Fara í efni

Heimastjórn Borgarfjarðar

62. fundur 15. september 2025 kl. 12:30 - 16:20 á skrifstofu sveitarfélagsins, Borgarfirði
Nefndarmenn
  • Eyþór Stefánsson formaður
  • Ólafur Arnar Hallgrímsson aðalmaður
  • Elísabet Dögg Sveinsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Alda Marín Kristinsdóttir fulltrúi sveitarstjóra
Fundargerð ritaði: Alda Marín Kristinsdóttir fulltrúi sveitarstjóra

1.Umhverfisþing 2025

Málsnúmer 202508087Vakta málsnúmer

Fyrir liggur bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 25.8.2025 þar sem lagt er til við heimastjórnir, sem fara með hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélagsins, að tilnefna einn heimastjórnarfulltrúa hver til að sitja Umhverfisþing, hvort heldur í fjar- eða staðfundi, sem haldið verður 15. og 16. september.

Lagt fram til kynningar.

2.Þjónusta Vegagerðarinnar á Borgarfirði

Málsnúmer 202508151Vakta málsnúmer

Loftur Þór Jónsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar og Hugrún Hjálmarsdóttir umhverfis- og framkvæmastjóri komu inn á fundinn.

Heimastjórn þakkar Lofti og Hugrúnu fyrir komuna á fundinn og þakkar Vegagerðinni fyrir nýjan veg út í höfn, nýtt bílastæði við Brúnavíkurgönguleið og vegbætur við Landsenda.

Fram kom í máli Lofts að reglum um vetrarþjónustu hefur ekki verið breytt um margra ára skeið vegna takmarkaðra fjárheimilda Vegagerðarinnar. Þá kom fram að vegspotti sem eftir er að byggja upp af Hafnarvegi er ekki á áætlun Vegagerðarinnar og vill heimastjórn að bætt verði úr því hið fyrsta. Heimastjórn fór yfir sínar vangaveltur varðandi hraðatakmarkanir í og við þorpið og þörf fyrir girðingu ofan vegar norðan megin í firðinum frá þorpsgirðingu og út á Landsenda.

Eftirfarandi bókun lögð fram:
Heimastjórn Borgarfjarðar óskar þess að vetrarþjónusta á Borgarfjarðarvegi nr. 94 verði aukin í fulla þjónustu sjö daga vikunnar. Til þess að svo megi verða þarf að koma til aukinna fjárheimilda. Samkvæmt greiningu heimastjórnar á fyrirliggjandi gögnum á heimasíðu Vegagerðarinnar er Borgarfjörður eini þéttbýlisstaðurinn með yfir 100 íbúa sem ekki nýtur daglegrar vetrarþjónustu þar sem er yfir fjallveg að fara. Í ljósi þess að umræddur vegur er eina leiðin til og frá Borgarfirði að næsta þéttbýli eykur það mikilvægi þess að honum sé haldið færum daglega yfir vetrarmánuðina. Bent er á að mikil aukning hefur verið í atvinnusókn frá Borgarfirði til Héraðs og öfugt undanfarin ár og hafa atvinnurekendur í ferðaþjónustu á Borgarfirði lagt mikið á sig við að halda úti heilsársferðaþjónustu sem kallar á öruggar samgöngur. Þá er grunnskólabörnum á Borgarfirði ekið til kennslu í Fellabæ tvo daga í viku og því þarf að huga að opnun vegar fyrr á daginn en nú er.

Starfsmanni heimastjórnar falið að senda erindi til innviðaráðherra og samgöngunefndar í samræmi við umræður á fundinum.
Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Gestir

  • Loftur Þór Jónsson - mæting: 13:00
  • Hugrún Hjálmarsdóttir - mæting: 13:00

3.Ákall um bætt öryggi, Borgarfjörður

Málsnúmer 202509101Vakta málsnúmer

Erindi barst frá Sveini Huga Jökulssyni fyrir hönd íbúa við veg nr. 94 á Borgarfirði með ákalli til Vegagerðarinnar um bætt umferðaröryggi á 2,5 km kafla n.t.t. við aðkomuna í þorpið.
Heimastjórn þakkar fyrir erindi Sveins Huga og tekur heils hugar undir það. Erindinu hefur þegar verið komið á framfæri við svæðisstjóra Vegagerðarinnar og vísar erindinu áfram til umhverfis- og framkvæmdaráðs.

