Síðastliðið vor bauð skóla- og frístundaþjónusta Múlaþings upp á foreldranámskeið fyrir forsjáraðila barna sem fædd voru árið 2022. Því miður var þátttaka ekki næg og námskeiðið féll niður. Nú er stefnt að því að endurvekja þetta námskeið og er því forsjáraðilum barna sem fædd voru árin 2022 og 2023 boðið að sitja námskeiðið á haustdögum gegn vægu gjaldi.
Börn á aldrinum 2–3 ára taka stórt þroskastökk sem einkennist af miklum breytingum á skömmum tíma. Má þar nefna:
- Málþroskanum fleygir fram en börn fara að setja saman 2–4 orða setningar.
- Börnin sýna aukið sjálfstæði, vilja gera hluti sjálf og verða meðvitaðri um eigin vilja og skoðanir.
- Hreyfiþroskinn þróast, þau hlaupa, klifra, byggja úr kubbum og byrja að krota línur og hringi.
- Notkun ímyndunarafls eykst og börnin sýna meiri samkennd.
Þessum breytingum fylgir gjarnan krefjandi hegðun sem oft er kölluð „tveggja ára þrjóskuskeiðið“. Margir foreldrar upplifa þetta tímabil sem áskorun og leita leiða til að styðja börnin sín í gegnum þessar breytingar. Stundum festast samskipti foreldra og barna í mynstri sem erfitt er að breyta síðar meir.
Markmið námskeiðsins er að veita innsýn í þroska barna á þessum aldri, fjalla um tengslamyndun, matartíma, skjátíma og hvernig hægt er að styðja við sjálfstæða leikgleði barnsins.
Námskeiðið er í fjarfundi (á teams), fjögur skipti, tveir tímar í senn og er fyrsti tími í lok október, eða:
- Mánudaginn 27. október klukkan 20:00 – 22:00
- Mánudaginn 3. nóvember klukkan 20:00 – 22:00
- Mánudaginn 10. nóvember klukkan 20:00 – 22:00
- Mánudaginn 17. nóvember klukkan 20:00 – 22:00
Skráningargjald er 7.500 krónur á fjölskyldu.
Leiðbeinendur eru Berglind Brynjólfsdóttir og Linda Björk Oddsdóttir barnasálfræðingar á Sálstofunni. Þær hafa báðar sinnt ráðgjöf til leikskóla og foreldra ásamt því að hafa komið að greiningarvinnu barna á leikskólaaldri í Múlaþingi.