Fara í efni

Bókasafn Héraðsbúa stendur fyrir fjölda viðburða

11.09.2025 Fréttir

Bókasafn Hérðasbúa heldur utan um fjölda viðburða á næstunni og ættu öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Stútfullur september

Í síðustu viku byrjaði safnið til að mynda með vikulegt hádegisjóga. Jógað er á þriðjudögum út september. Í síðustu viku var góð mæting og höfðu þátttakendur orð á því að þeir hefðu sofið ívið betur nóttina eftir.

Bókasafnið tekur þátt í Bras sem er menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Á meðal viðburða sem eru tengdir Bras verður ritlistasmiðjur fyrir börn og ungmenni þar sem Ævar Þór Benediktsson, eða Ævar vísindamaður eins og hann er stundum kallaður, mun stýra smiðjum fyrir 9-12 ára krakka annars vegar og 16-25 ára ungmenni hins vegar. Emla Bachman rithöfundur heldur svo utan um ritlistasmiðju fyrir þau sem eru í 7. – 10. bekk.

Ritlistasmiðjan fyrir 16-25 ára fékk styrk úr Uppbyggingasjóði Austurlands og er smiðja númer tvö, sú fyrri fór fram í mars og þá var Vigdís Hafliðadóttir leiðbeinandi.

Þann 17. september ætlar svo sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr, að vera með kvöldlestur fyrir börn á vegum safnsins í barnalauginni á Egilsstöðum. Laugin verður upphituð og er lagt upp með að eiga notalega stund saman. Viðburðurinn er hluti af Bras og verður tímasetning sett inn í viðburðardagatal Múlaþings og á miðla bókasafnsins um leið og hún liggur fyrir.

Síðustu viku mánaðarinns verður svo grúsknámskeið þar sem farið verður í gagnagrunna en námskeiðið er haldið í samstarfi bókasafnsins og Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Verkefnið fékk einnig styrk úr Uppbyggingarsjóði.

Þá eru fleiri viðburðir í bígerð og íbúar hvattir til að fylgjast með facebook síðu bókasafnsins þar sem starfsmenn þess dæla inn viðburðunum um leið og þeir liggja fyrir.

Framundan

Þessi skemmtilega upptalning er þó ekki tæmandi og á eingöngu við um september. Í bókasafninu fer fram metnaðarfull starfsemi þar sem safnið sinnir af mikilli natni því hlutverki sínu að vera samfélagsmiðja þar sem íbúar og gestir geta komið og tekið þátt, sér að kostnaðarlausu.

Í október verða til dæmis viðburðir vegna Kvennaárs, Bangsadagur, Dagar myrkurs, lestrastundir og margt fleira og því ekki úr vegi að gerast fylgjandi safnsins á miðlum þess og passa sig að missa ekki af neinu!

Bókasafn Héraðsbúa stendur fyrir fjölda viðburða
Getum við bætt efni þessarar síðu?