Fara í efni

Skógardagurinn mikli í Hallormsstaðaskógi 24. júní 2023

19.06.2023 Fréttir Egilsstaðir

Skógardagurinn mikli, eins og hann nefnist, hefur verið haldinn árlega í Hallormsstaðaskógi um Jónsmessuleytið allt frá árinu 2005. Skógardagurinn mikli er einn af aðalviðburðum sumarsins á Austurlandi. Skógardagurinn er samstarfsverkefni skógræktenda á svæðinu, Félags skógarbænda á Austurlandi og Skógræktarinnar. Einnig koma að deginum Félag sauðfjár- og kúabænda á Héraði og fjörðum. Nær 1800 manns hafa sótt dagskrá Skógardagsins ár hvert, svo verður vonandi einnig í ár, sem gerir því daginn stærsta einstaka viðburðinn í Múlaþingi á hverju sumri. Tilgangurinn með deginum er að kynna fyrir heimamönnum og gestum skógarmenningu, útivist í skógi, skógrækt og mikilvægi hennar sem framtíðaratvinnugrein á svæðinu. Austurland er þekkt fyrir sína víðfeðmu skóga, þeir eru einn af seglum landshlutans sem brýnt er að halda á lofti.

Á Skógardeginum er fjölbreytt dagskrá. Má þar nefna Íslandsmeistaramót í skógarhöggi, kúabændur bjóða upp á heilgrillað naut og sauðfjárbændur upp á grillað lambakjöt, einnig koma fram listamenn af Héraði, ýmsar þrautir fyrir yngstu kynslóðina svo eitthvað sé nefnt. Ketilkaffið og lummurnar á sínum stað.

Skógarhöggskeppni hefst klukkan 12:00
Náttúruskólinn sér um ýmsar þrautir og leiki fyrir börn.

13:00 Formleg dagskrá hefst í Mörkinni

  • Skemmtidagskrá á sviði
  • Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum býður upp á heilgrillað naut og með því.
  • Ketilkaffi, lummur, pylsur í hundraðavís og ormabrauð að hætti skógarmanna.
  • Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum býður upp á grillað lambakjöt.
  • Lokagreinar í skógarhöggi og Íslandsmeistarinn krýndur, verðlaun í boði MHG.

16:00 Allir fara heim saddir og kátir.

Skógardagurinn mikli í Hallormsstaðaskógi 24. júní 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?