Fara í efni

19. júní fagnað í Safnahúsinu á Egilsstöðum

16.06.2025 Fréttir Egilsstaðir

Söfnin í Safnahúsinu á Egilsstöðum fagna kvenréttindadeginum 19. júní með fjölbreyttri dagskrá en í ár eru 110 ár liðin frá því að konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Það eru Bókasafn Héraðsbúa, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Minjasafn Austurlands sem standa að dagskránni sem hentar jafnt ungum sem öldnum.

Á Bókasafni Héraðsbúa verður boðið upp á kynningu frá kl. 13.00–18.00 á bókum sem tengjast kvenréttindum en einnig á skáldkonunum Iðunni Steinsdóttur og Kristínu Steinsdóttur. Þær eru báðar fæddar á Seyðisfirði, hafa gefið út fjölda verka af ólíkum toga og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Iðunn fagnaði 85 ára afmæli sínu í upphafi ársins og Kristín verður áttræð á næsta ári.

Á Héraðsskjalasafni Austfirðinga verður opin frá kl. 10.00–18.00 glæný sýning þar sem fjallað er um þrjár austfirskar konur sem komu við sögu kosningaréttar kvenna á Austurlandi, hver með sínum hætti.

Minjasafn Austurlands í samstarfi við Leikfélag Fljótsdalshéraðs stendur fyrir leiklestri kl. 18.00 á verki þeirra systra, Iðunnar og Kristínar, 19. júní, en það hlaut fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni Ríkisútvarpsins árið 1986. Leikstjóri er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir.

Aðgangur að dagskránni er ókeypis.

Nánari upplýsingar veita Björg Björnsdóttir (bjorg@minjasafn.is), safnstjóri Minjasafns Austurlands í síma 471 1412 og Kolbrún Erla Pétursdóttir (kolbrun.erla.petursdottir@mulathing.is), forstöðukona Bókasafns Héraðsbúa í síma 470 0745.

Iðunn og Kristín Steinsdætur

Mynd: Gunnar Gunnarsson
Mynd: Gunnar Gunnarsson
Getum við bætt efni þessarar síðu?