Á næstu dögum verður 50 ára siglingarsögu Smyril line fagnað. Þann 12. júní 1975 voru tímamót í íslenskri samgöngusögu þegar færeyska skipið Smyril kom fyrst til hafnar á Seyðisfirði og opnaðist þar með ný gátt til Evrópu frá Íslandi og Seyðisfjarðarhöfn var þar með orðin landamærastöð.
Samkvæmt grein í Morgunblaðinu síðan 19. nóvember 1988 þá var Ísland eina landið í Evrópu árið 1975 sem hafði ekki vegsamband við umheiminn með farþega og bílferjuskipum. Sú staða breyttist með tilkomu Smyrils.
Þorvaldur Jóhannsson var einn þeirra sem kom að undirbúningi þess að siglingarnar hæfust á sínum tíma. Aðspurður um helstu áskorunina við undirbúninginn sagði hann ,,Fjarðarheiðin var okkur erfið en á móti kom góð höfn og nýr viðlegukantur beið ónotaður og sá hentaði vel með smá lagfæringum í ævintýrið . Einn forystumaður Færeyinga sagði á þeim tíma. ,,Á Seyðisfirði hittum við fyrir fólk með hjartað á réttum stað og viljann til að láta hlutina ganga upp.“
Á þeim tíma sem siglingarnar hófust var mikilvægi þeirra fyrir samfélagið ómetanlegt enda höfðu hlutirnir þróast þannig að íbúafjöldi landshlutans hafði farið lækkandi um nokkurt skeið og Þorvaldur segir það hafa verið mikilvægt að ná að sannfæra Færeyingana til að velja Seyðisfjarðarhöfn sem sína heimahöfn á Austurlandi. „Á þessum tíma, árið 1974-1975 var Seyðisfjörður einangraður frá landleiðinni frá október þar til í maí og jafnvel júní vegna lokunar Fjarðarheiðar. Þetta tækifæri fyllti okkur mikilli bjartsýni eftir erfið ár og kom Seyðisfirði aftur á kortið. Það var stór dagur 14. júni 1975 þegar litli Smyrill sigldi inn í höfnina á Seyðisfirði,“ rifjar Þorvaldur upp og heldur áfram: „Þegar horft er til baka þá tel ég að þetta tækifæri sem Færeynigar buðu okkur upp á með landamærastöð á Austurlandi fyrir siglingar sínar frá Seyðisfirði til Færeyja, Danmerkur og Noregs á þessum tíma fyrir ferðaþjónustuna á Austurlandi og Íslandi megi líkja við árið 2006 þegar Alcoa opnaði álverið sitt á Reyðarfirði. Árin þar á undan tapaði Austurland um 150-200 manns á hverju ári. Með því tókst að stöðva fólksflóttann frá Austurlandi. Samstarf Seyðfirðinga og Færeyinga 1975 var í raun upphafið að þeirri ferðaþjónustu á Austurlandi sem við nú þekkjum í dag.“
Í upphafi var aðeins silgt yfir sumarmánuðina en árið 2003 breyttist það og við tóku heilsárssiglingar, enda ný og betri hafnaraðstaða tekin í gagnið.
Spurður út í framtíð siglinga frá Seyðisfirði sagði Þorvaldur ,,Ég vil trúa því að farþegaferja Smyril-Line sigli áfram á Austurland þar sem siglingarútína þeirra er frekar þröng og passar því vel fyrir okkur sem búum næst Færeyjum og Evrópu.“ Og svo bætti hann við ,,Ég vil þakka Færeyingum, Smyril Line og Austfar h/f á Seyðisfirði, sem var lengst af þeirra umboðsaðili hér á landi, fyrir frábæra þolinmæði og tryggð við þetta verkefni. Oft var aldan kröpp í mót og ekki séð fyrir hvenig færi. Alltaf fundu þeir lausn sem dugði til að sigla. Nú hafa þessar siglingar staðið yfir í 50 ár. Frá 2003 með nýju Norrænu hefur verið siglt allt árið. Þá hefur reynt á Fjarðarheiðina sem getur verið baldin og erfið vegna ófærðar. En með samstilltum vilja heimanna, Björgunarsveitar og Vegagerðar hefur þetta blessast hingað til. Nú bíðum við bara eftir Fjarðarheiðargöngum sem eru tilbúin í útboð.“