Fara í efni

Bundið slitlag á fjölfarna vegi í sveitum Múlaþings

Málsnúmer 202311113

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Seyðisfjarðar - 41. fundur - 07.12.2023

Að mati heimastjórnar Seyðisfjarðar er viðhaldi vega beggja megin fjarðar ekki nógu vel sinnt. Ferðaþjónusta er mjög öflug atvinnugrein á Seyðisfirði og umferð um fjörðinn aukist samhliða því. Búseta er utarlega beggja megin fjarðar auk þess sem þar eru útivistasvæði sem íbúar og aðrir gestir sækja. Góðir vegir eru því afar mikilvægir með öryggi og hagsmuni íbúa sem og ferðamanna í huga. Heimastjórn leggur áherslu á að vegirnir verði lagðir bundnu slitlagi og að reglulegu viðhaldi á báðum leiðum verði betur sinnt.

Heimastjórn Seyðisfjarðar beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að taka málið upp með Vegagerðinni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs - 41. fundur - 08.12.2023

Að mati heimastjórnar Fljótsdalshéraðs er viðhaldi heimreiða og vega í dreifbýli Fljótsdalshéraðs ekki nógu vel sinnt. Ferðaþjónusta hefur verið vaxandi atvinnugrein í dreifbýlinu og umferð því aukist samhliða því. Íbúar dreifbýlisins sækja einnig atvinnu í mjög mörgum tilvikum frá heimili sínu og akstur með skólabörn á sér daglega stað um vegakerfi svæðisins. Góðir vegir eru því afar mikilvægir með öryggi og hagsmuni íbúa dreifbýlisins í huga. Heimastjórn leggur áherslu á að fjölfarnir vegir í dreifbýli Fljótsdalshéraðs verði lagðir bundnu slitlagi og reglulegu viðhaldi á öllum vegum og heimreiðum verði betur sinnt.

Heimastjórn minnir á bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 14.8.2023, sem gerð var í kjölfar bókunar heimastjórnar frá 8.12.2022, þar sem því er beint til Vegagerðarinnar að „láta gera úttekt á ástandi heimreiða í sveitarfélaginu en ástand þeirra er víða slæmt vegna skorts á viðhaldi og endurbótum.“

Þá er vakin athygli á að þessar áherslur heimastjórnar Fljótsdalshéraðs eru í samræmi við markmið um jákvæða byggðaþróun í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-20238, en þar segir: „Áfram verði unnið markvisst að lagningu bundins slitlags á tengivegi sem styðji við atvinnu- og byggðaþróun og auðveldi skólaakstur á svæðum sem nú búa við malarvegi. Við forgangsröðun uppbyggingar tengivega verði litið til umferðarþunga, ástands vega, akstursleiða skólaaksturs, vinnusóknar, ferðaþjónustu og óska sveitarfélaga.“

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að taka málið upp með Vegagerðinni.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Sveitarstjórn Múlaþings - 42. fundur - 13.12.2023

Fyrir liggja bókanir heimastjórna, dags. 07.12.2023 og 08.12.2023, varðandi ástand vega í dreifbýli sveitarfélagsins.

Til máls tóku: Ívar Karl Hafliðason, Hildur Þórisdóttir sem bar upp fyrirspurn, Jónína Brynjólfsdóttir svaraði fyrirspurn Hildar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórnum Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar varðandi mikilvægi þess að lagt verði bundið slitlag á fjölfarna vegi í sveitum sveitarfélagsins og beinir því til Vegagerðarinnar að við þessu verði brugðist. Um er að ræða m.a. veg 923 að Grund, þar sem einn fjölfarnasti ferðamannastaður Austurlands er staðsettur, sem er Stuðlagil, vegina beggja vegna Seyðisfjarðar að Vestdal og Hánefsstöðum. Veg að Vínlandi, Eyvindará og ómalbikaða vegi í Tungunni og upp á Jökuldal. Sveitarstjóra falið að koma þessu á framfæri við Vegagerðina.

Samþykkt samhljóða með handaupréttingu.
Getum við bætt efni þessarar síðu?