Fara í efni

Veðurhorfur og mat á aðstæðum á Seyðisfirði, 24.11

24.11.2022 Fréttir Seyðisfjörður

Á meðan úrkomutíð er á Austfjörðum verða daglegar fréttir um aðstæður á Seyðisfirði birtar á Bloggsíðu Veðurstofu Íslands þannig að íbúar geti fylgst með þróun mála. Fréttir verða með sama sniði og í fyrra og munu upplýsingar birtast daglega fyrir hádegi. Þegar aðstæður verða orðnar skaplegri verður fréttum fækkað og birtar þar vikulega.

Eftirfarandi kemur fram á bloggsíðu Veðurstofunna í dag, 24.11. 2022:

Veðurhorfur og mat á aðstæðum

Úrkoma síðasta sólarhring er svipuð og veðurspár gerðu ráð fyrir en rúmlega 60 mm hafa skilað sér í mæla á Seyðisfirði. Mest hefur úrkoman verið í Neðri-Botnum. Í fyrstu féll úrkoman í formi snævar eða slyddu niður í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli en í morgun fór snjó að taka upp.

Hæg hreyfing hefur verið á Búðarhrygg síðasta sólarhring eins og hefur verið síðustu daga. Hreyfing á Búðarhrygg síðasta sólarhring samkvæmt bylgjuvíxlmælinum er um 2-5 mm, og lítil eða engin í Þófanum.

Spáin gerir enn ráð fyrir talsverðri úrkomu á Austfjörðum næsta sólarhring og búast má við yfir 80 mm á Seyðisfirði fram á laugardag. Í dag og í kvöld má búast við í austlægari átt með talsverðri úrkomu og hlýindum og því má búast við að það rigni efst í fjallatoppa. Spáin gerir svo ráð fyrir talsvert minni úrkomu á morgun en þó viðvarandi úrkomu allan daginn.

Töluverð óvissa er enn í veðurspá fyrir næstu viku og fyrir helgina. Núverandi spá gerir ráð fyrir því að það dragi úr úrkomu um helgina en það verða skil sem ganga hratt yfir seinnipart laugardags. Útlit er fyrir að lát verði á þrálátri austlægri átt eftir helgi og von á að þar með dragi einnig úr úrkomu á austanverðu landinu.

Vatnshæð í borholum er ennþá fremur há. Hún lækkaði síðustu daga þegar dró úr úrkomu en er farin að rísa aftur eftir úrkomu gærdagsins. Ekki þykir ástæða til bregðast við með rýmingu en fylgst er vel með aðstæðum. Vinna í lækjum og skriðufarvegum eða umferð fólks við farvegi eða á göngustígum meðfram skriðufarvegum er ekki æskileg. Þetta á sérstaklega við um Búðará þar sem hryggurinn innan við upptök skriðunnar frá 2020 hefur hreyfst og yfirborðsjarðlög kunna að vera óstöðug og smáspýjur gætu fallið.

Veðurhorfur og mat á aðstæðum á Seyðisfirði, 24.11
Getum við bætt efni þessarar síðu?