Fara í efni

Hagnýtar upplýsingar í upphafi skólaárs

05.08.2022 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Nú fer að líða að því að skólarnir hefji göngu sína að nýju og haustboðarnir ljúfu, börn með skólatöskur fara að sjást á leið til og frá skóla. Þar af leiðandi vill Múlaþing koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri við íbúa sveitarfélagsins:

Upphaf leikskóla:

  • Leikskólinn Glaumbær á Borgarfirði kom úr sumarfríi 2. ágúst síðastliðinn.
  • Leikskóladeild Seyðisfjarðarskóla og tvær deildir í Tjarnarskógi á Egilsstöðum opna mánudaginn 8. ágúst
  • Hádegishöfði í Fellabæ, Bjarkartún á Djúpavogi og allar deildir á Tjarnarskógi opna mánudaginn 15. ágúst.
  • Leikskólinn í Brúarási opnar 16. ágúst.

Aðlögun nýrra leikskólabarna hefst hefst fljótlega og hafa leikskólastjórar nú þegar haft samband við foreldra varðandi tilhögun og upphaf aðlögunnar.

Skólasetningar í grunnskólum Múlaþings:

  • Brúarásskóli 22. ágúst
  • Djúpavogsskóli 22. ágúst
  • Egilsstaðaskóli 23. ágúst
  • Fellaskóli 22. ágúst
  • Grunnskólinn Borgarfirði Eystri 22. ágúst
  • Seyðisfjarðarskóli 23. Águst

Nánari upplýsingar um tímasetningar og þess háttar mun vera hægt að finna á heimasíðum skólanna og í Dagskránni þegar nær dregur.

Samskipti og samvera

Í upphafi skólaárs er gott að ræða samskipti við börn og brýna fyrir þeim umburðarlyndi og samkennd. Það er mikilvægt að ræða margbreytileika mannlífsins og útskýra að þó einhver skeri sig úr, hafi önnur áhugamál eða eigi við einhver vandamál að stríða þá þýði það ekki að viðkomandi eigi að vera skilið út undan eða því strítt. Foreldrar eru besta fyrirmyndin og því skiptir miklu að þau gangi fram með góðu fordæmi í hegðun og tali.

Samvera fjölskyldunnar stuðlar að vellíðan barna, styður við tengslamyndun og er ein besta forvörnin sem völ er á. Því eru fjölskyldur hvattar til þess að nýta haustið og veturinn í að skapa minningar saman og njóta samveru hvers við annað. Slíkar stundir geta falið í sér notalegar stundir heimavið eða hverskonar útivist.

Samspil skóla og heimilis

Samband og samskipti heimilis og skóla er mikilvægur þáttur í skólastarfi barna. Fram kemur á heimasíðu Heimilis og skóla að mikilvægt er fyrir foreldra að vera í góðu sambandi við kennara barna sinna, þannig er best hægt að styðja við velferð barnanna. Þá eru fundir og önnur fræðsla stór hluti starfsins og foreldrar eru hvattir til þess að sækja slíka viðburði.

Þá eru foreldrafélög starfrækt við alla skóla og eru hlutverk þeirra til dæmis að styðja við skólastarfið sem og að veita því aðhald og eftirlit, efla tengsla á milli skóla og heimilis og stuðla að velferð nemenda.

Reglur um útivistatíma breytast 1. september

Þann 1. september breytast útivistarreglurnar en þá mega börn sem eru 12 ára og yngri lengst vera úti til 20:00 og börn á aldrinum 13 – 16 ára mega lengst vera úti til klukkan 22:00.

 

 

 

Hagnýtar upplýsingar í upphafi skólaárs
Getum við bætt efni þessarar síðu?