Fara í efni

Reglur um innritun í grunnskóla Múlþings og skilgreining á skólahverfum

Ábyrgð

Foreldrar bera ábyrgð á að skrá börn sín í grunnskóla. Foreldrar eiga þess kost að sækja um skóla fyrir börn sín í hvern þann skóla sem þau óska eftir í sveitarfélaginu. Þó eiga nemendur með lögheimili í tilteknu skólahverfi alltaf rétt og forgang á skólavist í sinn hverfisskóla. Umsóknir um skólavist utan
lögheimilishverfis skulu hafa borist til eigi síðar en 30. apríl það ár sem skólavistin hefst að hausti.

Skólahverfi

Egilsstaðaskóli: Fyrrum Egilsstaðabær, fyrrum Eiða- og Hjaltastaðaþinghá og fyrrum Valla- og Skriðdalshreppur.

Fellaskóli: Fyrrum Fellahreppur.

Brúarásskóli: Fyrrum Norður-Hérað.

Seyðisfjarðarskóli: Fyrrum Seyðisfjarðarkaupstaður.

Djúpavogsskóli: Fyrrum Djúpivogshreppur.

Grunnskóli Borgarfjarðar: Fyrrum Borgarfjarðarhreppur.

Umsóknir utan skólahverfis

Umsóknir um skólavist utan skólahverfis eru unnar og afgreiddar í samvinnu við viðkomandi skóla og fræðslustjóra, í þeirri vinnu er tekið mið af eftirfarandi þáttum:

  • Húsnæði, rými og aðstöðu skólans
  • Nálægð heimilis við skóla
  • Hvort systkini stunda nám við sama skóla
  • Sérþarfir nemenda
  • Aðrar persónulegar aðstæður eða sérstakar aðstæður nemenda og/eða fjölskyldu

Sé umsókn um skólavist utan skólahverfis hafnað skal tilkynna foreldrum það skriflega og skýra ástæður ákvörðunarinnar. Foreldrar geta skotið slíkri afgreiðslu til fjölskylduráðs. Nemendur sem hlotið hafa skólavist utan lögheimilisskólahverfis hafa sama rétt til þjónustu skólans og nemendur úr skólahverfi skólans. Þó tryggir sveitarfélagið ekki skilyrðislaust skólaakstur.

Samþykkt í fjölskylduráði 18. maí 2021 og sveitarstjórn 9. júní 2021

Síðast uppfært 24. ágúst 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?