Fara í efni

Úthlutun Uppbyggingarsjóðs Austurlands

06.12.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Í gær var úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands með hátíðlegri viðhöfn í Sláturhúsinu – menningarmiðstöð – á Egilsstöðum. Alls bárust 115 umsóknir upp á 222 milljónir, 55 umsóknir á sviði atvinnu og nýsköpunar, 54 á sviði menningar og 6 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki. Úthlutunarnefnd samþykkti styrkveitingar til 67 verkefna. Alls var sótt um styrki að upphæð um 222 milljónir króna en til úthlutunnar að þessu sinni voru 65 milljónir króna. Þá fjölgaði umsóknum í sjóðinn um 15% milli ára, nokkuð jafnt milli flokka, sem endurspeglar grósku í atvinnu og nýsköpun og það frjóa menningarstarf sem er á Austurlandi.

Meðal styrkhafa í ár er Sinfóníuhljómsveit Austurlands sem ætlar að halda tónleika vorið 2024 þar sem frumflutt verður nýtt verk eftir austfirska tónlistarmanninn Charles Ross. Hljómsveitin pantaði tónverk frá Charles árið 2021 og í vor munu Austfirðingar og aðrir gestir heyra afraksturinn. Einnig mun hljómsveitin flytja hina stórfenglegu sjöundu sinfóníu Ludwig van Beethoven á sömu tónleikum.

Austfirskar krásir, klasasamstarf matvælaframleiðenda og veitingahúsa á Austurlandi, styðja við matvælaframleiðendur á Austurlandi með því að koma vörum þeirra á framfæri í dagvöruverslunum fjórðungsins. Gangi verkefnið eftir mun austfirskum vörum verða stillt upp á áberandi stað í verslunum í landshlutanum undir merkingunni „Láttu stjörnuna leiða þig/Reach for the Austurland Star“ og sýnileiki austfirskra matvara mun aukast til muna.

Þetta er í síðasta sinn sem úthlutað er úr Uppbyggingarsjóðnum samkvæmt núgildandi sóknaráætlun Austurlands en hún rennur út í lok næsta árs. Lögð var rík áhersla á það í erindum gærdagsins að fleiri ráðuneyti tækju þátt í fjármögnun nýrrar sóknaráætlunnar.

Um verkefnin 67 sem hlutu styrk úr sjóðnum í gær má lesa hér.

Úthlutun Uppbyggingarsjóðs Austurlands
Getum við bætt efni þessarar síðu?