Fara í efni

Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins siglt úr höfnum Múlaþings

04.10.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins sigldi úr höfn á mánudaginn. Um ræðir norska skipið Spitsbergen sem bar 123 farþega og 82 í áhöfn. Spitsbergen átti að leggja að á Borgarfirði en ölduhæð gerði það að verkum að skipið lagði að á Seyðisfirði frá hádegi og til klukkan 20. 

Seyðisfjörður

 Rúnar Gunnarsson hafnavörður á Seyðisfirði segir að sumarið hafi gengið vonum framar: "Við gætum ekki verið ánægðari, þrátt fyrir þá þrjá daga sem voru eiginlega of stórir þegar um 4000 farþegar komu inn um höfnina samdægurs. Áætlanir skipa geta breyst og þau annað hvort komið degi fyrr eða degi seinna og þá lendum við í því að bærinn er ansi troðinn og innviðir ráða tæplega við" Rúnar heldur áfram: "En eftir að búið var að malbika að flotbryggju og rútusvæðið lagað varð svæðið allt annað og aðgengi og rútu umferð gekk smurt".

 Aðspurður um stöðu landtengingar segir Rúnar, "verkefnið er í fullum gangi og vonast er til að landtenging verði komin vel á leið næsta sumar, ef allt gengur verður hægt að tengja skipin sumarið 2025".

 Í gegnum Seyðisfjarðarhöfn komu 95.530 farþegi og 48.366 áhafnarmeðlimir í 114 skipum. Talin voru 123 þjóðerni í mannfjöldanum og þar má til gamans nefna ferðamenn frá Kambódíu, Botsvana, Eþíópíu og Falklandseyjum. Segja má að Seyðisfjörður hafi haft úr nægu að snúast yfir sumarið. 

Djúpivogur

Höfn Djúpavogs stóð frammi fyrir margslungnum verkefnum en Gauti Jóhannesson, staðgengill hafnarstjóra segir "Sumarið gekk fjári vel á Djúpavogi!.. sér í lagi í ljósi umfangsmikilla framkvæmda við höfnina, stóran hluta sumars var hluti hafnarsvæðisins lokað auk lagnavinnu á eftirsóttustu gönguleið bæjarins (við Eggin í Gleðivík)." "Allt hafðist þetta með eindæmum vel en það spilaði lykilþátt að hóa saman lykilaðilum bæjarins til að tala sig saman um hvernig best væri að leysa þær áskoranir sem við stóðum frammi fyrir."

Ferðaþjónustan hefur byggt sig upp á methraða á Djúpavogi: "Ferðaþjónustan stóð sig með eindæmum vel og allir lögðust á eitt við að láta þetta ganga upp, íbúar almennt ánægðir þrátt fyrir að þegar mest á lætur sé bærinn þétt skipaður ferðafólki. Því má ekki gleyma að fyrir 500 manna þorp er ansi yfirþyrmandi að fá 3000 ferðamenn." segir Gauti.

Varðandi framkvæmdirnar segir Gauti "Næsta sumar lítur rosalega vel út þegar almenninssalerni verða komin og gönguleiðin frá höfn að Gleðivík. Þegar búið verður að steypa þekjuna á bryggjunni geta rúturnar hringkeyrt um hafnarsvæðið og þurfa því ekki að bakka."

 

Borgarfjörður

Hafnavörður Borgarfjarðar, Jón Þórðarson segir sumarið hafa gengið þokkalega "Höfnin snýst aðallega um fiskinn yfir sumartímann hjá okkur en í kringum þau skip sem komu, gekk allt vel".  Það kann að gera mikla traffík við svæðið sökum mikillar aðsóknar ferðamanna í Hafnarhólmann en heimamenn horfa jákvæðum augum á strauminn inn í bæinn.

Eins og við er að búast við slíka aukningu skemmtiferðaskipa eru ýmsar framkvæmdir, viðbætur og lagfæringar í kortunum hjá höfnum Múlaþings. Sumarið var stórt og fundu íbúar, þjónustusamfélagið og ferðaþjónustan fyrir aukningu frá ári til árs. Uppbygging innviða og samtaktur spila lykilhlutverk í álagsdreyfingu og þjónustu við ferðamenn sem til okkar koma. Íbúm var til að mynda gríðarlega létt þegar Nettó á Egilsstöðum rýmkaði opnunartíma sinn yfir háönnina og þakklæti bílstjóra yfir malbikaðari leið að Borgarfirði ætlar engan endi að taka. 

Margt smátt gerir Múlaþing og íbúum þess enn betra. 

 

 

 

Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins siglt úr höfnum Múlaþings
Getum við bætt efni þessarar síðu?