Fara í efni

Bræðslan á Borgarfirði eystri 20 ára

31.07.2025 Fréttir Borgarfjörður

Um síðustu helgi var tónlistarhátíðin Bræðslan haldin í tuttugasta sinn á Borgarfirði eystri. Mikið var um dýrðir sem endra nær en dagskráin var þó sérstaklega vegleg í ár. Auk hinna hefðbundnu laugardagstónleika bættust við tónleikar með Emilíönu Torrini sem kom einmitt fram á fyrstu Bræðslutónleikunum fyrir 20 árum síðan.

Mikil utandagskrá er jafnan á Borgarfirði í aðdraganda Bræðslunnar og byrja gestir að tínast í fjörðinn strax í byrjun vikunnar. Tónleikahaldarar og aðrir aðstandendur viðburða á Borgarfirði eru sammála um að hátíðin hafi í alla staði gengið mjög vel og veðrið sýndi allar sínar bestu hliðar.

Í tilefni afmælisins veitti Múlaþing Bræðslunni virðingarvott fyrir árin tuttugu með því að setja upp vegvísi að gömlu síldarbræðslunni þaðan sem Bræðslan fær nafn sitt og er haldin ár hvert. Má telja víst að Bræðslan hafi átt stóran þátt í því að vekja jákvæða athygli á Borgarfirði og Austurlandi öllu, bæði sem áfangastað og áhugaverðum búsetukosti og ýta undir staðarstolt íbúa.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings færði aðstandendum Bræðslunnar virðingarvott í tilef…
Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings færði aðstandendum Bræðslunnar virðingarvott í tilefni afmælisins. Frá vinstri: Magni Ásgeirsson, Dagmar Ýr, Áskell Heiðar Ásgeirsson og Emilíana Torrini.
Getum við bætt efni þessarar síðu?