Hammondhátíð Djúpavogs hefst venju samkvæmt á sumardaginn fyrsta. Þar mun fjölbreyttur hópur tónlistarfólks stíga á svið í sannkallaðri tónlistarveislu sem stendur yfir í fjóra daga.
Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2006 og markmið hennar er sem fyrr að heiðra Hammondorgelið en eftir því sem næst verður komist er þetta eina hátíðin í heiminum sem tileinkuð er því hljóðfæri. Hátíðin hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin og er nú ein af elstu og stærstu tónlistarhátíðum sem fram fara á landsbyggðinni. „Dagskrá hátíðarinnar í ár er einkar glæsileg og þar má finna jafnt heimamenn sem landsþekkt tónlistarfólk“ segir Ólafur Björnsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. „Á upphafskvöldinu verður boðið upp á Nönnu, Rakel og Salóme Katrínu ásamt hljómsveit, auk þess sem heimamanneskjan Ríkey Elísdóttir kemur fram ásamt eigin hljómsveit. Á föstudagskvöldinu stíga norðfirska hljómsveitin SúEllen og FM Belfast á stokk. Laugardagskvöldið er í höndum Jónasar Sig og Ritvéla framtíðarinnar og á lokatónleikunum, sem fram fara í Djúpavogskirkju á sunnudeginum, mætir Páll Óskar ásamt þeim Tómasi Jónssyni og Ómari Guðjónssyni.“
Í kringum sjálfa hátíðina hefur myndast hefð fyrir viðamikilli „utandagskrá“ þar sem fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklingar á Djúpavogi bjóða upp á fjölbreytta viðburði. Meðal þess sem í boði verður í ár eru brennómót, timburmannaganga, skotmót, kvikmyndasýning og kökubasar. Þá verður mikið um að vera í Gömlu kirkjunni en hollvinasamtök hennar hafa undanfarið unnið að endurbótum á henni. Þar verður m.a. boðið upp á morgunkaffi, hæglætismarkað, gongslökun og jurtamandölugerð svo eitthvað sé nefnt.
Síðast en ekki síst verður nýr orgelstígur formlega vígður á sumardaginn fyrsta að lokinni skrúðgöngu frá Gömlu kirkjunni en það er Cittaslow ráð Djúpavogs sem hefur haft veg og vanda af gerð hans. Að sögn Írisar Birgisdóttur sem situr í ráðinu er löng hefð fyrir því að skreyta bæinn á meðan á hátíðinni stendur, m.a. með eftirlíkingum af Hammondorgelum. Hugmyndin með stígnum hafi hins vegar verið sú að koma upp varanlegu listaverki sem minnti allan ársins hring á að Djúpivogur er Hammondbærinn.