Fara í efni

Dagskrá í Múlaþingi á Dögum myrkurs

27.10.2022 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Hátíðin Dagar myrkurs verður haldin á Austurlandi 31. október – 6. nóvember 2022 og er þetta í 23. skipti sem hátíðin er haldin. Dagar myrkurs er sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi sem hefur það að markmiði að leggja áherslu á viðburði sem hvetja til samveru íbúa og að bjóða hvert öðru uppá skemmtilega afþreyingu í skammdeginu. Gestir eru að sjálfsögðu velkomnir til að njóta með okkur. Hvatt er til þess að íbúar, félagasamtök og fyrirtæki búi til viðburði sem lýsa upp myrkrið, viðburði sem fela í sér rómatík, drauga, fornar hefðir í bland við nýjar. Hátíðin er í grunninn menningarhátíð og hafa fjölbreyttir menningarviðburðir verið í boði á þessum tíma ársins, allt frá árinu 2000.

Dagar Myrkurs eru að einhverju leiti tengdir Hrekkjavöku, en leiða má rök að því að Hrekkjavakan sé í grunninn ekki bandarísk hátíð, heldur keltnesk og mögulega íslensk. Sagan segir að 31. október ár hvert, hafi Keltar haldið Hátíð hinna dauðu en þar voru færðar þakkir fyrir uppskeru sumarsins og á þessum tíma tóku kuldinn og myrkrið við og dauðinn var allt umlykjandi – þetta voru einskonar áramót og þá var tími þar sem alls konar furðuverur fóru á kreik og menn gátu skynjað heimana að handan, séð drauga og álfa og spáð í framtíðina. Sambærileg hátíð var síðan haldin á Íslandi fyrir kristnitöku sem var kölluð Veturnætur. Á þessum tíma myndaðist einnig hefð fyrir því að kertum væri komið fyrir í útskornum rófum og næpum og ungir og aldnir fóru á milli húsa, klæddir búningum og með grímur. Þessi hátíð fluttist síðan til Vesturheims með Keltum og þekkjum við hana í dag sem Hrekkjavöku og þar komust þeir í kynni við graskerin sem eru mun stærri og auðveldari til útskurðar en rófur eða næpur. Þjóðfræðingurinn Terry Gunnell hefur einmitt bent á að Hrekkjavökuhátíðin eigi sér þannig í raun keltnestkan/íslenskan uppruna. Því má mjög gjarnan tengja Daga myrkurs við Hrekkjavöku.

Fjölbreyttir viðburðir verða í Múlaþingi og á Austurlandi öllu. Dagkránna má alla sjá á vefsíðu Daga Myrkurs.

Egilsstaðir

27. október

Bangsagisting á Bókasafni Héraðsbúa

Böngsum er boðin gisting á Bókasafninu á Bangsadaginn, 27. október 2022.

Komdu með bangsann þinn á Bókasafnið á milli klukkan 13 og 18 og sæktu hann aftur næsta dag á sama tíma. Myndir frá bangsagistingunni verða settar á samfélagsmiðla Bókasafnsins. 

2. nóvember

Dagar Myrkurs í Safnahúsinu. Í tilefni af Dögum myrkurs á Austurlandi bjóða Minjasafn Austurlands og Bókasafn Héraðsbúa upp á ratleik, ljóðaföndur, “break out” þraut og fleira skemmtilegt klukkan 13:00 - 18:00. Öll velkomin!

29. október

Hrekkjavökudjamm í Tehúsinu

4. nóvember

Hrollvekjukvöld í Tjarnargarðinum fyrir alla fjölskylduna frá klukkan 20:00 - 21:00.

Dagskráin hefst á hrollvekjusögu og síðan verður opið í skuggalega gönguleið sem krefst þess að leysa þrautir til þess að komast áfram. Gönguleiðin er tilvalin fyrir fjölskyldur og tekur hæfilegan tíma. Eftir að búið er að leysa þrautirnar er boðið upp á heitt kakó.

Börn yngri en 12 ára þurfa að mæta í fylgd með fullorðnum vegna útivistartíma barna.
Við hvetjum alla til að mæta í búningum!
Hrollvekjukvöldið er unnið af Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum með stuðningi frá Múlaþingi.

5. nóvember

Lista-ljós í Austri 
Verkefnið LISTA-LJÓS Í AUSTRI skiptist í nokkur námskeið í listsköpun og hönnun og listasýningu á afrakstri þátttakenda námskeiðanna sem opnar í Sláturhúsinu laugardaginn 5. nóvember 2022 klukkan 13:00 og stendur út mánuðinn.

