Um verslunarmannahelgina var unglingalandsmót UMFÍ haldið á Egilsstöðum í blíðskapar veðri. Mótið heppnaðist með eindæmum vel, dagskráin var vel skipulögð og þátttaka með besta móti.
Dagmar Ýr sveitastjóri Múlaþings er í skýjunum eftir helgina: ,,Þetta gekk eins og í sögu, keppendur sýndu sínar bestu hliðar og ekki annað að sjá en að allir hafi skemmt sér vel og átt góða daga á Egilsstöðum yfir verslunarmannahelgina."
Til þess að svo megi verða þarf samfélagið að koma saman og leggja sitt af mörkum og það gerðu íbúar Múlaþings og aðrir íbúar Austurlands svo sannarlega. Íbúar skráðu sig sem sjálfboðaliða, verslun og þjónusta tjaldaði öllu til svo gesti skorti ekkert og starfsfólk fyrirtækja og stofnanna var kallað út til að leggja hönd á plóg.
Múlaþing þakkar öllum sem komu að mótinu með einum eða örðum hætti kærlega fyrir þeirra framlag.
Að loknu móti sagði Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ ,,Það var einstakt að koma og fá tækifæri til að njóta samveru með fjölskyldu og vinum á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum. Gildi Ungmennafélagshreyfingarinnar komu skýrt fram í allri framkvæmd mótsins og það var sérstaklega ánægjulegt að upplifa fagmennsku og jákvætt viðhorf þeirra sem að mótinu stóðu. Upp úr stendur gleðin sem skein í gegn í brosi þátttakenda og ógleymanlegar minningar.“
Jónína Brynjólfsdóttir formaður framkvæmdarnefnar mótsins tók undir orð formannsins og sagði ,,Mótið heppnaðist frábærlega, þökk sé sameiginlegu átaki íþróttahreyfingarinnar, samfélagsins og sveitarfélagsins. Fjöldi sjálfboðaliða sameinaðist og úr varð einstök hátíð frá morgni til kvölds þar sem gleðin var allsráðandi og ekkert skyggði á stemninguna. Verslun og þjónusta tóku brosandi á móti öllum gestum mótsins og flæði fólks um bæinn gekk hratt og vel. Starfsmenn sveitarfélagsins hafa hlotið verðskuldað lof fyrir faglegt og jákvætt samstarf. Ég hef sjaldan, ef nokkurn tímann, verið jafn stolt af því að tilheyra þessu einstaka samfélagi hér fyrir austan."
Þá er þátttakendum og gestum öllum þakkað fyrir komuna og vonandi sjást sem flest á Sauðárkróki að ári liðnu!

Mynd: Gunnar Gunnarsson fyrir UMFÍ

Mydn: Gunnhildur Lind fyrir UMFÍ

Mynd: Gunnar Gunnarsson fyrir UMFÍ

Mynd: Unnar Erlingsson fyrir UMFÍ