Í vetur fóru tveir kennarar frá Leikskólanum Tjarnarskógi, Nína og Guðrún Ásta, á námskeið í ART (Aggression Replacement Training).
ART er fastmótað, uppeldisfræðilegt þjálfunarmódel sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja óæskilega hegðun og kenna börnum aðrar leiðir til að takast á við samskipta-, tilfinninga- og hegðunarvanda. Módelið byggir meðal annars á aðferðum úr atferlissálfræði og var þróað í Bandaríkjunum af Arnold P. Goldstein, Barry Glick og John C. Gibbs.
ART felur í sér samhliða þjálfun í þremur lykilþáttum:
- Félagsfærni
- Sjálfsstjórn
- Siðferðisvitund
Þjálfunin byggir á sýnikennslu, hlutverkaleikjum, jákvæðri styrkingu, æfingum og umræðum, sem saman stuðla að betri og varanlegri breytingum í hegðun og samskiptum.
Á Tjarnarlandi hefur ART aðferðafræðin verið nýtt með elsta hópnum, þar sem markvisst hefur verið unnið með þessa þrjá þætti. Í dag eru sjö ART-þjálfarar á Tjarnarlandi sem hafa lokið réttindanámskeiði.
Við óskum Nínu, Guðrúnu Ástu og öllum hópnum til hamingju með þennan árangur og hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi vinnu með ART í leikskólastarfinu.
Nánar má lesa um ART á vefnum www.isart.is