Í Múlaþingi er sterk hefð fyrir því að blóta þorrann og sést það einna best á þeim fjölda þorrablóta sem fara fram í sveitarfélaginu ár hvert. Þessi skemmtilega hefð á sér ríka og langa sögu og lyftir fólki og samfélögum upp í svartasta skammdeginu.
Börnin í Múlaþingi fara ekki varhluta af þessari skemmtun og hafa leik- og grunnskólarnir þann sið að fagna þorranum líka. Hver skóli gerir það með sínu nefi en sums staðar eru föndruð höfuðföt með þorraþema, haldin þorrablót, boðið í bóndadagskaffi og svo mætti lengi telja.
Á Borgarfirði eystra buðu leikskólabörn ömmum og öfum í notalega lestrarstund og kaffiveitingar í tilefni bóndadags síðastliðinn föstudag, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Ljósmyndir: Tinna Jóhanna Magnusson