Fara í efni

Þjónusta Vegagerðarinnar á Borgarfirði

Málsnúmer 202508151

Vakta málsnúmer

Heimastjórn Borgarfjarðar - 62. fundur - 15.09.2025

Loftur Þór Jónsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar og Hugrún Hjálmarsdóttir umhverfis- og framkvæmastjóri komu inn á fundinn.

Heimastjórn þakkar Lofti og Hugrúnu fyrir komuna á fundinn og þakkar Vegagerðinni fyrir nýjan veg út í höfn, nýtt bílastæði við Brúnavíkurgönguleið og vegbætur við Landsenda.

Fram kom í máli Lofts að reglum um vetrarþjónustu hefur ekki verið breytt um margra ára skeið vegna takmarkaðra fjárheimilda Vegagerðarinnar. Þá kom fram að vegspotti sem eftir er að byggja upp af Hafnarvegi er ekki á áætlun Vegagerðarinnar og vill heimastjórn að bætt verði úr því hið fyrsta. Heimastjórn fór yfir sínar vangaveltur varðandi hraðatakmarkanir í og við þorpið og þörf fyrir girðingu ofan vegar norðan megin í firðinum frá þorpsgirðingu og út á Landsenda.

Eftirfarandi bókun lögð fram:
Heimastjórn Borgarfjarðar óskar þess að vetrarþjónusta á Borgarfjarðarvegi nr. 94 verði aukin í fulla þjónustu sjö daga vikunnar. Til þess að svo megi verða þarf að koma til aukinna fjárheimilda. Samkvæmt greiningu heimastjórnar á fyrirliggjandi gögnum á heimasíðu Vegagerðarinnar er Borgarfjörður eini þéttbýlisstaðurinn með yfir 100 íbúa sem ekki nýtur daglegrar vetrarþjónustu þar sem er yfir fjallveg að fara. Í ljósi þess að umræddur vegur er eina leiðin til og frá Borgarfirði að næsta þéttbýli eykur það mikilvægi þess að honum sé haldið færum daglega yfir vetrarmánuðina. Bent er á að mikil aukning hefur verið í atvinnusókn frá Borgarfirði til Héraðs og öfugt undanfarin ár og hafa atvinnurekendur í ferðaþjónustu á Borgarfirði lagt mikið á sig við að halda úti heilsársferðaþjónustu sem kallar á öruggar samgöngur. Þá er grunnskólabörnum á Borgarfirði ekið til kennslu í Fellabæ tvo daga í viku og því þarf að huga að opnun vegar fyrr á daginn en nú er.

Starfsmanni heimastjórnar falið að senda erindi til innviðaráðherra og samgöngunefndar í samræmi við umræður á fundinum.
Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Gestir

  • Loftur Þór Jónsson - mæting: 13:00
  • Hugrún Hjálmarsdóttir - mæting: 13:00
Getum við bætt efni þessarar síðu?