Fara í efni

Hinsegin fræðsla í Múlaþingi

03.10.2023 Fréttir Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Október verður regnbogalitaður í Múlaþingi en þá koma fræðarar frá Samtökunum 78 með hinsegin fræðslu fyrir gríðarlega marga hópa fólks af öllum aldri. Er sú fræðsla hluti af þeim samningi sem sveitarfélagið gerði við Samtökin síðasta vor.

Verður fræðsla haldin fyrir nemendur í 3., 6. og 9. bekki allra grunnskóla í Múlaþingi, fyrir starfsfólk grunnskóla og félagsmiðstöðva og fyrir kjörna fulltrúa. Auk þess hafa Samtökin 78 nú þegar verið með fræðslu fyrir íþróttafélög og ýmsa aðra hópa sveitarfélagsins, líkt og starfsfólk leikskóla og búsetu. Þá fá í kjölfarið stjórnendur sveitarfélagsins einnig fræðslu.

Til viðbótar er boðið upp á opna fræðslu til foreldra og annarra áhugasamra á Djúpavogi, Egilsstöðum og Seyðisfirði en í þeirri fræðslu er fjallað um kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu. Farið er yfir helstu grunnhugtök og orðanotkun tengda hinseginleikanum og fjallað um starf Samtakanna 78.

Markmið allrar þessarar fræðslu er að stuðla að skilningi, draga úr fordómum og efla jákvæð samskipti. Að sjálfsögðu eru sem flest hvött til að mæta á fræðsluna, auka sinn eigin skilning og vera betur í stakk búin að standa við bakið á börnum og ungmennum í sveitarfélaginu.

Samtökin 78 eru hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi og standa fyrir fræðslu til grunn- og framhaldsskóla, bæði nemenda og starfsfólks, um málefni hinsegin fólks. Þá bjóða Samtökin einnig upp á gjaldfrjálsa ráðgjöf til hinsegin fólks, aðstandenda og fagfólks. Innan Samtakanna 78 eru ýmsir stuðningshópar starfandi og þar er virkt unglinga- og ungmennastarf einnig.

Þó svo að Samtökin 78 séu staðsett í töluverðri fjarlægð frá okkur í Múlaþingi þá er hægur leikur að fá hjá þeim ráðgjöf í síma og á vefsíðu Samtakanna samtokin78.is er hægt að viða að sér upplýsingum einnig. Þá er vert að nefna vefsíðuna Hinsegin frá Ö til A otila.is, þar sem hægt er að finna ýmiskonar fróðleik tengdan hinseginleikanum í allri sinni mynd.

Hinsegin fræðsla á Egilsstöðum: https://www.facebook.com/events/341872001632521/

Hinsegin fræðsla á Seyðisfirði: https://www.facebook.com/events/556986209900222/

Hinsegin fræðsla á Djúpavogi: https://www.facebook.com/events/692865169399353/

Hinsegin fræðsla fyrir íþróttalífið á Djúpavogi: https://www.facebook.com/events/3534984320099533/

Hinsegin fræðsla í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?