Verkefnið er um leið þáttur af Listahátíðinni LIST ÁN LANDAMÆRA sem fram fer um allt land með það að markmiði að brjóta niður múra og stuðla að samstarfi ólíkra hópa í listsköpun bæði fatlaðra og annarra skapandi einstaklinga í samfélaginu. Með verkefninu er leitast við að brúa bilið milli ólíkra samfélagshópa með sköpun að leiðarljósi.

Þátttakendur verkefnisins hafa verið að skoða samspil ljóss og skugga og vinna að frjálsri listsköpun með fjölbreyttri tækni á vinnustofu verkefnisstjóra og á listnámsbraut í ME. Verkin eru mörg með skírskotun til Hrekkjavökuhátíðarinnar sem hefur átt sér tengingu við Daga Myrkurs á Austurlandi síðastliðin ár. Þátttakendurnir í listasmiðjunum koma frá Stólpa og Geðræktarmiðstöðinni Ásheimum en auk þeirra sýna nemendur Heiðdísar Höllu Bjarnadóttur í vöruhönnun og nemendur Ólafar Bjarkar Bragadóttur í sjónlistum verk sín.

Verkefnis- og sýningarstjóri er Ólöf Björk Bragadóttir, myndlistarmaður og myndlistarkennari.

LISTA-LJÓS Í AUSTRI er styrkt af Múlaþingi, í samstarfi við Stólpa hæfingu/iðju, Geðræktarmiðstöðina Ásheima og listnámsbraut ME.

 

Borgarfjörður Eystri

28. október 

Hrekkjavaka Blábjarga: Frystiklefinn og KHB klukkan 17:00 - 20:00.

KHB verður klætt í hrekkjavökubúning föstudagskvöldið 28. október.
Bjóðum krakkana velkomna frá klukkan 17:00-20:00.

5. nóvember

KHB Jólalestin kemur í bæinn.

 

Seyðisfjörður

30. október

Ljósmyndanámskeið í Skaftfelli
Haltu upp á DAGA MYRKURS með því að læra að taka ljósmyndir af nátthimninum!

Skaftfell býður upp á námskeið í næturljósmyndun með ljósmyndaranum Nikolas Graber á sunnudaginn, 30. október, klukkan 19:00 -21:00.

Námskeiðið mun fara fram að mestu utandyra, í bakgarði Austurvegs 42 (á bak við Skaftfell).

Verð fyrir fullorðna: 2.500 krónur. Frítt fyrir börn sem koma með.

Þátttakendur þurfa að koma með eigin myndavél (þarf að vera með manual stillingum) og gott er að koma með þrífót.

Skráning á fraedsla@skaftfell.is

31. október

Börn ganga í hús og bjóða grikk eða gott á milli klukkan 17:00 og 19:00 mánudaginn 31. október. Þau sem vilja bjóða börnin velkomin eru beðin um að hafa lifandi ljós við útidyrnar hjá sér.

2. nóvember

Kl. 20 - 22:00 | Kósýkvöld í Sundhöllinni með þægilegri lýsingu og léttum veitingum. 

4. nóvember

Klukkan 18:00 |  Afturgangan gengur frá Gömlu Vjelasmiðjunni að Hótel Öldu. Vjelasmiðjan verður opin á undan og hægt að skoða þær endurbætur sem hafa farið fram á húsinu. Nemendur í Seyðisfjarðarskóla sýna verk sín sem þau hafa unnið í tengslum við Daga myrkurs og flytja einnig tónlistaratriði. Opið á Öldunni eftir Myrkragöngu, kaffi og með því.

 

5. nóvember 

Klukkan 11:00 – 14:00 Sundhöllin á Seyðisfirði. Laugin verður upphituð.

Klukkan 14:15 – 15:30 Sérstök opnun fyrir ungabörn og foreldra þeirra þar sem Dagný leiðir ungbarnasundtíma. Hentar vel fyrir börn frá 4. mánaða - 1. árs. Aðgangskort í sund gildir og skráning á dagnyomars@gmail.com.

Myrkraball í Herðubreið fyrir nemendur í Seyðisfjarðarskóla.
Klukkan 14:00 - 15:00 fyrir leikskóladeild
Klukkan 16:00 - 17:00 fyrir 1. - 4. bekk
Klukkan 20:00 - 22:00 fyrir 5. - 10. bekk.

