Fara í efni

Brotajárnssöfnun í Múlaþingi – Allir með!

25.06.2025 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Fyrirkomulag brotajárnssöfnunar heppnaðist vel í fyrra og verður endurtekið í ár, þó með breyttu sniði. Nú býðst öllum kostur á að nýta sér þjónustuna: einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, í þéttbýli og í dreifbýli. Þjónustan er gjaldfrjáls og er hvatt til þess að nýta sér hana.

Sú breyting verður á söfnuninni í ár að sveitarfélaginu verður skipt upp í þrjú söfnunarsvæði og verður eitt svæði tekið fyrir á hverju ári. Þannig fer söfnun fram á þriggja ára fresti á hverju svæði og verður byrjað á svæði 1. Svæðin eru:

  • Svæði 1 (2025) Seyðisfjörður, Borgarfjörður, Jökulsárhlíð, Hróarstunga, Hjaltastaðaþinghá og Eiðaþinghá
  • Svæði 2 (2026) Egilsstaðir, Fellabær, Jökuldalur, Fell, Skriðdalur og Vellir
  • Svæði 3 (2027) Djúpivogur, Berufjörður, Hamarsfjörður og Álftafjörður

Brotajárnssöfnunin hefst þriðjudaginn 19. ágúst og er nauðsynlegt að skrá sig hjá sveitarfélaginu fyrir þann tíma til að fá þjónustu.

Fram þarf að koma: nafn, símanúmer, heimilisfang, lýsing á brotajárni og áætlað magn. Taka þarf sérstaklega fram ef um er að ræða fyrirferðarmikið brotajárn svo sem stór og þung tæki.

Undir brotajárn falla allir málmar svo sem bárujárn, bílhræ, mótorar og girðinganet án óhreininda. Auk þess má losa sig við hjólbarða/dekk.

Nauðsynlegt er að safna brotajárni saman á aðgengilegan stað fyrir hirðubíl sem er búinn krana og getur tekið mest efni sjálfur. Mikilvægt er að brotajárn sé laust við rusl og óhreinindi en verktaka er heimilt að synja hirðu ef svo er ekki eða ef aðgengi er ábótavant. Verktaki hefur samband við skráða aðila áður en komið er á staðinn.

Sé um að ræða bíl eða ökutæki til förgunar er nauðsynlegt að það hafi verið afskráð áður en söfnun fer fram. Það er gert rafrænt á island.is/skilavottord.

Eigandi bíls sem fer í endurvinnslu fær endurgreitt skilagjald sem er í dag 30.000 kr. Þetta á þó ekki við um bíla sem eru skráðir fyrir 1980.

Frekari upplýsingar um afskráningu ökutækja má nálgast á island.is eða hjá Samgöngustofu.

Skráningu í brotajárnssöfnun og fyrirspurnir um hana má senda á umhverfisfulltrui@mulathing.is eða hringja í síma 4700-732.

Um er að ræða tilraunaverkefni og því óskað eftir góðu samstarfi við þá sem nýta sér þjónustuna. Hjálpumst að við að halda sveitarfélaginu hreinu og snyrtilegu.

Brotajárnssöfnun í Múlaþingi – Allir með!
Getum við bætt efni þessarar síðu?