Fara í efni

Hættuástand á Seyðisfirði

Málsnúmer 202304004

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 33. fundur - 05.04.2023

Heimastjórn Seyðisfjarðar þakkar viðbragðsaðilum og öllum þeim sem sýndu skjót viðbrögð og aðstoðuðu bæjarbúa þegar hættuástand skapaðist í mars 2023 vegna snjóflóðahættu. Einnig vill heimastjórn hrósa íbúum Seyðisfjarðar fyrir æðruleysi og sýndan skilning við erfiðar aðstæður. Það er samfélaginu ómetanlegt að samstaða skuli vera til staðar þegar á reynir.

Heimastjórn vill ítreka mikilvægi þess að öryggi íbúa sé tryggt eins og best má á hverjum tíma, óháð veðri og vindum. Auk yfirvofandi snjóflóðahættu var Fjarðarheiðin lokuð á sama tíma og hættuástand varði. Það skapar enn meira óöryggi í erfiðum aðstæðum og ógnar öryggi íbúa enn frekar. Mikilvægt er að bæði samgöngur og ofanflóðavarnir séu tryggðar og að ekkert komi til tafa á framkvæmdum við ofanflóðavarnir og Fjarðarheiðargöng.

Heimastjórn beinir því til sveitarstjórnar að óska eftir fundi með innviðaráðherra um fyrirhugað útboð og framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng í ljósi ástandsins.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 35. fundur - 12.04.2023

Fyrir liggur bókun frá fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar, dags. 05.04.23, þar sem því er beint til sveitarstjórnar að óska eftir fundi með innviðaráðherra um fyrirhugað útboð og framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng.

Til máls tóku: Björg Eyþórsdóttir, Hildur Þórisdóttir, Jónína Brynjólfsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Vilhjálmur Jónsson, Helgi Hlynur Ásgrímsson og Þröstur Jónsson.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings þakkar viðbragðsaðilum skjót og vönduð viðbrögð vegna mögulegra ofanflóða að undanförnu sem og íbúum Seyðisfjarðar fyrir samstöðu og þrautseigju meðan að óvissuástand varði.
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Seyðisfjarðar varðandi mikilvægi þess að bæði samgöngur til og frá Seyðisfirði verði tryggðar sem og að framkvæmdir við ofanflóðavarnir beggja megin fjarðar tefjist ekki. Sveitarstjórn leggur áherslu á mikilvægi þess að fjármögnun framkvæmda við Fjarðarheiðargöng verði tryggð og hefjist samkvæmt áætlun. Sveitarstjóra falið að óska eftir fundi sveitarstjórnar og innviðaráðherra sem fyrst varðandi málið. Sveitarstjórn vekur jafnframt athygli íbúa Seyðisfjarðar og Múlaþings á upplýsingafundi sem haldinn verður fimmtudaginn 13. apríl kl. 17:00 um fjarfundarbúnað og nálgast má um heimasíðu sveitarfélagsins. Umfjöllunarefnið verður staða mála varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Getum við bætt efni þessarar síðu?