Fara í efni

Þjóðvegur 1

Málsnúmer 201602103

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 331. fundur - 22.02.2016

Lagður fram tölvupóstur frá Einari Ben Þorsteinssyni, dags. 16. febrúar 2016 varðandi hugmyndir um breytingu á legu þjóðvegar nr 1 um Austurland.

Bæjarráð bendir á að ákvörðun um legu þjóðvegar nr.1 er á höndum Vegagerðarinnar. Samþykkt hefur verið á síðustu aðalfundum SSA að Vegagerðin taki málið til skoðunar. Jafnframt hefur verið samþykkt á þessum fundum að vegaframkvæmdir í Skriðdal, Berufirði og heilsársvegur um Öxi séu forgangsverkefni í vegaframkvæmdum á Austurlandi. Bæjarráð leggur áherslu á að ráðherra hefur lagt málið fram til kynningar og hvetur sem flesta að koma sínum sjónarmiðum formlega á framfæri í þessu ferli.
Jafnframt ítrekar bæjarráð mikilvægi þess að þessi forgangsverkefni hljóti staðfestingu í samgönguáætlun sem verði samþykkt sem fyrst.
Í því sambandi er vísað til bókunar undir lið 4 í þessari fundargerð.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 233. fundur - 02.03.2016

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn bendir á að ákvörðun um legu þjóðvegar nr.1 er á höndum Vegagerðarinnar.
Samþykkt hefur verið á síðustu aðalfundum SSA að Vegagerðin taki málið til skoðunar. Jafnframt hefur verið samþykkt á þessum fundum að vegaframkvæmdir í Skriðdal, Berufirði og heilsársvegur um Öxi séu forgangsverkefni í vegaframkvæmdum á Austurlandi. Bæjarstjórn leggur áherslu á að ráðherra hefur lagt málið fram til kynningar og hvetur sem flesta að koma sínum sjónarmiðum formlega á framfæri í þessu ferli.
Jafnframt ítrekar bæjarstjórn mikilvægi þess að þessi forgangsverkefni hljóti hið fyrsta staðfestingu í samgönguáætlun.
Bæjarstjórn leggur því þunga áherslu á að Alþingi samþykki án frekari tafa bæði fjögurra ára og tólf ára samgönguáætlun, enda nauðsynlegt að eyða óvissu um næstu framkvæmdir í samgöngumálum á Austurlandi sem allra fyrst.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 45. fundur - 12.04.2016

Lagt er fram bréf frá Sveini Sveinssyni, Vegagerðinni á Reyðarfirði, þar sem upplýst er staða mála hvað varðar hringveginn í Skriðdal að vegamótum Axarvegar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur áherslu á að lokið verði við samninga við landeigendur sem fyrst svo ekki komi til tafa vegna þess síðar meir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 236. fundur - 20.04.2016

Afgreiðsla umhverfis- og framkvæmdanefndar staðfest.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 390. fundur - 26.06.2017

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs leggur áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í framkvæmdir við þjóðveg 1 í Skriðdal og heilsársveg um Öxi.

Áður hefur verið vakin athygli á þeim samgöngubótum sem því fylgir fyrir fjórðunginn, en sveitarfélögin beggja megin Axar tilheyra sama þjónustusvæði hvað varðar félagsþjónustu, málefni fatlaðra og brunavarnir. Greiðar samgöngur um Axarveg eru því mikilvægar og til hagsbóta fyrir allt Austurland, auk þess sem slíkt styttir akstursleiðina frá Reykjavík til Mið-Austurlands um 71 kílómetra með tilheyrandi sparnaði á tíma og kostnaði, að ekki sé minnst á öryggisþáttinn.
Þrátt fyrir bágborið ástand vegarins í dag er ljóst að stór hluti ferðalanga velja þessa vegtengingu umfram aðra valkosti.

Þess er því vænst, að líkt og í öðrum landshlutum, verði lausnir er leiða til hagkvæmni og styttingar leiða innan sem og á milli landshluta hafðar að leiðarljósi við stefnumarkandi ákvarðanatöku stjórnvalda varðandi framtíðar vegtengingar er snúa að Austurlandi.

Heimastjórn Djúpavogs - 33. fundur - 05.01.2023

Í ljósi nýjustu fregna harmar heimastjórn áætlaða frestun Axarvegar sem Vegagerðin hefur boðað og leggur áherslu á að umræðu og vinnu við Axarveg verði haldið áfram af krafti þar sem hönnun er á lokametrunum.
Getum við bætt efni þessarar síðu?