Fara í efni

Óður til hjálpsemi, hugrekkis og víðsýni - Hollvættir á heiði í Sláturhúsinu

21.11.2023 Fréttir Egilsstaðir

Það er óhætt að segja að frumsýningu Sláturhússins á fjölskyldu leiksýningunni Hollvættir á heiði hafi verið tekið með standandi lófataki og opnum örmum. Áhorfendur hafa verið nær einróma í lofi sínu og hafa flykkst í Sláturhúsið. Síðustu helgi var uppselt báða dagana og þurftu einhverjir frá að hverfa. Það er þó bót í máli að enn eru nokkrar sýningar eftir.

Leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins mætti á frumsýningu og birtust leikdómar í síðustu viku, þar fékk sýningin heilar fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Það er bæði heiður fyrir hópinn og hvatning fyrir Sláturhúsið að halda áfram á þeirri vegferð sem er að hefjast með atvinnuleikhúsi. Gagnrýnandi Mbl, Þorgeir Tryggvason, hafði meðal annars þetta að segja „það er allt viðeigandi við þetta upphafsverkefni, nýjan barnasöngleik Þórs Túlinius með tónlist Eyvindar Karlssonar og söngtexta Sævars Sigurgeirssonar. Viðfangsefnið er með skýra tengingu við þjóðsagnaarf og dýralíf Austurlands, leikhópurinn samsettur af heima- og aðkomufólki með ólíkan bakgrunn: atvinnufólki, vönum áhugamönnum, ungum nýgræðingum. Nokkuð sem að ætti að vera sjálfsagt mál í öllum leikhúsum en er það svo sannarlega ekki“. Um sýninguna sjálfa segir hann jafnframt „ Hollvættir á heiði er framúrskarandi söngleikur sem á erindi við öll börn og fylgihnetti þeirra. Óður til hjálpsemi, hugrekkis og víðsýni. Fullur af ást á náttúrunni og sögunum sem að hún hefur kveikt í hugum fólks um aldir“.

Leiklistargagnrýnandi Austurfréttar var einnig hrifin af sýningunni „ Leikararnir fara allir sem einn á kostum, vel studdir af gullfallegum og litríkum búningum, áhrifamiklum gervum og þénanlegri leikmynd. Með fallegri lýsingu og hljóðmynd verður til ævintýraheimur sem er okkur þó svo kunnuglegur“ Björg Björnsdóttir, Austurfrétt.

Það er einstaklega verðmætt að fá svona góðar undirtektir gagnrýnenda en dýrmætastar eru þó undirtektir áhorfenda, þeirra sem við erum að höfða til og vinna fyrir segir Ragnhildur Ásvaldsdóttir, forstöðumaður Sláturhússins. Að baki sýningarinnar liggur nefnilega langt og strangt vinnuferli sem að hófst fyrir rúmum tveimur árum þegar að ákvörðun var tekin um að freista gæfunnar og sækja um handritsstyrk og síðan í framhaldi um framleiðslustyrk til Sviðslistasjóðs. Það var einnig tekin ákvörðun strax í upphafi að þetta yrði atvinnuleiksýning og að við myndum tengja saman það blómlega áhugamannaleikstarf sem að finnst hér á Austurlandi og atvinnufólk úr leikhússenu Íslands. Það er því valinn manneskja í hverju rúmi og óhætt er að segja að hæfileikar allra fái að njóta sín.

Einungis eru tvær sýningarhelgar eftir og leikhópurinn treystir á að íbúar svæðisins fylli allar þær sýningar sem að eftir eru, 25. og 26.nóvember og 2. og 3. desember. Miðasala er á tix.is.

Óður til hjálpsemi, hugrekkis og víðsýni - Hollvættir á heiði í Sláturhúsinu
Getum við bætt efni þessarar síðu?