Fara í efni

Ofanflóðavarnir á Seyðisfirði

27.11.2023 Fréttir Seyðisfjörður

Vinna við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði hefur gengið vonum framar allt síðasta ár og eru garðarnir hver af öðrum að taka á sig mynd.

Fremsti hluti Öldugarðsins er kominn í fulla hæð, 23,5 metra yfir sjávarmáli (um 20 metra frá götu) og er stefnt að því að hefja vinnu við girðingar uppi á garðinum á næstu vikum.
Að öðru leiti er vinna við Öldugarðinn stopp þar til búið er að reisa keilur ofan við nýja húsbílastæðið og klára stækkun húsbílastæðisins og frágang á svæðinu.

Ástæðan er sú að aðgengi að svæðinu norðan Öldugarðsins í gegnum vinnusvæðið mun lokast þegar haldið verður áfram með Öldugarðinn og því nauðsynlegt að ljúka við alla vinnu norðan hans áður. Búið er að samþykkja skipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir byggingu keilna á svæðinu og fara framkvæmdir við það á fullt á næstu vikum.

Fremsti hluti Bakkagarðsins er einnig kominn í fulla hæð 30,5 metra yfir sjávarmáli (15 metra frá yfirborði) og mun áframhaldandi vinna við Bakkagarðinn bíða þess að búið verði að ljúka við sem mest af annarri vinnu á svæðinu. Búið er að vinna jarðvinnu fyrir undirstöður á Fjarðargarði og er hafin vinna við að raða upp stálgrindum.

Gera má ráð fyrir að verulega fari að hægjast á verkinu núna enda styttist í að veturinn fari að láta á sér kræla af fullum þunga en gera má ráð fyrir að framkvæmdir næsta árs snúi að mestu að því að koma upp keilum og vinna í svæðinu norðan Öldugarðs ásamt því að klára uppbyggingu á Fjarðargarði.

 

Ofanflóðavarnir á Seyðisfirði
Getum við bætt efni þessarar síðu?