgreiðsla umsókna

  • Sækja þarf um daggæsluframlag á sérstöku umsóknareyðublaði á Mínum síðum á heimasíðu Múlaþings.
  • Réttur til daggæsluframlags skapast í næsta mánuði eftir að sótt er um. Ekki er um afturvirkar greiðslur að ræða.
  • Sækja þarf um fyrir hvern mánuð og þarf umsókn að berast fyrir 20. dag hvers mánaðar á undan greiðslumánuði. Daggæsluframlag er fyrirfram greitt fyrir einn mánuð í senn.
  • Útborgun daggæsluframlags er eigi síðar en þriðja virka dag hvers mánaðar.

Verði um ofgreiðslu á daggæsluframlagi að ræða áskilur sveitarfélagið sér rétt til endurgreiðslu. Sé ofgreiðsla á grundvelli þess að umsækjandi hafi gefið upp rangar upplýsingar eða hann hafi ekki tilkynnt um breytingar á högum sínum sem hafa áhrif á rétt til greiðslu er heimilt að leggja dráttarvexti á upphæð endurkröfunnar.

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 13. september 2023

Síðast uppfært 15. september 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?