Fara í efni

Breyting á skipuriti og nýr sviðsstjóri

02.12.2025 Fréttir

Þann 12. nóvember síðastliðinn samþykkti sveitarstjórn Múlaþings drög að nýju skipuriti sveitarfélagsins sem mun gilda frá næstu áramótum.

Fram kom í máli sveitarstjóra á fundinum að „Breytingarnar miða að því að efla faglega stjórnsýslu, skýra ábyrgðarlínur og auka skilvirkni í starfsemi sveitarfélagsins. Nýtt skipurit endurspeglar betur raunverulegt hlutverk og ábyrgð mismunandi stjórnsýslusviða Múlaþings. Ein af ástæðum þess að farið er í breytinguna nú að tveir lykilstarfsmenn eru að ljúka sínum starfsferli á næsta ári og mikilvægt að bregðast við því þannig að röskun verði sem minnst og hlutverk eftirmanna verði skýr. Breytingarnar eru hannaðar með það að leiðarljósi að einfalda og tryggja stöðugleika í yfirfærslu ábyrgðar og hlutverka, þar sem eftirmenn lykilstarfsmanna taki við með skýrum verkferlum og afmörkuðu ábyrgðarsviði.“

Helstu breytingarnar snúa að því að svið stjórnsýslu- og fjármála verður skipt upp í þrjú svið:

Svið Undir sviði fellur
Stjórnsýslusvið Stjórnsýsla, kynningarmál, atvinnumál, menningarmál, fulltrúar sveitarstjóra
Fjármálasvið Áætlanir, uppgjör, bókhald, innheimta
Mannauðs og þjónustusvið Mannauður, laun, tölvu- og upplýsingatækni, skjalastjórn, þjónustuver

 

Auglýstar hafa verið stöður sviðsstjóra fjármála annarsvegar og stjórnsýslu hinsvegar. Sjá má nánari upplýsingar um þau störf hjá Intellecta. Umsóknarfrestur er til 11. desember næstkomandi.

Nýr sviðsstjóri mannauðs og þjónustu 

Á fundi byggðarráðs 2. desember 2025 var sú ákvörðun tekin að bjóða Sigrúnu Hólm Þórleifsdóttur verkefnastjóra mannauðs, starf sviðsstjóra mannauðs og þjónustu og mun hún taka við starfinu um næstu áramót. Sigrún Hólm hefur starfað í forystu mannauðsmála sveitarfélagsins frá sameiningu sveitarfélaganna árið 2020.

Sigrún er fædd og uppalin á Egilsstöðum. Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri, MS gráðu í forystu og stjórnun frá Bifröst og útskrifaðist á þessu ári með diplómagráðu á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Auk þess hefur hún lokið kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri og nám til löggildingar fasteigna- og skipasala frá Háskóla Íslands.

Sigrún hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, bæði í einka- og opinbera geiranum. Þá var Sigrún varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs 2018 -2020 og á þeim tíma einnig aðalmaður í atvinnu- og menningarmálanefnd og formaður jafnréttisnefndar.

Sigrúnu er óskað til hamingju með starfið.

Nýtt skipurit Múlaþings

 

Breyting á skipuriti og nýr sviðsstjóri
Getum við bætt efni þessarar síðu?