 

Djúpivogur

31. október

Kl. 18:00 | Grikk eða gott á Djúpavogi: Þeir sem vilja taka á móti krúttlegum en samt hræðilegum verum, setji ljóstýru fyrir utan húsið hjá sér til að bjóða myrkraverurnar velkomnar frá klukkan 18:00 - 20:00.

3. nóvember

Kl. 17:00 | Töfratré og ljósagangur. Í tilefni af Dögum myrkurs birtist töfratréð eina ferðina enn í Hálsaskógi. Að þessu sinni ætlar það að mæta á svæðið utan við afleggjarann upp að Aski og verður búið að koma sér fyrir á fimmtudaginn. Skógræktarfélagar bjóða börnum og fullorðnum að mæta klukkan 17:00 og fá sér heitt kakó áður en leitin að trénu hefst.

Kl. 20 - 21:00 | Kvöldopnun í Notó. Hrikalega flottar vörur á ógeðslega góðu verði. Nornirnar Urður, Verðandi og Skuld sjá um að aðstoða ykkur við að finna draugasögur í bókahillunum og og dusta köngulóarvefunum af með glöðu geði.

4. nóvember

Kl. 20:00 | Hryllingsbíó í fjárhúsunum á Teigarhorni klukkan 20:00. Í tilefni Daga myrkurs verður hryllingsbíó í fjárhúsunum á Teigarhorni. Hryllingsmynd verður sýnd á breiðtjaldi en boðið verður upp á popp og ískalt gos með. Hafa ber í huga að myndin er bönnuð innan 16 ára. Engin hiti er í húsinu og gott að vera vel klæddur, með teppi og ekki verra að hafa heita hressingu með.

Kl. 16:00 | Skálabrandur á Löngubúðarloftinu

Langabúð opnar kaffihúsið með ilmandi pönnukökur og rjúkandi kakó föstudaginn 4. nóvember frá kl. 16-18.
Sagt er að Skála-Brandur haldi til á Löngubúðarloftinu og þau sem treysta sér til geta laumast upp á loft með símana sína og athugað hvort þau verði hans vör. En í tilefni af Dögum Myrkurs hafa nemendur á unglingastigi Djúpavogsskóla grúskað í sögum af honum og glætt þær lífi með aðstoð tækninnar.

 

5. nóvember

Kl. 16:00 | Faðirvorahlaupið verður ræst klukkan 16:00 í Eyfreyjunesvíkinni (áningarstaðurinn rétt fyrir utan Teigarhorn). Hlaupið verður frá Teigarhorni að Rjóðri, líkt og Stefán Jónsson gerði forðum daga. Allir keppendur klæðast endurskinsvesti frá Sjóvá og lögreglufylgd verður í hlaupinu, ásamt Björgunarsveitinni Báru sem rekur lestina.
Öll eru velkomin að taka þátt, hvort heldur að hlaupa eða ganga.

Kl. 18:30 | Sviðaveisla í Hlöðunni á Bragðavöllum. Takmarkaðir miðar.

6. nóvember

Allra heilagra messa í Djúpavogskirkju klukkan 18:00. Notaleg samvera í kirkjunni á Dögum myrkurs, kveikt verður á kertum og látinna ástvina minnst. Kór Djúpavogskirkju undir stjórn Kristjáns Ingimarssonar syngur fallega sálma og lög.

Ljósmyndasamkeppni

Ár hvert er haldin ljósmyndasamkeppni sem nú hefur fest sig í sessi. Öllum er velkomið að taka þátt, eina skilyrðið er að þemað „Myrkrið“ njóti sín á myndunum sem sendar eru inn. Veitt eru verðlaun uppá 50.000.- fyrir fyrsta sætið og Austurbrú áskilur sér rétt til að nota innsendar myndir til að kynna hátíðina. Myndir skal senda inn á netfangið dagarmyrkurs@austurbru.is og er síðasti skiladagur 2. nóvember næstkomandi.

Samkeppni um best skreytta gluggann

Í ár ætlum við að bjóða íbúum að senda inn mynd af glugga sem þeir skreyta heima hjá sér og/eða í vinnunni. Best skreytti glugginn verður valinn og í verðlaun eru gjafabréf af svæðinu. Myndir skal senda inn á netfangið dagarmyrkurs@austurbru.is og er síðasti skiladagur 2. nóvember næstkomandi.

Dagskrá í Múlaþingi á Dögum myrkurs
Getum við bætt efni þessarar síðu?