Fara í efni

50 ára sögu ferjusiglinga minnst um borð í Norrænu

23.05.2025 Fréttir Seyðisfjörður

Mikilvægum áfanga í samgöngusögu Íslands var fagnað þann 21. maí síðastliðin þegar frumkvöðlarnir sem stóðu að upphafi ferjusiglinga Smyrils milli Seyðisfjarðar, Færeyja, Danmerkur og Noregs voru heiðraðir við hátíðlega athöfn um borð í Norrænu. Tilefnið var að 50 ár eru liðin síðan siglingar gamla Smyrils hófust.

Siglingarnar mörkuðu merk tímamót í samgöngusögu Íslands hvað varðar siglingar með farþega á milli landa. Farþegasiglingar höfðu lagst af um tíma og Ísland eina landið í norður Atlantshafinu sem ætlaði að veðja á millilandaflug með ferðamenn. Frumkvöðlarnir með Jónas Hallgrímsson fremstan í stafni komu siglingunum á fyrir 50 árum, nánar tiltekið 14. júní 1975.

Smyril Line bauð að þessu tilefni frumkvöðlunum, þingmönnum Norðausturlands, sveitastjórn Múlaþings, innviðaráðherra, sveitastjórum á Austurlandi og fleirum til móttöku um borð í Norrænu þegar skipið var í höfn á Seyðisfirði. Þorvaldur Jóhannsson tók saman mjög áhugavert ágrip um upphafið en hann er fyrrverandi bæjarstjóri Seyðisfjarðar og einn af frumkvöðlunum.

Frumkvöðlarnir frá vinstri: Jónas Hallgrímsson, Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir og Þorvaldur Jóhannsson á myndina vantar Theodór Blöndal

Frá vinstri: Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, Agnar Sverrisson, sviðstjóri Smyril line á Seyðisfirði og Óskar Sveinn Friðriksson, framkvæmdastjóri Smyril line á Íslandi

Af þessu tilefni flutti sveitastjóri og hafnastjóri hafna Múlaþings; Dagmar Ýr Stefánsdóttir eftirfarandi ræðu:

50 ára afmæli ferjusiglinga milli Færeyja, Danmörku og Seyðisfjarðar

21. maí 2025 – Móttökuathöfn um borð í Norrænu

Kæru gestir, góðir vinir, fyrrum og núverandi bæjarfulltrúar, starfsfólk Smyril Line, fulltrúar stjórnvalda og íbúar.

Það er mér mikill heiður að standa hér í dag, við þennan merka áfanga í sögu samgangna á Íslandi, og þá sérstaklega á Austurlandi. Í dag fögnum við 50 ára afmæli áætlunarsiglinga frá Evrópu til Íslands – til Seyðisfjarðar – og þar með 50 ára sögu landamærastöðvarinnar við höfnina hér. Þetta eru ekki bara tímamót – þetta eru rætur og framtíð í senn.

Þann 14. júní árið 1975 sigldi gamli Smyrill, smávaxið en öruggt skip, inn í Seyðisfjarðarhöfn í fyrsta sinn með ferðamenn, farartæki og drauma í farteskinu. Það var söguleg stund. Þar með var Ísland ekki lengur eina Evrópulandið án siglingatengsla við meginlandið – ný gátt opnaðist, beint hingað til okkar.

Það var þó langt frá sjálfsagðri niðurstöðu að siglingarnar lentu hér. Þá var mikið rætt um að Reyðarfjörður væri skynsamlegri kostur með betri vegtengingar og minna vetrarálag. En Seyðfirðingar létu ekki deigan síga – þeir höfðu framtíðarsýn. Þeir vissu að hér var til staðar skjólgóð höfn með nægu dýpi, nýr viðlegukantur, og ekki síst – tengsl, traust og samvinna við færeysku frumkvöðlana. Þetta var sigur sem náðist með þrautseigju, kjarki og samstarfi. Ég vil sérstaklega nefna Þorvald Jóhannsson, Jónas Hallgrímsson, Theódór Blöndal og Gunnþórunni Fossahlíð, sem öll stóðu vaktina þá – og sum þeirra eru hér með okkur í dag. Þakka ykkur fyrir ykkar framlag til samgöngusögu þjóðarinnar.

Á þessum fimm áratugum hafa tugir þúsunda ferðamanna siglt þessa leið – margir í fyrsta sinn til Íslands, aðrir sem hluti af menningu, viðskiptum, útflutningi, flutningum og ekki síst – vináttu. Siglingar Smyril Line hafa orðið ómissandi hluti af ferðaþjónustu og atvinnulífi Austurlands. Þetta er ekki bara leiðin út – þetta er leiðin inn.

Við skulum heldur ekki gleyma því að árið 2003 tóku við heilsárssiglingar. Þá hófst nýr kafli. Norræna, eins og við þekkjum hana nú, siglir nú allt árið. En með því jukust líka kröfurnar – og þar hefur Fjarðarheiðin oft orðið okkur þröskuldur, sérstaklega þegar vetrarhörkur geysa. Eins og Þorvaldur minntist réttilega á, í viðtali sem var birt á heimasíðu sveitarfélagsins, múlaþing.is, hefur þjónusta Vegagerðar og Björgunarsveita bjargað ótal ferðalögum – og fyrir það ber að þakka.

En við núverandi ástand verður ekki unað. Við þurfum að sjá þá framtíðarsýn sem við heimafólk höfum lengi talað fyrir verða að veruleika. Fjarðarheiðargöng eru númer eitt í forgangsröð gangaáætlunar núgildandi samgönguáætlunar – og réttilega. Þau eru ekki bara nauðsyn, þau eru réttlæti gagnvart samfélagi sem í hálfa öld hefur staðið vaktina við ytri landamæri þjóðarinnar.

Göngin væru ekki bara góð afmælisgjöf á þessum tímamótum – þau væru trygging fyrir framtíð þess sem hér hefur verið byggt upp, með seiglu og hugsjón. Við megum ekki láta það sem næstum fór forgörðum í upphafi – vegna vantrúar annarra á möguleikum þessa fjarðar – falla okkur úr greipum. Nú er tíminn til að tryggja næstu 50 árin.

Kæru vinir – saga Smyril Line á Íslandi er ekki bara saga siglinga. Hún er saga nýrrar vonar fyrir samfélag í vanda. Hún er saga alþjóðasamvinnu. Hún er saga fólks sem lét ekki hindranir stöðva sig, heldur leitaði leiða – og fann þær.

Til hamingju með daginn, kæru Seyðfirðingar og Austfirðingar – til hamingju með daginn, Ísland!

Nú að lokum langar mig að biðja frumkvöðlana fjóra sem eru með okkur í dag að koma hingað upp og taka við blómvendi og þökkum fyrir sitt framlag til framþróunar í samgöngumálum landsins.

Því næst langar mig að afhenda forsvarsfólki Smyril Line þakklætisvott fyrir gott samstarf í gegnum árin með von um að það haldi áfram á sömu nótum. Hér erum við með gjafakörfum með vörum sem framleiddar eru hér í Múlaþingi og vona að þið njótið vel.

Takk fyrir.

Dagmar Ýr með frumkvöðlunum
Dagmar Ýr með frumkvöðlunum
Getum við bætt efni þessarar síðu?