Samþykkt samhljóða án handauppréttingar.

4.Fjárfestingaráætlun 2026

Málsnúmer 202508196Vakta málsnúmer

Fyrir liggja drög að fjárfestingaráætlun Múlaþings fyrir árið 2026.
Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 1.9.2025 var gerð eftirfarandi bókun:
Umhverfis- og framkvæmdaráð vísar fyrirliggjandi drögum að 10 ára fjárfestingaráætlun til umsagnar hjá ungmennaráði, öldungaráði, samráðshópi um málefni fatlaðs fólks, byggðaráði, fjölskylduráði og heimastjórnum. Áætlunin verður tekin fyrir að nýju.

Hugrún Hjálmarsdóttir kom inn á fundinn og fjallaði um áætlunina.

Heimastjórn Borgarfjarðar gerir ekki athugasemdir við drögin en bendir þó á að í stefnu Múlaþings um þjónustustig í byggðum þess kemur fram að á árunum 2026-2028 er stefnt á að leggja til stofnframlög til húsbygginga á Borgarfirði. Hvetur heimastjórn sveitarfélagið til að setja þá framkvæmd á fjárfestingaáætlun ef þurfa þykir.

Samþykkt samhljóða án handauppréttingar.

Gestir

  • Hugrún Hjálmarsdóttir - mæting: 13:45

5.Þjónustustefna í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga

Málsnúmer 202310013Vakta málsnúmer

Fyrir liggur stefna Múlaþings fyrir árið 2025 um þjónustustig í byggðum Múlaþings. Einnig liggur fyrir bókun byggðaráðs frá 12.8.2025, þar sem skrifstofustjóra er falið að hefja árlega vinnu við uppfærslu stefnu um þjónustustig í byggðum Múlaþings í samvinnu við heimastjórnir og fagráð Múlaþings.

Hlutverk heimastjórnar að þessu sinni er að rýna stefnuna og koma með tillögur eða ábendingar.
Heimastjórn telur mikilvægt að bætt verði inn í þjónustustefnu þeim atriðum sem talin eru upp hér að neðan:

Slökkvilið:
Að húsnæðismálum slökkviliðsins og björgunarsveitarinnar verði komið í viðunandi horf.

Vatnsveitur:
Vatnsgæði á Borgarfirði verði tryggð með viðeigandi ráðstöfunum á öllum þremur vatnsbólum Borgarfjarðar.
Sveitarfélagið myndi sér stefnu um hvar og hvenær eigi að bora eftir heitu/og eða köldu neysluvatni.

Gagnaveita:
Lokið verði ljósleiðaravæðingu þéttbýlisins á Borgarfirði.

6.Ályktanir aðalfundar NAUST 23.ágúst 2025

Málsnúmer 202509002Vakta málsnúmer

Fyrir liggja ályktanir aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Austurlands sem var haldinn 23. ágúst 2025.
Lagt fram til kynningar.

7.Umhverfisviðurkenningar

Málsnúmer 202409036Vakta málsnúmer

Fyrir liggja tilnefningar frá almenningi vegna umhverfisviðurkenninga.
Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Heimastjórn Borgarfjarðar þakkar fyrir innsendar tilnefningar. Heimastjórn hefur valið úr og tilnefnt í þá þrjá flokka sem hljóta viðurkenningar og felur starfsmanni að koma þeim á framfæri við verkefnastjóra umhverfismála. Umhverfis-og framkvæmdaráð mun svo velja úr tilnefningum heimastjórna í flokkunum íbúðalóð, fyrirtækjalóð og lögbýli.

Samþykkt samhljóða án handauppréttingar.

8.Fundir Heimastjórnar Borgarfjarðar

Málsnúmer 202010615Vakta málsnúmer

Næsti fundur heimastjórnar Borgarfjarðar er fyrirhugaður fimmtudaginn 9. október 2025. Erindi fyrir fundinn þurfa að berast fyrir kl. 12:00 mánudaginn 6. október. Erindi skal senda á netfangið alda.kristinsdottir@mulathing.is eða bréfleiðis til skrifstofu.

Fundi slitið - kl. 16:20.

Getum við bætt efni þessarar síðu?