Fara í efni

Þjálfun starfsmanna Tjarnarskógs í ART

13.06.2023 Fréttir Egilsstaðir

Í vetur fóru fimm starfsmenn frá Tjarnarskógi á námskeið í Art.

ART stendur fyrir Aggression Replacement Training og er fastmótað uppeldisfræðilegt þjálfunarmódel sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja óæskilega hegðun og kenna aðrar leiðir til að leysa samskipta-, tilfinninga- og hegðunarvanda. Módelið er byggt á ýmsum stefnum og straumum úr sálfræði til dæmis atferlismótun. ART var þróað í Bandaríkjunum af Arnold P. Goldstein, Barry Glick og John C. Gibbs.

Í ART er unnið með félagsfærni, sjálfsstjórn og siðferðisvitund þátttakenda. Með því að vinna með þessa þrjá þætti samhliða næst betri og varanlegri árangur heldur en ef aðeins væri unnið með einn þátt í einu. Þessir þættir eru meðal annars þjálfaðir með sýnikennslu, hlutverkaleik, jákvæðri styrkingu, æfingum og umræðum.

Á Tjarnarlandi hafa starfsmenn verið að vinna með hópa í ART undanfarin ár en nú verður hægt að vinna með elsta árganginn næsta vetur þar sem nægilega margir starfsmenn hafa lokið réttindanámskeiði. Nánar má lesa um ART hér https://www.isart.is.

Þjálfun starfsmanna Tjarnarskógs í ART
Getum við bætt efni þessarar síðu?