Fara í efni

Leikskólinn Hádegishöfði vígður formlega

17.11.2022 Fréttir Egilsstaðir

Leikskólinn Hádegishöfði flutti í nýtt húsnæði í október en nýja húsið var formlega vígt síðasta laugardag. MVA sá um framkvæmdina en fyrsta skóflustungan var tekin 18. júní 2021 og framkvæmdatíminn því rúmir 15 mánuðir. Byggingin er stórglæsileg, vítt til veggja og hátt til lofts en jafnframt hlýleg, vel skipulögð og hljóðvist mjög góð. Leikskólalóðin er skemmtilega hönnuð, sambland af náttúrulegum og skipulögðum svæðum.

Einkunnarorð Hádegishöfða eru „Án menntunar hjartans er engin menntun“ en tilvísunin er sótt til heimspekingsins Aristótelesar og vísar til þeirrar fullyrðingar að fróð manneskjan þarf einnig að vera góð. Leikskólinn starfar í anda hugmyndafræði Reggio Emilio þar sem áhersla er lögð á lýðræði í vinnubrögðum, takmarkalaust traust til virðingar fyrir nemendum og getu þeirra til að afla sér þekkingar og reynslu á eigin forsendum. Einnig er lögð áhersla á umhverfismenntun og flaggar skólinn Grænfána Landverndar.

Það er von okkar að það kraftmikla og faglega starf sem einkennt hefur leikskólastarfið í Hádegishöfða til þessa haldi áfram að þróast og blómstra í nýju húsnæði.

Leikskólinn Hádegishöfði vígður formlega
Getum við bætt efni þessarar síðu?