Fara í efni

Öflugt ungmennaráð á fundi með sveitarstjórn

22.11.2023 Fréttir Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Bættar samgöngur innan Múlaþings, forvarnaraðgerðir gegn skjáfíkn, áskoranir íþróttafólks í sveitarfélaginu og forgangsröðun fjármuna var meðal þess sem ungmennaráð Múlaþings ræddi á sameiginlegum fundi ráðsins og sveitarstjórnar í liðinni viku. Fundurinn fór fram á Djúpavogi og er seinni fundur af tveimur sem ungmennaráð á með sveitarstjórn á hverju ári.

„Mikilvægt að koma sumu milliliðalaust til skila“

Þó að þau mál sem ungmennaráð tekur fyrir á ungmennaráðsfundum séu gjarnan send áfram til umfjöllunar og afgreiðslu hjá öðrum nefndum og ráðum innan sveitarfélagsins er mikilvægt að eiga beint samtal við sveitarstjórn, segir Karítas Mekkín Jónasdóttir, varaformaður ungmennaráðsins.

„Þetta er auðvitað góð æfing fyrir okkur að koma fram og flytja mál en það er líka mikilvægt að koma sumu milliliðalaust til skila, frá okkur til sveitarstjórnarinnar,“ segir Karítas Mekkín sem er annar tveggja fulltrúa Menntaskólans á Egilsstöðum í ráðinu.

Eftir fundinn snæddu ungmennaráð og sveitarstjórn hádegismat saman. Ungmennaráðið lauk deginum með skoðunarferðum um stofnanir sveitarfélagsins á Djúpavogi.

Öflugt ungmennaráð lykill að barnvænu sveitarfélagi

Múlaþing er í innleiðingarferli á verkefninu Barnvænt sveitarfélag en ungmennaráðið átti frumkvæði að aðild sveitarfélagsins. Megináhersla verkefnisins er að styðja sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Ferlið tekur að minnsta kosti tvö ár og skiptist í 8 skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni og gefur ótal tækifæri til þess að velta við steinum og spyrja hvort allt verklag og nálgun samræmist barnasáttmálanum,“ segir Dagný Erla Ómarsdóttir, verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags. „Öflugt ungmennaráð, eins og það sem er í Múlaþingi, er algjörlega lykillinn í þessari innleiðingu.“

Stór verkefni framundan hjá ungmennaráði

Það eru sannarlega mörg járn í eldinum hjá ungmennaráðinu en ráðið fékk til að mynda styrk frá Alcoa Fjarðaál fyrir samstarfsverkefni með ungmennaráðinu í Fjarðabyggð.

„Þetta verkefni er mér mjög kært og við erum stolt af því,“ segir Rebecca Lísbet Sharam, formaður ungmennaráðsins. „Verkefnið snýst um að gefa öllum túrandi einstaklingum í 9. og 10. bekk í báðum sveitarfélögum veglega gjöf með fjölnotatúrvörum,“ segir Rebecca, sem er fulltrúi Vegahússins í ungmennaráði.

Verkefnið sem kallað hefur verið „Túrvörugjöfin“ var fyrst unnið af ungmennaráði Múlaþings 2020 - 2022 og gaf góða raun en það eru skólahjúkrunarfræðingar í hverjum skóla sem sjá um fræðslu og afhendingu fyrir hönd ungmennaráðsins. Gjöfin samanstendur af brók, bikar og bindum ásamt aukahlutum til þess að auðvelda notkun og þvott. „Þetta er bæði sparnaður fyrir þær sem fá gjöfina, enda einnota túrvörur frekar dýrar, en sparnaðurinn er ekki síður fyrir umhverfið“ segir Rebecca.

Ýtið á myndir til að skoða nánar

Öflugt ungmennaráð á fundi með sveitarstjórn
Getum við bætt efni þessarar síðu?