Fara í efni

Baugur Bjólfs – vinningstillaga í samkeppni um skipulag- og hönnun áfangastaðar

23.11.2021 Fréttir Seyðisfjörður

Dómnefnd hefur valið vinningstillögu í samkeppni um útsýnisstað við snjóflóðavarnargarðana í Bjólfi á Seyðisfirði.

Vinningstillagan var unnin í þverfaglegu samstarfi og eru aðalhönnuðir þær Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá ESJA ARCHITECTURE og Arnar Björn Björnsson frá exa nordic sem sá um burðarvirkjahönnun.

 

Tillagan er mjög heildstæð og einstaklega vel framsett. Baugurinn (hringurinn) er afar sterkt form sem fellur með sérstæðum hætti að landslagi, er heillandi andstæða umhverfis síns og býður uppá svífandi og einstaka upplifun umfram það sem sjá má af fjallsbrúninni.

Baugurinn og tengingin við haug Bjólfs er mjög áhugaverð og nýtist vel til menningar- og ferðaþjónustutengdrar starfsemi og upplýsingagjafar á svæðinu.

Dómnefnd mat tillöguna sem einstaklega áhugavert kennileyti sem kallast á við landslagið á einfaldan en áhrifamikinn hátt þar sem ferðafólk er leitt áfram í lokaðri umgjörð án hnökra. Hreyfihamlaðir þurfa jafnframt ekki að yfirstíga neinar hæðahindranir og tillagan tryggir gott flæði ferðafólks um svæðið. „Einföld, sérstæð og sterk byggingarlist hér á ferð sem dómnefnd telur að geti haft mjög mikið aðdráttarafl og hefur alla burði til þess að bjóða upp á einstaka upplifun“ eins og segir í niðurstöðu dómnefndar.

 

Álit dómnefndar er að samkeppni um útsýnisstað í Bjólfi hafi almennt tekist vel og fram hafi komið áhugaverðar og metnaðarfullar tillögur. Teymin hafi unnið tillögurnar í samræmi við keppnislýsingu og kröfur sem lagðar voru fram og sjá má að mikil vinna liggi að baki þeim. Framsetning tillagna er oftast mjög myndræn, textagerð skýr og í flestum tilvikum aðgengileg.

Markmið samkeppninnar var að bæta aðstæður og skapa aðdráttarafl  á svæði sem hefur mikil tækifæri til þess að vera einn af fjölsóttustu  útsýnisstöðum Austurlands, auk þess að bæta öryggi og aðgengi  ferðamanna og stuðla að verndun lítt snortinnar náttúru á tímum  vaxandi fjölda ferðafólks. Leitast var eftir að fá fram hugmyndir að  hönnun sem félli vel að umhverfi svæðisins og tryggði öryggi  ferðamanna. Hönnun útsýnissvæðisins var ætlað að stuðla að einstakri upplifun fyrir þá sem koma til með að heimsækja  áfangastaðinn.

 

Dómnefnd lagði áherslu á að velja þá tillögu sem uppfyllti flest þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í keppnislýsingu og mat tillögurnar eftir þeim sjónarmiðum sem dómnefnd hafði lagt keppendum í té í upphafi.

Dómnefnd var sammála um að tillagan sem valin var í verðlaunasætið - Baugur Bjólfs - bar af að flestu leyti með mjög áhugaverða nálgun á viðfangsefnið auk þess að sýna ýmsar áhugaverðar skírskotanir í menningu, sögu og náttúru staðarins, nokkuð sem reyndar flestar hinar tillögurnar gerðu einnig.

 

Múlaþing efndi til samkeppninnar og fékk til þess styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Samkeppnin var unnin í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) og var keppnin unnin samkvæmt keppnisreglum félagsins. Dómnefnd fékk tillögurnar afhentar nafnlausar og var ekki tilkynnt um hver ætti hvaða tillögu fyrr en eftir að búið var að velja vinningstillögu. Múlaþing stefnir að því að semja um áframhaldandi hönnun í samvinnu við vinningshafa og að sótt verði um styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í áframhald verkefnisins.

Sérstakar þakkir eru sendar til teymanna fjögurra fyrir áhugaverðar og metnaðarfullar tillögur og um leið er vinningsteymi óskað innilega til hamingju með sigurinn. Þá fær dómnefnd þakkir fyrir sín störf, en dómnefnd var skipuð Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Múlaþings, Maríu Hjálmarsdóttur, fyrir hönd Áfangastaðaáætlunar Austurlands og Oddi Hermannssyni, landslagsarkitekt og fulltrúa FÍLA. Ritari dómnefndar  og verkefnastjóri samkeppninnar var Jónína Brá Árnadóttir, trúnaðarmaður dómnefndar var Ólafur Melsted, frá FÍLA.

Vegna aðstæðna í ljósi covid-19 var ekki hægt að vera með hátíðlega athöfn eins og lagt var upp með í tilefni niðurstöðu dómnefndar, en stefnt er að því að þegar aðstæður leyfa.


 Hér að neðan má sjá innsendar tillögur auk keppnislýsingar dómnefndar:

Vinningstillaga: 

Baugur Bjólfs

Tillaga nr. 62832
Höfundar: Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá ESJA ARCHITECTURE og Arnar Björn Björnsson frá EXA NORDIC

pdf merkiGreinargerð

 

Aðrar tillögur:

Bjólfssalir

Tillaga nr. 11248
Höfundar: Tendra Arkitektur og Teiknistofan Storð ásamt Ingibjörgu Jöru Sigurðardóttur, hönnuði.

pdf merkiGreinargerð

 

Bæjarbrún 

Tillaga nr. 54086
Höfundar: Landslag ehf. og Gláma · Kím

pdf merki Greinargerð

 

Óskasteinar

Tillaga nr. 51515
Höfundar: marimo arkitektar og DLD – Dagný Land Design

Anna Leoniak og Bjarni Kristinsson arkitektar frá marimo arkitektum Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt frá DLD – Dagný Land Design ásamt Elisa Sarasso landslagsarkitekt hjá DLD.

pdf merki Greinargerð

 

pdf merkiKeppnislýsing dómnefndar

pdf merki Dómnefndarálit, nóvember 2021

Baugur Bjólfs – vinningstillaga í samkeppni um skipulag- og hönnun áfangastaðar
Getum við bætt efni þessarar síðu?