Fara í efni

Dagar myrkurs: Kallað eftir viðburðum

25.09.2025 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Hin árlega byggðahátíð, Dagar myrkurs, fer fram dagana 27. október til 2. nóvember næstkomandi. Hátíðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem sameiginleg hátíð allra íbúa á Austurlandi þar sem fjölbreyttir viðburðir og samvera eru í forgrunni.

Hátíðin fer fram í byrjun vetrar og hefur sterka tengingu við hátíðir sem haldnar hafa verið á þeim tíma frá fornu fari. Á Dögum myrkurs heilsum við vetrinum, upphefjum myrkrið, hið yfirnáttúrulega, rómantík og gamla siði og efnum til viðburða sem krydda tilveruna. Hátíðin stendur yfir í heila viku í lok október og/eða byrjun nóvember. Hún er haldin stuttu eftir eða í kringum fyrsta vetrardag og hrekkjavakan er innan hátíðarinnar.

Stofnanir, félagasamtök og einstaklingar í Múlaþingi hafa í gegnum tíðina verið dugleg að taka þátt í Dögum myrkurs með fjölbreyttu viðburðahaldi. Austurbrú heldur utan um hátíðina og ætlunin er að safna upplýsingum um það sem verður um að vera á einn stað.

Til að viðburðir komist í þessa sameiginlegu dagskrá þurfa upplýsingar um þá að berast fyrir 15. október í gegnum þetta form: https://forms.gle/NuG73pQhLoShJrRe7

Nánari upplýsingar veitir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, deildarstjóri menningarmála: elsa.bjorgvinsdottir@mulathing.is

Mynd: Þuríður Elísa Harðardóttir. Vinningsmynd í ljósmyndasamkeppni Daga myrkurs 2024
Mynd: Þuríður Elísa Harðardóttir. Vinningsmynd í ljósmyndasamkeppni Daga myrkurs 2024
Getum við bætt efni þessarar síðu?